Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 19:05:00 (407)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Í þingskapaumræðu 19. des. 1989 sagði hv. 1. þm. Suðurl. að rétt væri hjá hæstv. utanrrh. að þessi umræða, sem þá fór fram um Evrópskt efnahagssvæði, væri sennilega mikilvægasta umræða sem farið hefði fram á Alþingi Íslendinga um alllangan tíma. Ég er sammála því að svo hafi verið þegar það var rætt, og hafi það verið þá fer það ekki á milli mála að í dag er þetta mikilvægasta umræða sem farið hefur fram á Alþingi Íslendinga á undanförnum árum.
    Ég held að nauðsynlegt sé að menn byrji á því að reyna að átta sig á hvað það er í þessum samningi sem við getum framkvæmt án þess að við séum í EES. Þar er fyrst til að taka samkeppni í þjónustu. Við þurfum ekki að gera þennan samning til að leyfa erlendum bönkum að starfa í landinu. Við þurfum ekki að gera þennan samning til að leyfa fleiri flugfélögum að lenda á Íslandi. Við þurfum ekki að gera þennan samning til að tryggingafélögin fái keppinauta erlendis frá og erlend tryggingafélög taki upp starfsemi hér. Þetta getum við allt gert án aðstoðar, aðeins ef Alþingi Íslendinga leggur það til og samþykkir. Ég held að það megi byrja á því að tína svona spjarir utan af samningnum til þess að menn reyni að komast að kjarna hans.
    Annað atriði sem hlýtur að kalla á umhugsun er að hv. 1. þm. Suðurl. lagði á sínum tíma á það höfuðáherslu að Íslendingar færu í tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið. Það er ekki rökrétt að bera þann samning sem nú liggur fyrir saman við það ástand sem við höfum í viðskiptasamböndum við Evrópu. Þennan samning á vissulega fyrst og fremst að bera saman við hugsanlega niðurstöðu af tvíhliða viðræðum. Ekki getum við haldið því fram að Sjálfstfl. hafi ekki verið alvara á sínum tíma þegar hann hélt því fram að við ættum að fara í tvíhliða viðræður og í gegnum tvíhliða viðræður gætum við náð árangri í tollamálum. Ég held að allir hafi verið sammála því að við gætum náð árangri í tvíhliða viðræðum í tollamálum. Hins vegar blasti það við á þeim tíma að Efnahagsbandalagið vildi fyrst ræða við Fríverslunarbandalagið um hugsanlegt Evrópskt efnahagssvæði. Að þeirri umræðu lokinni hefur alltaf legið ljóst fyrir að aðilar gætu leitað eftir tvíhliða viðræðum og látið á það reyna hvað út úr þeim kæmi. Þess vegna undirstrika ég þetta: Það sem á að bera saman í þessum efnum er annars vegar þessi samningur og hins vegar það sem hugsanlega hefði komið út úr tvíhliða viðræðum. Mér er ekki ljóst á þessari stundu hvort hefði verið mikill munur á niðurstöðunni varðandi tollamálin eftir því hvort við hefðum verið í tvíhliða viðræðum eða hefðum staðið að þessu á þennan hátt. Það hefur einfaldlega ekkert svar fengist við því.
    Í þriðja lagi: Hvað þýðir tollfrelsi með fisk ef EB hefur áfram rétt til að styrkja sjávarútveginn og styrkja fiskvinnsluna? Þá þýðir tollfrelsi með fisk fyrst og fremst það að neytendur Evrópu fá fiskinn hugsanlega á því lægsta verði sem mögulegt er. Það segir ekkert um það hver samkeppnisaðstaða Íslendinga verður. Það eru nefnilega tvær hliðar á því máli að rústa atvinnuveg hjá öðru landi. Við könnumst við þá aðferð hjá EB að styrkja skipasmíðarnar með opinberum styrkjum. Hvað hefur það þýtt fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað? Það hefur þýtt hrun. Ef Evrópubandalagið hefur peninga til þess að greiða 80% byggingarstyrki til nýrra fyrirtækja sem fara í fiskvinnslu úti í Evrópu og ef bandalagið greiðir svo í upphafi 80% af launum mannanna sem þar vinna vegna þess að atvinnuleysið er það mikið að í gildi eru reglur hjá þeim á þann veg að nýtt fyrirtæki sem tekur menn af atvinnuleysiskrá býr við sérstök kjör í nokkur ár. Þegar þau ár eru liðin er einfaldlega hægt að loka því fyrirtæki og skipta um nafn og byrja aftur með nýtt fyrirtæki. Það keppir enginn á jafnréttisgrundvelli sem býr við það að andstæðingurinn hefur frjálsar hendur til að styrkja eftir þessum leiðum. Það er hrein blekking að halda að það þýði einhverja sigurgöngu fyrir íslenskan fisk ef EB beitir þessum aðferðum.
