Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 14:23:00 (393)

     Steingrímur Hermannsson :
     Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. nefndi þennan samning farseðil okkar inn í 21. öldina, eða ég hygg að hann hafi notað þau orð. Með því lýsir hann að sjálfsögðu mikilvægi þessa samnings. Ég get tekið undir það með hæstv. utanrrh. að samningurinn er ákaflega mikilvægur og líklega mikilvægari en þátttaka okkar í Atlantshafsbandalaginu. Ég vil ekki bera hann saman við útfærslu landhelginnar. Það var alveg sérstakt mál. En mér kemur á óvart að hæstv. utanrrh. getur ekki hugsað sér að fallast á að samningurinn verði lagður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þegar hann er svo mikilvægur.

    Í þessari umræðu náum við ekki að ræða nema lítinn hluta þessa gífurlega samnings. Ég tel mig vera kunnugri þessum samningi en margir aðrir en því fer víðs fjarri að ég hafi haft tækifæri til að kynna mér nema brot af samningnum. Við framsóknarmenn erum ákveðnir í því að skoða þennan samning mjög vandlega. Við göngum ekki í þá skoðun með neina glýju í augum. Við erum ekki þeirrar skoðunar að við höfum fengið allt fyrir ekkert eins og hæstv. utanrrh. hefur haft eftir einum starfsfélaga sínum. Því fer víðs fjarri að mínu mati.
    Ég ætla að reyna í þessum orðum að draga upp nokkra mynd af kostum og göllum þessa samnings. Ég ætla að reyna að gera mér og ykkur nokkra grein fyrir því hvaða kostir kunna að fylgja því að taka þátt í þessum samningi, taka þátt í þeim samruna sem hæstv. utanrrh. talar um í Evrópu og hvaða ókostir, því að mínu mati er hvort tveggja að finna í þessum samningi. Þar er að finna kosti og þar er líka að finna stóra ókosti. Það er að finna stórar hættur í þessum samningi. Það er að finna hættur í því að taka þátt í EES og í þessum samningi. Það er að finna hættur bæði í því að taka þátt og líka hættur í því að vera fyrir utan. Þetta er áreiðanlega langsamlega viðamesti samningurinn sem við höfum gert á alþjóðlegum vettvangi og sá sem getur haft hvað mestar og örlagaríkastar afleiðingar fyrir þjóðina.
    Við settum fram óskir okkar um að taka þátt í þessu viðræðuferli í mars 1989 og þá settum við fram okkar óskir og kröfur um fyrirvara. Fyrsta ósk okkar og sú sem við lögðum höfuðáherslu á var að fá fullt tollfrelsi fyrir sjávarafurðir. Við höfum ekki fengið það. En ég hlýt að viðurkenna að ef náðst hefur 95--96% tollfrelsi, þá er það meira en ég bjóst við fyrir nokkrum dögum. Og við hljótum að skoða það mjög vandlega sem hefur náðst. Við höfum rætt það í utanrmn. í morgun og fengið ýmsar skýringar, en við þurfum að skoða það, hygg ég, töluvert betur, t.d. að gera okkur enn gleggri grein fyrir því hvort fullunnar sjávarafurðir í neytendapakkningum eru með það lága tolla að ekki valdi neinum vandræðum á því mikilvæga sviði. Þarna er líka um það að ræða ef slíkar vörur eru blandaðar með öðru, t.d. landbúnaðarafurðum. Falla þær þá undir þessa lægri tolla, o.s.frv.? En ég vil taka það fram á þessari stundu að ég tel að tollfrelsi með sjávarafurðir hafi mjög mikið náðst og vissulega er það mikils virði fyrir íslenskan sjávarútveg.
    Með fyrirvarana hins vegar eru fleiri vafaatriði að mínu mati. Það er hárrétt hjá hæstv. utanrrh. að við tókum þann kostinn í síðustu ríkisstjórn að flytja á Alþingi frv. til laga um erlenda fjárfestingu og ég vil gjarnan orða það svo að setja þar í girðingu fyrir erlenda fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi og frumvinnslu sjávarafurða. Mér sýnist að þetta haldi. Samkvæmt þeim gögnum sem við höfum séð eru ákvæði hinna nýju laga viðurkennd af okkar viðsemjendum.
