Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 18:03:00 (398)

     Kristín Einarsdóttir :
     Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir að samningur hefur verið gerður um Evrópskt efnahagssvæði milli ríkisstjórna EFTA-landanna og EB og hefur hæstv. utanrrh. gert okkur einhverja grein fyrir samningnum út frá sínu sjónarmiði. Mér heyrðist hann vera mjög sammála því sem sagt var um samninginn og í hans máli kom reyndar mjög skýrt fram að hann teldi að þarna hefðum við fengið allt fyrir ekkert því að hann talaði eingöngu um að allt væri mjög jákvætt og mjög gott. Það væri ekki hægt að finna nokkurn einasta galla við þennan samning.
    Ég verð að lýsa því að ég hef vissar áhyggjur ef þetta er sá boðskapur sem hann ætlar að flytja þjóðinni og byrjar nú í kvöld, samkvæmt auglýsingu undirritaðri af utanrrn., en þar kemur fram að almennur borgarafundur verður til að kynna samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Væntanlega greiðir utanrrn. þá kostnað sem af þessum fundi hlýst þannig að ég velti því fyrir mér hver muni þá fara um landið og gera grein fyrir þeim hættum og þeim göllum sem geta hugsanlega verið á þessum samningi og hver muni greiða þann fundakostnað.
    Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvernig hann hyggst almennt standa að kynningu á þessum samningi og hvort ræða hans hér áðan er forsmekkurinn að því sem þjóðin á að fá í kynningu á honum. Því að ef svo er, er það auðvitað ekki nokkur einasta kynning heldur er það einhliða áróður og þeir gallar og þær hættur, sem geta fylgt þessum samningi, koma á engan hátt fram. Ég vil því fá upplýst hvernig þeim fundum verður hagað ef sá fundur sem verður í kvöld er upphafið að einhverri fundaröð.
    Okkur almennum þingmönnum er nokkur vandi á höndum að fjalla um þennan samning þrátt fyrir þá kynningu sem hér fór fram. Við höfum ekki séð hann enn þá og ekki getað kynnt okkur hann. Hann hefur að einhverju leyti verið kynntur í utanrmn. en auðvitað hefur enginn tími unnist til að kynna sér hvað þarna er á ferðinni og hvort það er rétt, sem hér hefur margoft verið haldið fram, að allir okkar fyrirvarar séu inni og engar hættur séu því samfara að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Ef svo er hefur mikið breyst frá því í júlí því að við þau samningsdrög, sem þá lágu frammi, var margt að athuga. Í þeim drögum fólust greinilega ýmsar hættur þannig að mikið má þá hafa breyst frá því í lok júlí ef allt í einu eru engar hættur samfara þessum samningi.
    Það er auðvitað öllum ljóst að grundvöllurinn fyrir þessum samningi er lög og reglur Evrópubandalagsins, sem eiga að gilda á þessu svæði um fjórfrelsið svonefnda, þannig að líkja mætti því að samþykkja hann við inngöngu í Evrópubandalagið að því er varðar þau atriði og má því segja að það sé þá um nokkurs konar inngöngu að 60% inn í Evrópubandalagið. Það finnst mér eðlilegt að komi fram og hæstv. utanrrh. hlýtur að gera þjóðinni grein fyrir því þegar hann þeysist um landið til að kynna þennan samning.
    Mér fannst vanta í máli hans áðan að gera það alveg ljóst að lög Evrópubandalagsins eru æðri okkar lögum og það kom alls ekki fram, sem er eitt af því sem ég hef haft áhyggjur af, hvað verður með ný lög sem sett verða á þessu Evrópska efnahagssvæði. Eru það ekki í raun og veru lög og reglur Evrópubandalagsins sem við þurfum að samþykkja, ekki bara núgildandi lög heldur þau sem munu verða sett, sem ákvörðuð eru af Evrópubandalaginu í raun? Þó svo að ákvæði séu um það að við getum hugsanlega hafnað þeim hér á Alþingi verður það í raun varla hægt vegna þess að ef við höfnum þeim, erum við þá bara ekki að segja okkur úr þessu Evrópska efnahagssvæði?
    Þann 31. júlí sl. var viðtal við Frans Andriessen í í Information og ég ætla að leyfa mér að lesa hér í þýðingu sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Tengsl EFTA-ríkjanna við ákvarðanakerfi Evrópubandalagsins verður takmarkað við að þau geti gert grein fyrir sjónarmiðum sínum á vissum skýrt afmörkuðum sviðum.`` Gert grein fyrir sjónarmiðum sínum, ég endurtek það. ,,Þegar allt kemur til alls verður það Evrópubandalagið sem ákvarðar hvað gerist á Evrópsku efnahagssvæði.``
    Þetta eru ummæli Frans Andriessens þannig að þetta er hans skoðun. Hefur þetta eitthvað breyst frá 31. júlí? Hefur eitthvað breyst með það að Evrópubandalagið mun í raun ákvarða lög og reglur á þessu svæði og þar með hér á Íslandi? Á þessu sviði, ef af þessum samningi verður, afsalar Alþingi sér því verulegum hluta af löggjafarvaldinu og framselur það í raun til annarra þjóða og að mínu mati er þarna um verulegt fullveldisafsal að ræða og ég er ekki ein um þá skoðun.
