Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 15:20:00 (396)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni að Alþingi hefur mjög góðan tíma til að meta þennan samning og Alþingi þarf góðan tíma til að meta þennan samning. Það er rétt hjá hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, formanni utanrmn., að það er nauðsynlegt að menn ætli sér næstu mánuði og fram á næsta ár til þess að fara vandlega yfir þau atriði sem eru óljós og kunna að orka tvímælis í þessum samningi.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson, sem að utanrrh. frátöldum hefur kannski átt manna stærstan þátt í þróun þessa máls á síðustu tveimur árum, rakti hér í mjög vandaðri ræðu fjölmörg atriði sem orka tvímælis í þessum samningi. Þegar höfð eru í huga orð formanns utanrmn. og orð fyrrv. forsrh., þá er það vægast sagt dálítið hjákátlegt að hæstv. utanrrh. hefur kosið að leggja málið þannig fyrir þingið hér í dag og þjóðina í gær að málinu sé lokið, það sé einfalt og hægt að bóka að það sé harla gott. Hann hefur enn ekki nefnt eitt einasta atriði í þessum samningi sem kunni að orka tvímælis, sem kunni að vera neikvætt, sem sé eitthvað sem við höfum þurft að borga Evrópubandalaginu fyrir það sem við höfum fengið í staðinn. Hann hefur þvert á móti hvað eftir annað notað orðalag frá erlendum manni og gert að sínu að Íslendingar hafi fengið allt fyrir ekki neitt og allri gagnrýni, sem sett hefur verið fram, eða spurningum eða efasemdum, hefur hann svarað á þann veg að ekkert sé hæft í slíku.
    Virðulegi forseti. Ég tel það afar óheppilegt fyrir málsmeðferðina að hæstv. utanrrh. og reyndar einnig hæstv. forsrh. skuli hafa kosið að leggja málið þannig fyrir að a.m.k. þeir tveir séu komnir að ótvíræðri niðurstöðu, þeir þurfi ekki að velta neinu fyrir sér lengur. Málinu er lokið í þeirra huga. Ég vil biðja hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. að hugleiða mjög vandlega þær spurningar og þá atriðaskrá sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson fór yfir hér í sinni ræðu vegna þess að þar var að finna efnislega, ítarlega lýsingu á því sem þarf að liggja ljóst fyrir en gerir ekki nú áður en nokkur sæmilega vandaður þingmaður eða Íslendingur getur svarað því hvernig hann dæmir þennan samning. Þetta er ekki mál sem hægt er að dansa með eins og menn kunna að gera stundum hér í stjórnmálunum og leika sér að. Þetta er stærsti samningur sem Íslendingar hafa gert í áratugi, eins og hér hefur verið sagt í ræðustól, og hann er svo flókinn og hann er svo margþættur og hann á eftir að hafa svo afgerandi áhrif á íslenskt þjóðfélag að ekki er hægt á þessu stigi að komast að ákveðinni niðurstöðu um hver afstaða manna er nema menn vilji fara í vandaða umfjöllun um málið og vilji ekki í staðinn gera það að trúaratriði eða pólitísku hagkvæmnisatriði hver afstaðan er.
    Í þeirri ríkisstjórn sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson veitti forstöðu studdi Alþb. það eindregið að farið væri í viðræður um Evrópskt efnahagssvæði. Hvers vegna gerðum við það? Vegna þess að við töldum að þar kynni að vera á ferðinni mikilvæg hagsmunamál sem við þyrftum að kanna mjög rækilega hvort við gætum leitt til lykta á þann veg að Íslandi væri til farsældar. Hins vegar var það aldrei í okkar huga að það væri sjálfgefið frá upphafi að niðurstaðan væri jákvæð eða þá þótt einhver áfangi væri kannski að baki að menn væru þar með búnir að gera upp sinn heildarhug. Það lá alltaf fyrir af hálfu okkar, og ég taldi nú reyndar samstarfsflokkanna einnig, Framsfl. og Alþfl., að að leiðarlokum ætluðu menn að meta hvað hefði komið út úr ferðinni, hverjir væru plúsarnir og hverjir væru mínusarnir. Og það var auðvitað líka þannig að samningnum væri ekki lokið fyrr en öllu væri lokið og þess vegna ekki hægt af hálfu utanrrh., og beinlínis fölsun, að lýsa því yfir hér að niðurstaða í einstökum þáttum saminganna hafi verið fengin fyrir mörgum mánuðum eða hálfu ári síðan. Ef Ísland hefði kosið svo hefði það, allt þar til á Lúxemborgarfundinum fyrir nokkrum dögum síðan, getað tekið upp hvaða mál sem var varðandi þennan samning. Það var engu lokið og engin niðurstaða fengin fyrr en öllu væri lokið.
