Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 18:59:00 (403)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Í fundarhléi var gert samkomulag að því er mér hefur verið tjáð um hvernig þessari umræðu verði haldið áfram og henni síðan frestað. Hins vegar bárust mér þær fréttir á síðustu mínútu að í Ríkisútvarpinu hefði verið lesin í síbilju undanfarnar mínútur auglýsing frá utanrrn. sem hljóðaði á þá leið að Evrópskt efnahagssvæði væri orðið að veruleika o.s.frv. og mönnum boðið að koma á borgarafund utanrrh. í kvöld til þess að ræða þetta efni.
    Virðulegi forseti. Það er mjög erfitt að halda áfram umræðu af því tagi sem við teljum okkur eiga þátt í, vandaðri málefnalegri umræðu, og eiga orðastað við utanrrh. ef hann á sama tíma er að láta ráðuneyti sitt, ekki Alþfl., tilkynna þjóðinni í auglýsingatímum að Evrópskt efnahagssvæði sé orðið að veruleika og utanrrh. ætli að tala um þann veruleika eftir eina og hálfa klukkustund á almennum borgarafundi.
    Þess vegna spyr ég virðulegan forseta og jafnframt utanrrh.: Er eðlilegt að þinginu sé haldið við umræðuna með þessum hætti á sama tíma og utanrrn. tilkynnir þjóðinni að Evrópskt efnahagssvæði sé orðið að veruleika? Vill ekki hæstv. utanrrh. gera okkur grein fyrir, áður en lengra er haldið, í hvaða samhengi þessi opinberi fundur er við þessa umræðu og hvers vegna hann hefur kosið að ávarpa þjóðina með þeim hætti sem heyrst hefur síðustu mínúturnar á öldum ljósvakans? Mér finnst nauðsynlegt, áður en við höldum áfram, að ræða efnislega hvernig við eigum að skoða og taka til umfjöllunar á næstu mánuðum það sem utanrrh. ætlar að ræða í kvöld að sé orðið að veruleika.