    Það hefur einnig mikið verið rætt um að dómsvaldinu sé líka að verulegu leyti afsalað til yfirþjóðlegs dómstóls þannig að á þessum tveimur sviðum er um verulegt valdaafsal að ræða. Norðmenn telja að þarna sé um valdaafsal að ræða og þess vegna þarf þrjá fjórðu hluta atkvæða í norska þinginu til að þessi samningur verði samþykktur. Nú er talinn mjög mikill vafi á því í Noregi að svo verði og mig langar í því sambandi að beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh.: Hvað verður um sjávarútvegskaflann í samningnum ef Norðmenn fella hann í Stórþinginu? Fellur hann þá allur úr gildi eða mun hann gilda gagnvart öllum öðrum þjóðum sem þarna áttu aðild að? Mér er það ekki ljóst af máli hæstv. ráðherra hér áðan. Ég tel mjög mikilvægt, ekki síst í ljósi þessa fullveldisafsals, að þessi samningur verði borinn undir þjóðaratkvæði og tel það raunar sjálfsagt mál, ekki eingöngu vegna þessa heldur tel ég að svo stórt mál sem þarna er á ferðinni verði að bera undir þjóðaratkvæði og ætti raunar að

eiga við um miklu fleiri mál. Því vona ég að niðurstaðan verði sú að þetta mál verði borið undir þjóðaratkvæði áður en endanleg afstaða verður tekin.
    Ráðherrann hefur löngum haldið því fram og hélt því fram áðan að auðvelt væri að setja í íslenska löggjöf ákvæði um eignarhald á landi. Ef þetta er svona auðvelt að hans mati og ekkert virðist standa í veginum fyrir því að Evrópubandalagið muni taka það gott og gilt, hvers vegna í ósköpunum var það þá ekki sett inn í samninginn? Ef það var skilningur allra að í lagi væri að hafa þessi ákvæði inni í íslenskum eða þá norskum lögum, hvers vegna í ósköpunum var það þá ekki gert?
    Ég vil benda hæstv. ráðherra á að nýlega hefur fallið dómur, sem hann hlýtur að vita um, í Bretlandi um að það væri óheimilt að hafa inni í breskum lögum sérákvæði um réttindi breskra þegna umfram aðra. Ef við eigum að geta haft inni í okkar löggjöf réttindi íslenskra þegna umfram aðra hljótum við að geta sett það inn í samninginn. Að vísu heyrðist mér á ráðherranum áðan að eingöngu væri um að ræða búseturétt og forkaupsrétt sveitarfélaga og ríkisins að bújörðum. Ég sé fyrir mér að meira en stór hluti landsins væri þá kominn í ríkiseign eða í eign sveitarfélaga en ég hélt að það væri ekki beinlínis stefna þessarar ríkisstjórnar. Þannig er alveg ljóst að allir þeir fyrirvarar, sem talað var um í upphafi, eru auðvitað foknir út í veður og vind og það er alls ekki ljóst hvort sá almenni fyrirvari, sem hæstv. utanrrh. telur svo mikils virði, sé nokkurs virði í raun. Það þarf raunar að athuga það mál mjög vel áður en ég tek það sem góða og gilda vöru að nokkurt hald muni vera í honum.
    Ég vil minna á greinargerðir sem birst hafa eftir Stefán Má Stefánsson prófessor þar sem hann hefur m.a. bent á að í dómum Evrópudómstólsins hefur höfuðáherslan verið lögð á að fjórfrelsið gangi framar öllum öðrum ákvæðum. Þess vegna finnst mér að þessi almenni fyrirvari sé ákaflega lítils virði, a.m.k. án nánari athugunar, ekki nema það hafi einnig breyst núna síðustu daga.