    En í þessum sömu lögum eru ýmis önnur ákvæði. Þar er t.d. ákvæði um eignaraðild útlendinga að íslenskum bönkum og leyfi til að setja hér á fót banka. Heldur það? Mér skilst að það muni ekki halda eftir 1996 þegar fullt frelsi verður á flutningi fjármagns. Með öðrum orðum verði þessi ákvæði að falla út? Hvaða stefnu ætlar þá hæstv. núv. ríkisstjórn, og vonandi ný þegar kemur að 1996, að hafa í þessu sambandi? Er það enn þá svo að þessi ríkisstjórn ætlar sér að einkavæða bankana og jafnvel selja? Ég vara mjög við slíkri stefnu. Að mínu mati kemur hún alls ekki til greina í þeirri stöðu sem við erum nú að horfast í augu við í sambandi við þennan samning. Það hlýtur að verða nauðsynlegt að hafa öflugan íslenskan banka sem getur staðist þá samkeppni sem verður á fullkomlega frjálsum bankamarkaði Evrópska efnahagssvæðisins.
    Það eru líka önnur ákvæði í þeim lögum sem mér skilst nú að öll þurfi að víkja, við þurfum þá að meta hvort við þolum það, t.d. ákvæði um hámarksfjárfestingu erlendra aðila í íslenskum iðnaði sem samkvæmt lögunum, ef ég man rétt, er bundin við 250 millj. kr. á ári. Í lögunum eru ákvæði um það að erlendir einstaklingar þurfi að vera búsettir hér í eitt ár áður en þeir fá sama rétt og Íslendingar til fjárfestingar í landinu. Ég skil það svo að þetta allt þurfi að víkja. Við þurfum að borga m.a. með því að þurrka út öll slík ákvæði. Að sjálfsögðu hljótum við að þurfa að meta það hvort við viljum undirgangast þessar breytingar á lögum um erlenda fjárfestingu. Og reyndar er fleira þarna í, t.d. er sumt háð samþykki viðskrh. svo að eitthvað sé nefnt. Þarf það líka að víkja? Getum við ekki haft slíkt eftirlit með erlendri fjárfestingu? Ég fyrir mitt leyti hef ekki fengið þetta nægilega upplýst en viðurkenni það að þegar við settum þessi lög var okkur ljóst að við kynnum að lenda í erfiðleikum með sum þessi atriði. En ég gerði mér vonir um að okkar samningamenn mundu beita sér fyrir því að við fengjum engu að síður að halda slíkum sérákvæðum fyrir þessa litlu þjóð.
    Annar stór fyrirvari sem við vorum með og hæstv. utanrrh. segir að engum vandræðum valdi er fyrirvari um erlenda fjárfestingu í orkulindum. Okkur var tjáð að þessi fyrirvari muni halda svo lengi sem virkjun orkulinda er einkaréttur ríkisins. Svo er um vatnsaflið, svo er ekki enn þá um jarðhitann en ég tel að það hafi orðið samkomulag um það í síðustu ríkisstjórn að svo yrði einnig um hann. En nú lesum við í hvítri bók að það eigi jafnvel að einkavæða orkufyrirtækin og selja þau einstaklingum. Og við hljótum að spyrja: Er það virkilega svo? Og það hlýtur að ráða mjög afstöðu okkar til þessa máls í heild sinni. Er það virkilega ætlun hæstv. ríkisstjórnar að einkavæða orkufyrirtækin og hverjir kaupa þau þá? Hverjir kaupa þá orkufyrirtækin okkar? Ætli það verði ekki þeir sömu sem kaupa bankana, erlend stórfyrirtæki? Þetta er mjög stórt atriði sem við verðum að fá svör við sem allra fyrst.
    Þriðji fyrirvarinn, sem ég vil nefna og reyndar tengist flutningi fjármagns og var í fyrstu felldur undir það en síðan rætt alveg sérstaklega um, eru kaup á landi. Um þennan fyrirvara er reyndar fjallað í lögum um erlenda fjárfestingu hér á landi. Þar eru sérákvæði sem segja að til að kaupa fasteign hér á landi þurfi maður að vera íslenskur ríkisborgari eða hafa verið búsettur hér í fimm ár. Samkvæmt grundvallaratriðum þessa samnings munum við ekki geta haldið kröfu um ríkisborgararétt, en líklega um fimm ára búsetu.
    Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að þetta mál var rætt í fyrri ríksstjórn þegar í október í fyrra og einnig rétt að breytingar á lögum um landareign, og kannski ýmsum lögum, voru ekki undirbúnar af fyrri ríkisstjórn. Hins vegar vek ég athygli á því að þessi ríkisstjórn hefur bráðum setið í sex mánuði og ég trúi ekki öðru, fyrst svo mikil áhersla er lögð á þetta, en að hæstv. núv. landbrh. hafi þessar reglur tilbúnar. Við höfum séð ýmislegt í þessu sambandi. Við höfum séð reglur sem Írar hafa sett, ef ég man rétt, um sjö ára búsetu og við vitum um reglur sem Danir hafa sett o.s.frv. Við höfum séð meðferð á þessu fyrir dómstólum þannig að það liggur æði miklu meira fyrir nú í raun heldur en lá fyrir þegar málin voru rædd í október á sl. ári. Og ég spyr: Er þetta tilbúið? Við hljótum að þurfa að sjá þessar girðingar, sem svo eru kallaðar, áður en við getum gert upp hug okkar til samningsins í heild sinni.