    Virðulegi forseti. Ég vona að allir flokkar hér á Alþingi geti sameinast um þann anda sem var í ræðu hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og hv. þm. Steingríms Hermannssonar og við gefum okkur góðan tíma á næstu vikum og mánuðum til þess að fara yfir þetta mál. Þessari umræðu verði ekki strax á fyrsta degi breytt í það hverjir vilja vera í halelúja-kórnum og hverjir ekki.
    Það er rétt sem komið hefur fram að innan síðustu ríkisstjórnar var sú meginstefna sett fram í upphafi að við óskuðum eftir því að því kerfi yrði komið á að frjáls verslun yrði með sjávarafurðir í þeim skilningi að Evrópubandalagið legði niður ríkisstyrki þannig að allar þjóðir og öll fyrirtæki sætu við sama borð í þeim viðskiptum. Hvers vegna gerðum við það? Jú, vegna þess að Evrópubandalagið sjálft og ríki þess hafa varið svo miklum fjármunum í ríkisstyrki til sjávarútvegsfyrirtækja að það eru dæmi um það að samkeppnisfyrirtæki okkar íslensku fyrirtækja hafi fengið 75% af öllum fjárfestingarkostnaði sínum greidd úr sjóði Evrópubandalagsins eða úr ríkissjóði viðkomandi ríkis. Við erum að keppa við ríkisstyrkta framleiðslu í Evrópubandalaginu sem fær jafnvel þrjá fjórðu af öllum sínum fjárfestingarkostnaði greidda af hinu opinbera. Evrópubandalagið hafnaði þessari kröfu. Engu að síður ákváðum við að halda áfram og settum fram þá varakröfu að Evrópubandalagið samþykkti grundvallarregluna um frjálsan markaðsaðgang fyrir allar sjávarafurðir og eins og hér hefur komið fram hvað eftir annað var þeirri grundvallarreglu hafnað.
    Evrópubandalagið hefur þess vegna hafnað tveimur grundvallarreglum frjálsra viðskipta, virðulegi utanrrh., og það er dálítið merkilegt að Evrópubandalagið gerir kröfur um að við leiðum í lög grundvallarreglur um frjáls viðskipti á þjónustumarkaði, frjáls viðskipti á gjaldeyrismarkaði, frjáls viðskipti á almennum fjárfestingarmarkaði, frjáls viðskipti á vinnumarkaði en Evrópubandalagið hefur hafnað því að innleiða tvær af höfuðgrundvallarreglum frjálsra viðskipta á sviði sjávarútvegsins, reglunni um enga ríkisstyrki og reglunni um tollfrjálsan aðgang. Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á þessari staðreynd, sérstaklega í ljósi þess að yfirlýst stefna núverandi ríkisstjórnar var að það væri ófrávíkjanleg krafa fyrir samningunum um Evrópskt efnahagssvæði að grundvallarreglan um frjálsan markaðsaðgang yrði viðurkennd. Núverandi ríkisstjórn virðist hins vegar hafa breytt þeirri stefnu sinni og er nú reiðubúin að taka ákveðnar tollalækkanir sem ígildi þess.