    Fiskveiðimálin hafa auðvitað verið mest áberandi hér í umræðunni og ætla ég ekki að gera lítið úr þeim ávinningum sem náðst hafa á þeim sviðum. En þau ein og sér eru einungis lítill partur af þessu máli öllu og það verður auðvitað að skoða samninginn fyrst og fremst út frá öllum öðrum atriðum, sem eru eftir því sem hæstv. ráðherra hefur sjálfur sagt 97% af samningnum. Við höfum auðvitað ekki fengið það sem við lögðum upp með á því sviði. Fyrst var talað um fríverslun með fisk og hefur það verið rætt hér, bæði af mér og öðrum, hversu afdrifaríkir allir þeir ríkisstyrkir sem Evrópubandalagið leyfir geta orðið fyrir Íslendinga. Í Evrópubandalaginu er fiskvinnsla niðurgreidd en það getum við auðvitað ekki gert. Það á eftir að athuga betur þá niðurfellingu á tollum sem hér hefur mikið verið talað um og þá sérstaklega með tilliti til þess hversu mikla möguleika við höfum til að breyta okkar framleiðslu, fara út í meiri fullvinnslu og gera aðra hluti en einmitt það sem við höfum verið að gera hingað til. Sem greiðsla fyrir þetta eru auðvitað veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu sem eru mér mikill þyrnir í augum. Það er kallað gagnkvæmar veiðiheimildir og sagt að þetta sé algerlega fyrir utan samninginn. Auðvitað er það alveg rétt, en samningurinn tengist þessu óhjákvæmilega og talað er um að við megum veiða 30 þúsund tonn af loðnu við Grænland. Mér þykir það mjög einkennilegt að Evrópubandalagið sé farið að versla með loðnu við Grænland. Þeir eru auðvitað með samninga við Grænlendinga en hversu lengi eru þeir samningar í gildi? Hefur einhver loðna veiðst á þessu svæði undanfarið? Ég veit ekki betur en lítið sem ekkert hafi veiðst á þessu svæði af loðnu undanfarin ár og hvað gerist þá ef við veiðum ekki þessi 30 þús. tonn í staðinn fyrir karfa og langhala sem þeir fá að veiða innan okkar lögsögu? Af hverju geta þeir ekki sjálfir veitt sína loðnu og við fáum að veiða innan okkar lögsögu? Hvað er eiginlega þarna á ferðinni? Og hvað ef Ísland ákveður nú að segja upp þessum samningi? Hvað gerist þá ef við segjum eftir 1--2 ár að við viljum ekki lengur hafa þennan samning við Evrópubandalagið um svokallaðar gagnkvæmar veiðiheimildir? Mér þykir margt óljóst í þessu og vildi gjarnan fá svör um það hversu nátengdir þeir samningar eru.
    Það er ljóst eftir að þessir samningar tókust að önnur EFTA-ríki hafa hlaupið upp til handa og fóta og sagst ætla að sækja um aðild að Evrópubandalaginu, þ.e. þau ríki sem voru ekki þegar búin að því. Það er líka alveg ljóst að þessum samningum fylgir mikið stofnanabattarí með miklum kostnaði. Það eru áætlanir uppi um það að fjölga embættismönnum verulega innan EFTA og það verður óneitanlega mikill kostnaður við dómstólinn, það verður mikill kostnaður við eftirlitsstofnunina o.fl. Hver á að greiða þennan kostnað þegar hvert ríkið af öðru gengur inn í Evrópubandalagið og Ísland og Liechtenstein verða ein eftir? Þetta hefði mér þótt fróðlegt að heyra um. Eitthvað hljóta menn að hafa athugað hvað þetta kostar mikið og hversu mikið muni smám saman lenda í auknum kostnaði á Íslandi.
    Það er einnig talað um að við munum taka þátt í einhverjum nefndum á vegum EES eða Evrópubandalagsins og mig langar líka að heyra hvernig þetta er hugsað og hversu mikill kostnaður muni verða þessu samfara og hvort við höfum yfirleitt mannskap í þetta, hvort það verði ekki hálf þjóðin í förum milli Brussel og Reykjavíkur.
    Mér þótti líka mjög merkilegt að heyra það bæði af hálfu hæstv. utanrrh. og reyndar hæstv. sjútvrh. líka hversu mikil áhersla var lögð á það að binda þá sem voru í fyrri ríkisstjórn fasta við þennan samning. Það er eins og þeir hafi ekki mikla trú á samningum og vilji endilega láta stuðningsmenn fyrrv. ríkisstjórnar samþykkja samninginn nánast án skoðunar. Það er eins og það sé ekki talið að þessi samningur þoli skoðun hv. þm. og það er lögð mikil áhersla á að þeir beri ábyrgð á þessum samningi. Það er eins og þetta sé svo slæmur gerningur að það þurfi að klína því á einhvern annan heldur en sjálfan sig að skrifa undir þessi ósköp. En við skulum minnast þess að sú ákvörðun sem tekin var í Lúxemborg er einhliða ákvörðun ríkisstjórna. Alþingi á eftir að staðfesta samninginn og fjalla um hann hér og reyndar eiga 19 þjóðþing eftir að fjalla um þennan samning. Ég á mjög erfitt með að trúa því að þegar þingmenn fara ofan í þennan samning með gagnrýnum augum og reyna að meta hvaða afleiðingar hann muni hafa fyrir land og þjóð og fyrir þróun byggðar í landinu, þá hljóti hann stuðning hér á Alþingi.