Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 15:11:00 (395)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Herra forseti. Mér er ljúft að staðfesta allt það sem hæstv. utanrrh. sagði hér áðan um samskipti utanrmn. og ráðuneytisins. Það hefur allt verið með ágætum þessa daga. Það hafa verið haldnir einir fimm formlegir fundir nú á rúmlega tveimur sólarhringum og annríki hefur því verið mikið. Við höfum fengið jafnóðum allar þær upplýsingar sem samninganefndarmenn höfðu en það er svo annað mál að þær upplýsingar voru takmarkaðar. Það er enn ekki búið að ganga endanlega frá textum á því sem verið var að ræða um þarna úti og raunar upplýsti ráðherra okkur um það áðan og búast má við því að það taki þó nokkra daga að fá texta að þessum miklu samningum. Það geta orðið 10 dagar eða meira þangað til þeir sjást. Síðan verður þetta auðvitað þýtt á mörg mál.
    Hér getum við ekki flutt þinginu þetta á erlendu máli til að menn hafi eitthvað í höndum. Það er rétt að við í nefndinni fengum þessi drög sem núna eru fyrir hendi seint í gærkvöldi og höfum getað kynnt okkur þau lítillega. Þó játa ég fúslega að það er óravegur frá því að ég geti kynnt mér jafnflókin skjöl á örfáum klukkutímum, við þurfum að liggja mjög yfir þessu. Ekki endilega sjávarútveginum. Ég held að það sé kannski einna skýrast að við fáum ótakmörkuð réttindi til þess að veiða og lifa og búa í okkar álfu og nýta okkar fiskimið, 200 mílurnar, sem við ein eigum og ætlum aldrei að láta neinn annan eignast neitt af. Það er frumkrafa og hún er samþykkt. Og þó það væri nú ekkert annað hljótum við, sem höfum verið svona nokkuð tortryggnir, að hugsa okkar ráð enn þá betur því að það er meginefnið.
    Hitt er raunar líka mjög mikilvægt að ekki verði slakað neitt á í sambandi við dómstólinn og önnur þau atriði sem gætu verið á þann veg að við værum að fórna einhverju af okkar dýrmætustu hagsmunum, þ.e. sjálfu sjálfstæðinu. Það þarf að skoða öll þessi atriði mjög náið áður en undir nokkuð er skrifað. En svo vill til að það fór einmitt á þann veg, sem ég var að vona, að það væri ekki unnt að undirskrifa neitt núna á þessu stigi, hvorki að setja stafi samningamannanna á neinn pappír né heldur að undirrita hann formlega, einfaldlega vegna þess að pappírinn er ekki til enn þá. Það er ekki til það sem á að semja um. Og við hljótum að fagna því að okkur gefst gott tóm til þess að hugleiða málið og eins og ég segi, þá verða það alla vega nokkrar vikur. Ég mundi halda að við gætum alveg talið okkur nokkurn veginn sæl --- eða vansæl eftir mati --- ef þessu lyki einhvern tíma um mitt næsta ár.
    Það gerist út af fyrir sig ekkert, það gengur ekkert af þessu í gildi fyrr en 1. jan. 1993 þannig að út af fyrir sig þarf ekki allt þetta óðagot. En það er hins vegar mjög gott að við skyldum hreinsa andrúmsloftið og núna fáum við fréttir úr öllum áttum sem hefðu kannski ekki alveg legið á lausu áður. Morgunblaðið mitt, ég hef ekki haft tíma til þess að lesa það allt saman, er allt uppfullt af ágætum fréttum og mismunandi sjónarmiðum um þessi mikilvægu samningamál sem á döfinni eru. Og við höfum núna mjög góðan tíma, alla vega fram yfir jól, til að velta þessu öllu fyrir okkur og sjá hvar við stöndum, hvað við getum samþykkt og hvað ekki því það eru ekki bara Íslendingar sem þurfa að fara með þetta fyrir sitt þjóðþing. Það þurfa líka EB-þjóðirnar að gera, allar held ég, og EFTA-þjóðir væntanlega.