    Það kom í ljós í gærkvöldi þegar við fengum í hendur þann texta, sem gengið var frá í Lúxemborg, að komið var inn ákvæði, sem við í utanrmn. höfðum aldrei heyrt um áður, þar sem EFTA-ríkin skuldbinda sig til þess að vera ekki með ríkisstyrki á sviði sjávarútvegs. Það er sem sagt búið að snúa dæminu við í þessum samningi. Í stað þess að krafan væri upphaflega sú að það væri Evrópubandalagið sem hætti sínu styrkjakerfi í sjávarútvegi hefur Evrópubandalagið náð því fram í þessum samningi að EFTA samþykkir eitt og sér að vera ekki með ríkisstyrki af neinu tagi í sjávarútvegi án þess að Evrópubandalagið breyti í nokkru ríkisstyrkjum sínum. Þetta er mjög merkilegt ákvæði og var lítið um það rætt í ræðu hæstv. utanrrh.
    Hvað þýðir þetta í reynd? Þetta þýðir það í reynd að Evrópubandalagið er með frjálsar hendur til þess að auka ríkisstyrkina í sjávarútvegi Evrópubandalagsríkjanna eins og það vill. En EFTA-ríkin eru búin að binda hendur sínar í þeim efnum. Með öðrum orðum: Frjálsu viðskiptin eiga að vera á þann veg að Evrópubandalagið getur haldið áfram að hlaða ríkisfyrirgreiðslu og ríkisstyrkjum og sjóðasukki, virðulegi forsrh., í sjávarútveginn, en EFTA-ríkin og Ísland mega ekki gera neitt.
    Hvað getur þetta svo þýtt í einstökum tilvikum? Það getur þýtt t.d. að við fögnum því að fá núna möguleika til þess að flytja inn flök t.d. á breska markaðinn. Það er mikilvægur ávinningur. Ég fagna því að það hefur tekist. En Evrópubandalagið hefur möguleika til að vega upp þessar tollaívilnanir gagnvart Íslandi með því að auka styrkina til fyrirtækjanna, t.d. á Humber-svæðinu, þannig að samkeppnisstaða þeirra væri óbreytt á eftir. Þau hafa að vísu þurft að horfa framan í það að Íslendingar greiði ekki lengur neina tolla, en þá kemur bara breska ríkið eða Evrópubandalagið og lætur þau fá meiri peninga þannig að þau geta haldið áfram að keppa við íslenska framleiðslu í þessum efnum. Alls staðar þar sem menn viðurkenna grundvallarreglurnar um frjáls viðskipti og tollalækkanir sem hluta frjálsra viðskipta eru settar hömlur, eru settar bremsur á það hvort ríki getur beitt ríkisstyrkjum til þess að vega upp á móti tollaívilnunum annars ríkis. Það er ekki gert í þessum samningi. Evrópubandalagið og einstök ríki þess hafa áfram fullkomlega frjálsar hendur í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir þessu í öllum fagnaðarlátunum yfir tollalækkunum sem eru mikilvægar og ber að fagna. Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími Hermannssyni að það er mjög mikilvægt að það tókst að ná meiru fram í þeim efnum en á horfðist. En það breytir því ekki að Evrópubandalagið getur hjálpað framleiðendunum hjá sér að ná þessu í gegnum ríkisstyrkjakerfið aftur. Þetta má ekki skilja á þann veg að tollalækkanirnar séu einskis virði. Því fer víðs fjarri. Þær eru mikils virði. En menn mega ekki túlka þetta mál og kynna það fyrir þjóðinni án þess að setja þetta í samhengi við það sem Evrópubandalagið hefur neitað að gera, þ.e. neitað að afnema ríkisstyrkina og neitað að veita fullan markaðsaðgang.