    Ég hef aldrei nokkurn tíma lýst því að ég telji að hæstv. utanrrh. vilji selja landið. Mér dettur það ekki í hug. Engu að síður finnst mér satt að segja landakaup í þessari umræðu of mikið takmörkuð við kaup á landi í ágóðaskyni. Hvað er ágóðaskyn? Er það í ágóðaskyni að kaupa upp einn dalinn til að útbúa þar sumarsetur fyrir forustumenn fyrirtækisins? Að leyfa þeim að veiða í ánni eða ganga til rjúpna á haustin? Er það í ágóðaskyni? Ég held það kunni að reynast erfitt að sanna að það sé í ágóðaskyni og ég vara við slíkri túlkun. Það ber að takmarka og koma í veg fyrir landakaup eins og hægt er. Ég viðurkenni að það er ætíð hægt að fara á bak við slík ákvæði, því miður, og kannski gert þegar í dag en það ber að koma í veg fyrir meiri háttar eign erlendra aðila að íslensku landi, og ég kalla það meiri háttar eign ef erlendur aðili eignast hér dal. Menn hafa nánast haft í flimtingum hvort það sé meiri háttar eign ef erlendur aðili kaupir Laxárdal í Dalasýslu. Svo sannarlega er það meiri háttar eign. Þarna er um svo mikilvægt ákvæði að ræða og stóra hluti að við hljótum að biðja um upplýsingar um það sem allra, allra fyrst og ég ætla ekki hér á þessari stundu að bollaleggja um það hvernig þetta megi gera. Þetta er, held ég, mjög flókið lagalegt mál en mál sem verður að leysa.
    Aðrir fyrirvarar sem við settum voru í fyrsta lagi að við undirgöngumst ekki yfirþjóðlegar stofnanir. Ég tel að þess sé gætt. Ég viðurkenni að vísu að dómstóllinn er það að nokkru leyti. Ég er óánægður með skipan dómstólsins og ég hef hvað eftir annað spurt að því hvers vegna í ósköpunum var ekki unnt að skipa dómstólinn jafnt frá báðum aðilum. Það er miklu meira sannfærandi því að málefni sem fyrir dómstólinn koma eru jafnstór fyrir báða aðilana þó að aðrir séu tólf og hinir séu sex. Það breytir engu og eftir að ég hef rætt þetta við íslenska sérfræðinga í lögum hef ég líka fengið sama álit, að það sé mjög óviðeigandi að dómstóllinn er ójafnt skipaður.
    Því miður er líklega engu hægt að breyta í þessum samningi. Þó að stafir hafi ekki verið settir undir hann hefur hann náttúrlega verið bókaður sem samþykktur í fundargerðum en ég hlýt að láta þetta koma fram sem athugasemd við þennan samning.
    Ég hef nú rakið meginfyrirvara og hæstv. utanrrh. segir að þeirra sé allra gætt og þeir séu allir tryggir. Ég get ekki að öllu leyti fallist á það og alveg sérstaklega með landakaupin. Reyndar á ég eftir að nefna einn fyrirvara sem er stór og það eru fólksflutningar sem við höfum ætíð verið sammála um að yrði að vera unnt að takmarka. Hæstv. utanrrh. segir að það sé í lagi með þessu sérstaka ákvæði, sem eigi fyrst og fremst við Ísland, sem heimilar viðkomandi ríki, í þessu tilfelli okkur Íslendingum, að grípa til ráðstafana ef samningurinn valdi einhverjum erfiðleikum á einstökum sviðum efnahagslífs í viðkomandi landi. Og það segir, ef ég man rétt, um þetta eins og það er bókað: Meiri háttar röskun eða hvað við viljum kalla það.