    Og þá kemur að því að við þurfum að hugsa hvernig skyldi nú fara ef allar aðrar EFTA-þjóðir --- þeirrar spurningar er spurt --- gengju nú í Evrópubandalagið. Við höfum lýst því yfir, ég held allir íslenskir stjórnmálaflokkar, að það sé ekki á dagskrá að ganga í EB. Við munum ekki gera það og ég vona að enginn hafi breytt um skoðun í því efni. Sjálfstfl. var, hygg ég, fyrstur til þess að gera formlega ályktun um það á flokksþingi í nóvembermánuði 1987. Við höldum þó okkar striki. Við ætlum ekkert að gera það. Við getum alveg staðið álengdar og séð hverju fram vindur í því efni. Ég held að samningsstaða okkar til þess að ná tvíhliða samningum við Evrópubandalagið mundi ekkert versna við það að allir hinir færu í Evrópubandalagið. Þeir gera það auðvitað ef þeim sýnist svo, ekki getum við stöðvað þá í því. Ég er nú svo bjartsýnn að halda að við gætum samt sem áður fengið mjög hagstæða samninga við Evrópubandalagið.
    Mín reynsla af Evrópumönnum, sem eru í þessum samskiptum þjóðanna, er sú að þeir vilji hafa Íslendinga í Evrópu og leyfa þeim að vera þar í sínum heimkynnum en ekki hrekja þá í vesturátt. Ég held það.
    Bandalagsmenn þurfa að fá fiskinn okkar og þeir vita ósköp vel að við veiðum hann með minni kostnaði en

þeir, förum betur með hann og förum betur með miðin. Þeir hafa sjálfir eyðilagt Norðursjávar- og Eystrasaltsmiðin eins og allir vita. Þeir hafa slæma reynslu af því að stjórna sjálfir jafnvel þó þeir séu með þessa stífu fiskveiðistefnu sína og þeir vilja auðvitað fá þennan besta fisk veraldarinnar. Þeir vilja samskipti við okkur.
    En þeir halda líka af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að Íslendingar séu voðalega gáfaðir og þess virði að þekkja þá. Og við munum hvað Mitterand Frakklandsforseti sagði hér í fyrra, ég held að við munum það öll, að það væri ekkert vandamál með að Íslendingar gætu haldið réttindum sínum. Þetta hafa fleiri menn sagt og margir í mín eyru. Henning Christophersen, sem er aðstoðarframkvæmdastjóri Evrópubandalagsins, sagði það við okkur mörg úr Evrópustefnunefnd fyrir einu ári eða svo að það væri alveg sjálfsagt að leiðrétta okkar hag. Við hefðum samið um það að hleypa útlendingum með allan sinn iðnvarning til okkar. Þeir hefðu átt að gera það sama að því er fisk varðar, og gerðu það raunar fyrst að hluta, en þá kom bókun 6 sem aldrei var svo framkvæmd sem ruglaði öllu þessu. Hann sagði hiklaust og margendurtók, ég held að ég muni það nokkurn veginn orðrétt: ,,Þið hafið staðið við allt ykkar. Við höfum ekki gert það. Það er kominn tími til að við réttum þennan halla af og sjáum til þess að þið fáið algerlega frjálsa verslun á okkar mörkuðum.``
    Við þurfum ekkert að hræðast. Við skulum bara halda höfðinu og standa auðvitað við allt sem við höfum samið um, semja hins vegar ekki um neitt sem við ætlum okkur ekki að standa við. Við höfum ekki samið um eitt eða neitt af því tagi. Það hefur ráðherra nú upplýst. Það gleður mig og áreiðanlega okkur öll.
    Við höfum góðan tíma til að ná samningum og ég endurtek að samstarfið á milli utanrmn. og utanrrh. sérstaklega hefur verið með ágætum og ekkert upp á það að klaga hvort sem það hefur verið að nóttu eða degi. Við töluðum lengi saman í síma frá Lúxemborg í fyrrinótt og ég held að við skiljum hvor annan.