    Það er einnig nauðsynlegt að menn hafi það í huga að með þessum samningi fá Norðmenn réttindi til að keppa við íslenskan sjávarútveg í einstökum greinum á markaðssvæði Evrópubandalagsríkjanna sem þeir hafa ekki haft jafngóða aðstöðu til á undanförnum árum vegna þess að við höfum haft bókun 6 en þeir ekki svo að íslenskur sjávarútvegur og framleiðsla geta búið við lakari samkeppnisstöðu að hluta til í einstökum greinum á eftir vegna þess að samkeppnisstaða Norðmanna styrkist. Þetta er auðvitað þáttur sem menn verða líka að horfa á ef menn hafa áhuga á því að leggja málið fyrir í heild sinni.
    Þótt það sé mjög mikilvægt að tollalækkanir hafi náðst fram þá verður engu að síður að gera það alveg skýrt að enn þá eru ýmsar mikilvægar greinar sjávarútvegsins sem ýmist fá engar tollalækkanir eða eiga að borga toll áfram þótt hann sé kannski ekki hár. Þegar menn eru að segja að þetta opni mikla framleiðslumöguleika fyrir fullvinnslu á íslenskum sjávarafurðum þá er staðreyndin því miður sú að margar fullvinnsluvörur í sjávarútvegi njóta ekki tollfríðinda samkvæmt samningnum. Því miður. Þannig eru þróunarmöguleikarnir einhverjir en þeir eru ekki ótakmarkaðir.
    Ef fiskeldið á Íslandi hefði reynst arðvænlegri grein en reyndin hefur því miður verið þá væri það auðvitað mjög alvarlegt fyrir okkur að vera núna að ræða samning þar sem lax og laxaafurðir eru algerlega utan við þann árangur sem náðst hefur. Áfram væru laxaafurðir á listanum sem hæstv. utanrrh. kallaði bannlistann, þ.e. þar er ekki um tollalækkanir að ræða, hvað þá heldur afnám tolla. Ef nú laxarækt og laxaframleiðsla á Íslandi yrði arðvænleg grein --- og við þurfum ekki að fara nema tvö ár aftur í tímann þegar var fullyrt hér í þessum ræðustól að framleiðsla á eldislaxi og öðrum greinum laxaræktar gæti skilað okkur 5, 6, 7--8 milljörðum í þjóðarbúið eftir fáein ár --- þá væri sú framleiðsla algerlega fyrir utan þann árangur sem hér er verið að tala um. Evrópubandalagið hafnaði því að veita laxaframleiðslunni þessi réttindi. Kannski skiptir þetta okkur ekki máli vegna þess að fiskeldið geti ekki verið framtíðargrein í landinu. En verði fiskeldið framtíðargrein í landinu og kannski vaxtarbroddur eins og sumir töldu fyrir nokkrum árum þá er það mjög alvarlegt mál að við erum hér að gera samning þar sem framleiðsla á laxi verður á bannlistanum hvað tollalækkanir snertir.
    Virðulegi forseti. Ég hef sagt það í umfjöllun utan þings að Evrópubandalagið er að fá mikið fyrir sinn snúð í þessum samningi. Og það er dálítið merkilegt að virðulegur utanrrh. kýs að ræða það aldrei hvað Evrópubandalagið er að fá fyrir sinn snúð. Hvað er það? Jú, það er í grófum dráttum það að eftir að þessi samningur tekur gildi þá getur hvaða fyrirtæki sem er, hvaða einstaklingur sem er í Evrópubandalagsríkjunum keypt hér fyrirtæki og hafið hér atvinnu í nánast öllum öðrum greinum íslensks efnahagslífs en í sjávarútvegi, t.d. í bankastarfsemi, tryggingastarfsemi, ferðaþjónustu, hótelrekstri, verslunarrekstri, viðskiptum, ráðgjafarþjónustu og þannig koll af kolli. Ef ríkisstjórnin framkvæmir áform sín um einkavæðingu, sem ég veit t.d. að virðulegur viðskrh. hefur mikinn áhuga á og Sjálfstfl. hefur mikinn áhuga á, þá er líka nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því hvaða áhrif sú einkavæðing hefur á möguleika erlendra aðila. Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson benti á, að samspil einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og samningsins um Evrópskt efnahagssvæði gæti haft það í för með sér að erlendir aðilar mundu hér í lok aldarinnar eiga allar virkjanir á Íslandi. Nú segir virðulegur utanrrh. hræðsluáróður. Óskandi að svo væri, virðulegi utanrrh. Óskandi væri að þetta væri bara bábilja í mér sett fram í þeim tilgangi að hræða fólkið í landinu gegn virðulegum utanrrh. Engu að síður er það staðreynd að ef ríkisstjórnin framkvæmdi þá stefnu að breyta Landsvirkjun í almenningshlutafélag, byði hlutabréfin til sölu á almennum markaði og gerði það sama við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, þá eru þessi orkufyrirtæki þar með orðin almenn viðskiptafyrirtæki og engar hömlur í þessum samningi á því að erlendir aðilar geti keypt hlutabréfin og þannig smátt og smátt eignast fyrirtækin. Einmitt þess vegna vildum við í síðustu ríkisstjórn, t.d. fulltrúar Alþb., að í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði kæmi sértækur fyrirvari um orkufyrirtæki þannig að það væri alveg sama hvort þau væru í einkaeign eða opinberri eign hér á Íslandi. Við mundum alltaf halda þeim í okkar höndum. Því var hins vegar hafnað að það væri sértækur fyrirvari varðandi orkulindirnar.
    Sama gerðum við varðandi landið. Við sögðum líka: Fiskurinn er dýrmæt auðlind. Allir voru sammála um það í síðustu ríkisstjórn að það kæmi ekki til greina að útlendingar hefðu rétt til þess að eignast fiskinn. Um það er þess vegna sértækur fyrirvari í þessum samningi. Við vildum líka í síðustu ríkisstjórn hafa sértækan fyrirvara um landið vegna þess að við töldum landið vera jafnmikla auðlind og fiskimiðin. Því var hafnað. Hæstv. utanrrh. segir nú á frekar ósmekklegan hátt að hefði fyrrv. landbrh. staðið sig í stykkinu þá gætum við núna verið að ræða það hvernig mætti komast fram hjá því að enginn fyrirvari er um landið. Ástæðan fyrir því, virðulegi utanrrh., að það var ekki gert, er eins og þú veist að við vildum láta halda áfram að reyna á það hvort Ísland fengi ekki líka viðurkenningu á sértækum fyrirvara varðandi landareignina eins og við fengum varðandi fiskimiðin vegna sérstöðu okkar þar sem 250 þúsund manns búa í stóru landi með dýrmæt auðæfi á jörðum landsins. Ágreiningurinn í síðustu ríkisstjórn var um það að utanrrh. vildi ekki sækja þessa kröfu. Hann vildi ekki halda henni lengur til streitu. En við, t.d. fulltrúar Alþb., vildum að henni yrði áfram haldið til streitu.
    Ég vil nefna hér til viðbótar vatnið. Ekki vatnið sem er notað til þess að virkja heldur vatnið sem við setjum á flöskur eða í dósir og flytjum til útlanda. Ég hef heyrt ýmsa halda því fram að eftir 10--15 ár gætu tekjur Íslendinga af útflutningi á vatni í neytendaumbúðum numið álíka miklu og tekjurnar sem við höfum núna af sjávarafla, einfaldlega vegna þess að vatnið er orðið dýr munaðarvara á flestum svæðum heims. Það er alveg ljóst að duglegir atvinnurekendur eins og Davíð Scheving Thorsteinsson hafa á síðustu 2--3 árum unnið frábært brautryðjendastarf á þessu sviði, svo afgerandi að mér er sagt að það fari einn gámur á dag frá hans fyrirtæki einu til útlanda með þessa framleiðsluvöru, vatn í dósum. Nú spyr ég: Er þessi samningur þannig að erlend fyrirtæki, t.d. Perrier í Frakklandi, fái ótakmarkaðan rétt eins og menn fá t.d. til þess að stofna banka, til þess að setja hér upp átöppunarverksmiðjur fyrir vatn til að setja það í dósir og neytendaumbúðir þannig að erlend fyrirtæki geti tekið allan arðinn af því að nýta þessa auðlind okkar, vatnið? Ég teldi það mjög illa farið ef við af skammsýni í þessum samningi, bara með því að einblína á fisk sem auðlind, værum að veita erlendum fyrirtækjum rétt á að nýta aðra auðlind sem kann kannski á 21. öldinni, virðulegi utanrrh., að gefa mönnum enn glæsilegri máltíðir á 1. farrýminu en fiskurinn. Þá mundum við bara vakna upp við það að samningurinn sem gerður var af lestarstjóranum 1991 hefði einfaldlega haft það í för með sér að það sæti enginn Íslendingur við það borð að nýta þetta vatn.