    Hvað er meiri háttar í þessu sambandi? Hvað þarf atvinnuleysi hér að vera orðið mikið til að talist geti meiri háttar? Í þessu sambandi er að sjálfsögðu nauðsynlegt að fá mjög góðar upplýsingar um öll réttindi og skyldur okkar gagnvart því fólki sem hingað kemur til landsins undir þessu frelsi. Þar er um gífurlega stórt mál að ræða. Njóta slíkir aðilar t.d. réttinda hér í tryggingum, í ellilífeyri eða almannatryggingum o.s.frv.? Hver eru réttindi þessara aðila og hverjar eru skyldur okkar gagnvart þeim aðilum sem hingað koma? Það er mjög athyglisvert sem forseti Alþýðusambands Íslands segir í viðtali í einu dagblaðinu í morgun að afstaða hans til þessa samnings muni fara eftir því hvernig farið verður með hin ýmsu félagslegu ákvæði. Ég spyr t.d.: Hvað um þá skyldu að vera í verkalýðsfélagi hér á landi? Heldur hún? Reyndar get ég sagt strax að mér hefur skilist á fundum sem ég hef átt að hún haldi ekki. Þetta er vitanlega mjög stórt atriði sem verkalýðshreyfingin hlýtur að vega og meta. En mér þótti athyglisvert að forseti ASÍ skyldi láta þessi orð falla þótt mér sé kunnugt um að töluverðar viðræður hafi farið fram um þessi mál. Er þá ýmislegt þarna enn sem ekki liggur ljóst fyrir? Þetta er mjög stórt atriði í þessu máli öllu saman.
    Loks vil ég minna á það að þessi samningur er meira en samningur um svokallað fjórfrelsi sem ég hef nú farið í gegnum. Hann er líka samningur um fjölmörg jaðarverkefni. Sum sem okkur voru ljós og önnur sem mér sýnast hafa komið inn í í miklu ríkara mæli en áður var. Hæstv. utanrrh. nefndi t.d. samræmingu á heilbrigðiskröfum og á flutningi dýra á milli landa o.s.frv. En önnur jaðarverkefni eru t.d. rannsóknastarfsemi og ég fagna öllu samstarfi þar. Við getum vissulega átt það engu að síður, en það má ekki láta sem svo að við fáum það líka fyrir ekki neitt. Við þurfum að greiða fyrir okkar samstarf í slíkum verkefnum. Við þurfum að leggja í púkkið og við höfum alls ekki gert það í svo ríkum mæli að það hafi í raun dugað. Við þurfum að bæta þar mjög miklu við og ég óttast að hæstv. fjmrh. þurfi að sjá af töluverðu fjármagni ef þetta samstarf á að koma okkur að tilætluðum notum. En ég fagna því ef það verður þá loksins til þess að við mönnum okkur upp í að leggja miklu meira

fjármagn til rannsókna heldur en við höfum gert á undanförnum árum.
    Sama er reyndar að segja um menntasviðið. Mér er tjáð að EB hafi ekki fallist á það að EFTA-ríkin fái fullan aðgang að menntastofnunum og með sömu skólagjöldum og innlendir námsmenn og upplýst er að þetta muni vera eitt af því fáa sem Brussel hefur ekki enn tekið undir miðstjórnarvald sitt. Þetta verði sem sé á valdi einstakra ríkja. Það er þá eflaust ekkert við því að gera, en engu að síður er viljayfirlýsing um að vinna að því að samræma slíka hluti. Það er afar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hafa sem greiðastan aðgang að menntastofnunum í Evrópu. Æskufólk okkar leitar framhaldsmenntunar erlendis og skoða þarf mjög vandlega hvernig þetta verður sem best tryggt. Þetta er eitt af því í þessum samningum sem við höfum lengi litið til sem mjög mikilvægt jaðar- eða hliðarverkefni. Reyndar eru jaðarverkefnin mjög mörg. Mig minnir að hæstv. utanrrh. hafi sagt á fundi utanrmn. í morgun, ég vona að ég sé ekki að uppljóstra neinu leyndarmáli, að þau skipti tugum eða eitthvað svoleiðis. Jaðarverkefnin eru mjög mörg og við þurfum að sjálfsögðu að kynna okkur þau miklu betur.