Ég tel þess vegna að það sé eitt af þeim atriðum sem Alþingi þarf að kanna í meðferð málsins: Hvað um nýtingu vatnsins sem auðlindar í þessum samningi?
    Ég ætla ekki að rekja hér ítarlega það sem sagt hefur verið varðandi landakaupin og varðandi vinnumarkaðinn. Það hefur þegar komið fram, t.d. hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni. Það er alveg ljóst að ráðherrarnir í ríkisstjórninni ætla að fara þá leið að þeir ætla að sætta sig við það að vera ekki með sérstakan fyrirvara um eignarhald Íslendinga á landi í þessum samningi. Þeir segja: Við skulum setja girðingar í íslensk lög sem eiga að tryggja það að við missum ekki landið í hendur útlendinga. Og ég virði alveg það sjónarmið utanrrh. að hann segir: Ég vil ekki að landið fari í hendur útlendinga. En þá spyrjum við hin: Hvernig á að tryggja það? Þetta er slíkt lykilatriði, eignarhaldið á Íslandi. Ísland er ekki bara fiskimið. Ísland er eyja eins og allir vita. Hvernig á að tryggja eignarhaldið á Íslandi? Og þá vona ég að virðuleg ríkisstjórn verði við þeim tilmælum sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson setti fram hér áðan að áður en samningur um Evrópskt efnahagssvæði kemur til endanlegrar afgreiðslu á Alþingi verði búið að setja lög sem tryggi það að landið verði áfram í eigu Íslendinga þrátt fyrir þennan samning. Það er ekki hægt að ætla þinginu eða þjóðinni að taka afstöðu til þessa samnings með það algerlega opið hvernig á að ganga frá því í íslenskri löggjöf að landið verði áfram í okkar eign.
    Varðandi vinnumarkaðinn þá er það líka ljóst að samtök launafólks þurfa mjög rækilega að kanna það á hvern hátt þessi samningur kann að breyta réttindastöðu launafóks á Íslandi í samkeppni við það erlenda vinnuafl sem hingað kann að koma.
    Virðulegi forseti. Við settum hér á síðasta þingi lög um fjárfestingu útlendinga í íslensku efnahagslífi. Þar settum við alls konar girðingar eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson rakti hér. Við settum girðingar um hlutfall sem útlendingar mættu eiga í íslenskum bönkum, við settum girðingar um hámark hvað snertir heildarfjárfestingu útlendinga í einstökum greinum, íslensku atvinnulífi. Allar þessar girðingar nema sú sem snýr að sjávarútveginum fjúka í þessum samningi. Öll ákvæði sem voru sett um búsetuskyldu, ríkisborgararétt, eignarhlutfall og hámarksupphæðir fara burt.
    Ég tel það út af fyrir sig alveg vera eðlilegt að t.d. erlend verslunarfyrirtæki geti stofnað hér matvöruverslanir og boðið Íslendingum lægra vöruverð. Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til þess að við séum endilega að vernda íslenska verslunarstétt hvað það snertir ef neytendur fá hagstæðari kjör. Ég hef líka sagt að það geti verið mjög sterk rök fyrir því að íslenskir neytendur geti keypt ódýrari farmiða til útlanda, geti keypt hagkvæmari tryggingar fyrir húsin sín og bílana sína. Fyrir öllu þessu er hægt að færa skýr og sterk rök. En hin hliðin á peningnum er líka sú að sjálfstætt ríki þarf ekki bara að hafa þing og ríkisstjórn og dómstóla. Það þarf líka að hafa ákveðna grundvallarþætti efnahagsstarfseminnar í sínum höndum ef sjálfstæði á að vera meira en form. Og það er sú spurning sem við þurfum að svara hér. Hvernig er það tryggt að ákveðnir grundvallarþættir efnahagsstarfseminnar séu áfram í okkar höndum? Það er rétt sem hæstv. utanrrh. hefur sagt að það felst ekki fullveldisafsal í þessum samningi hvað það snertir að Alþingi þarf auðvitað að samþykkja samninginn. En, virðulegi utanrrh., ég tel það skyldu þína vegna þess að þú ert ekki bara utanrrh. Alþfl. eða þessarar ríkisstjórnar, þú ert utanrrh. Íslendinga, ég tel það skyldu þína að um leið og þú fullyrðir að í þessu felist ekki fullveldisafsal með þeim rökum sem þú notaðir nú hér í 20. eða 30. sinn í ræðustólnum að benda þjóðinni og þinginu jafnframt á það að ef samningurinn verður gerður að lögum þá verður svigrúm Alþingis og þjóðarinnar til þess að taka ákvarðanir í efnahagsmálum þrengt allverulega. Þá verður svigrúmið til þeirra ákvarðana sem við höfum hingað til tekið í þessum sal og ríkisstjórnin hefur tekið við Lækjartorg til þess að stýra efnahagslífinu hér þrengt allverulega. Ég veit að t.d. virðulegur viðskrh. telur bara gott að þrengja þetta með þessum hætti vegna þess að hann hefur oftast trú á menntað einveldi í þessum efnum. En við hin, sem viljum kannski lýðræðislegri skipan, höfum talið mikilvægt að Alþingi og ríkisstjórnin hefðu þennan rétt. Og það er alveg nauðsynlegt að fara yfir það nákvæmlega fyrir þjóðina og fyrir þingið hvað þingið getur ekki gert eftir að það er búið að samþykkja þennan samning.
    Virðulegi forseti. Ég skal ljúka máli mínu á örfáum mínútum. Ég ítreka þá ósk, sem sett hefur verið fram, að þjóðaratkvæði fari fram um þennan samning. Og ég verð að segja að ég bara skil ekki hvers vegna ríkisstjórnin hefur ákveðið strax í upphafi umræðunnar að hafna þeirri ósk. Ef málið er svona einfalt, skýrt og augljóst, eins og fram hefur komið í máli utanrrh. hér í dag og forsrh. í fjölmiðlum í gær, hlýtur það að vera ákjósanlegt fyrir ríkisstjórnina að leggja málið fyrir þjóðaratkvæði. Þess vegna harma ég að hæstv. utanrrh. skyldi lýsa því yfir að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hafna kröfunni um þjóðaratkvæði og ég óska eftir því að ríkisstjórnin endurskoði þá afstöðu sína.
    Alþb. mun beita sér fyrir því á næstu vikum og mánuðum að þessi samningur fái rækilega umfjöllun hér í þinginu, í þjóðfélaginu, hjá samtökum atvinnulífs og samtökum launafólks. Við viljum leggja mikið í það að fram fari rækileg kynning á þessum samningi. Ekki á svona áróðursfundum þar sem utanrrh. talar bara einn í einhverri kappræðu við menn úti í sal, ég hef nokkra reynslu af því að mæta með utanrrh. á svoleiðis fundum, ég veit hvernig þeir eru, heldur á málefnalegum og efnislegum fundum þar sem málið er lagt fyrir ítarlega og hlutlaust og menn hafa fullan möguleika til þess að meta það með sanngjörnum og eðlilegum hætti. Það er þannig kynning og þannig umræða sem þarf að fara fram í þjóðfélaginu um þetta mál.