    Ég hef leitast við að rekja hér í hraðferð ýmislegt af því sem við þurfum að skoða. En svo þurfum við náttúrlega að gera margt upp við okkur því að samningurinn er alls ekki algóður og það er alls ekki svo að við fáum allt fyrir ekkert, því fer víðs fjarri. Hverju fórnum við? Jú, hér verður þá fullt frelsi í fjármagnsflutningum. Við skulum segja að við náum öllu hinu, að stöðva landakaupin og ýmislegt af því sem ég hef nefnt og koma í veg fyrir slíkt, en hér verður fullt samkeppnisfrelsi í öllum þjónustugreinum, bankastarfsemi þar með talin. Það getur vel verið að úr þessu komi, og vonandi að vextir lækki verulega því að þeir eru miklu hærri hér en í nokkru þeirra landa sem við erum að semja við og við skulum segja líka að tryggingar geti lækkað. Tryggingar hér eru hærri. En það getur vel farið svo að við fórnum þá okkar eigin tryggingafélögum. Ég nefni dæmi. Standast þau slíka samkeppni? Hefur það verið athugað hvernig þau geta það? Ég tel afar mikilvægt að innlend tryggingafélög hafi starfsgrundvöll. Og við erum að fórna mjög miklu ef öll innlend tryggingarfélög leggjast af og ég tala ekki um það eins og ég hef áður nefnt með bankana. Svo sannarlega erum við að kaupa aðgang að Evrópsku efnahagssvæði með því að opna slíka fyrir erlendum aðilum, miklu fleira en ég get á þessum skamma tíma nefnt hér og nú. Og ég trúi því, að hinir erlendu aðilar meti það einhvers. Þess vegna eru þeir að semja við okkur.
    Ég segi, þarna eru kostir og gallar, lækkun fyrir neytendur í besta falli en e.t.v. mjög mikilvægri, innlendri starfsemi fórnað. Síðan kemur e.t.v. allra stærsta spurningin af öllu saman. Og hún er þessi: Er þetta betri varnarstaða fyrir okkur Íslendinga gagnvart inngöngu í Evrópubandalagið en að vera alveg fyrir utan?
    Ég fagna sannarlega þeim yfirlýsingum, sem hafa komið frá hæstv. ráðherrum, um að innganga í Evrópubandalagið komi ekki til greina. Ég hlýt þó enn einu sinni að gera athugasemd við það sem hæstv. utanrrh. sagði áðan, að það kæmi ekki til greina, að því er mér skildist eingöngu, að óbreyttri fiskveiðistefnu eingöngu. Það er stórt atriði. Ég er honum sammála um það. Óbreytt fiskveiðistefna útilokar náttúrlega okkar aðild. En það er miklu fleira sem útilokar okkar aðild, miklu, miklu, miklu fleira. Ef við gerumst aðilar að EB göngumst við undir miðstýringuna frá Brussel, hið yfirþjóðlega vald. Og við munum aldrei geta losað okkur þaðan og við munum dragast inn í þetta 400 milljón manna mannhaf og hverfa. Það er sannfæring mín. Og sömuleiðis er það vitanlega fleira sem við getum nefnt, þá getum við ekki stöðvað landakaupin og haft neinar sérreglur. Við getum í mesta lagi fengið einhverja smávegis aðlögun svo að ég hlýt að gera athugasemd við það að það sé hin sameigilega fiskveiðistefna Evrópubandalagsins sem útilokar það. Það er sem sagt miklu fleira. Er betra að stöðva sig með þennan samning en að gera engan samning? Við höfum eftir sem áður ágætan viðskiptasamning. Við höfum bókun 6 og við getum vissulega breytt öðrum hlutum eins og okkur sýnist, mörgum hverjum. Við fáum hins vegar ekki þessa 1,7 milljarða í niðurfellingu tolla og við fáum eflaust ekki þá lækkun á tryggingagjöldum og vöxtum sem ég nefndi áðan sem dæmi, en við höldum okkar stofnunum, við höldum náttúrlega okkar sjálfstæði og það er náttúrlega hin mesta vitleysa að segja að einhverju af okkar fullveldi sé ekki fórnað. Vitanlega er einhverju fórnað með sérhverjum svona viðamiklum samningi. Við höldum því meira óskertu ef við göngum ekki í EES.
    Ég verð að viðurkenna að á þessari stundu hef ég ekki svar við þessari spurningu. Og þetta er sú spurning sem ég fyrir mitt leyti vil kanna mjög vandlega á næstu vikum. Hvernig líta Íslendingar á þetta mál? Er það rétt sem hæstv. utanrrh. hefur fullyrt að krafan um fulla aðild verði miklu háværari ef við erum þarna einir fyrir utan? Er það rétt? Ég er ekki sannfærður um að það sé rétt. En ég vil fá að kanna það miklu betur.
    Virðulegur forseti. Eins og hæstv. utanrrh. hefur sagt, þetta kann að vera farseðill okkar inn í 21. öldina og við hér á Alþingi þurfum að skoða þann farseðil mjög vandlega. Spurningin er: Förum við á 1. farrými eða í lest? Það er áreiðanlega ekkert unnið við að fara í lest. Við viljum þá fara á 1. farrými. Og ég vona að allir Íslendingar geti sameinaðst um það að tryggja okkur, ef við gerumst aðilar, 1. farrými inn í 21. öldina.