    Í fjórða lagi mega EFTA-löndin mega ekki beita styrkjum en EB á að vera það frjálst. Hvað þýðir þetta? Ef Norðmenn samþykkja þýðir þetta trúlega það að Norður-Noregur mun að stórum hluta leggjast í eyði, einfaldlega vegna þess að lífskjör þar munu hrynja eftir að norska ríkið hættir að styrkja sjávarútveginn í Norður-Noregi. Ég verð einnig að segja það að ég veit ekki nema þetta gæti haft veruleg áhrif á byggðir á Íslandi.
    Í fimmta lagi: Hver ber ábyrgð á kostnaði við yfirstjórn þessara mála? Hver ber ábyrgð á kostnaðinum við þá yfirstjórn sem hlýst af því að nú standa mál þannig að í stað þess að á sínum tíma ætluðu mjög mörg ríki að standa saman að þessu EES-svæði stöndum við nú frammi fyrir því að trúlega munu þau flestöll nema Ísland ganga inn í Evrópubandalagið? Hver verður afleiðingin? Hver verður þrýstingurinn á það að Íslendingar gangi líka inn þegar hinir eru allir farnir?
    Í sjötta lagi: Hvað þýðir fullt frelsi í atvinnuleit innan þessa svæðis? Sumar stéttir eru með lögvernduð réttindi eins og heilbrigðisstéttir þessa lands. Ég á ekki von á að erlendir verkamenn eigi greiðan aðgang inn í heilbrigðiskerfið til starfa, en aðrar stéttir búa ekki við neina lögverndun á þeim störfum sem þeir sinna eins og íslenskir verkamenn, íslenskt fiskvinnslufólk og íslenskir sjómenn að stórum hluta, þ.e. þeir sem ekki eru yfirmenn. Og þá kemur þessi spurning: Þýðir þetta í reynd að atvinnulausir útlendingar muni koma til landsins? Samkvæmt markaðslögmálunum bendir allt til þess að það verði til að lækka kjör þeirra Íslendinga sem vinna í þessum greinum.
    Ég held að nauðsynlegt sé að menn hætti að tala um þessi mál eins og einhver hershöfðingi hafi komið heim eftir sigursæla herför og nú beri að hafa lúðrasöng, blóm á veginn og mikið af lýð til að hylla. Það gengur bara

ekki upp að ætla að standa þannig að málum í upplýstu þjóðfélagi. Það gengur bara ekki upp.
    Ég verð að segja eins og er að ég ber mikið traust til þess að í utanrmn. Alþingis verði farið yfir þessi mál lið fyrir lið og ég hygg að menn hljóti að skoða þá heimsmynd sem menn eru að draga upp. Ísland er vissulega í Evrópu og það breytir engu hvort við gerum þennan samning eða ekki. Við verðum í Evrópu áfram. Aftur á móti erum við jaðarsvæði í miklu nágrenni við Ameríku, og efnahagslegt sjálfstæði landsins byggist á því að við höfðum vit á að setja ekki öll okkar egg í sömu körfu í viðskiptalegum skilningi. Ég er sannfærður um að það voru viðskiptin við Bandaríki Norður-Ameríku sem gerðu þessa þjóð efnahagslega sjálfstæða. Ég trúi því að markaðslöndin í Ameríku, markaðslöndin í Asíu og markaðslöndin í Sovétríkjunum séu þess virði að mjög hæpið sé að standa þannig að málum, eins og við Íslendingar höfum því miður gert, ef við skoðum íslensku tollalöggjöfina, að fremur sé stuðlað að innflutningi frá Evrópu en þessum löndum. Það eru margir vöruflokkar sem ástandið er þannig um í tollskránni að ef þeir eru fluttir inn frá Evrópu er tollurinn núll, en ef þeir eru fluttir inn frá öðrum löndum er tollurinn miklu hærri.
    Menn hafa sumir talað á þeim nótum að þetta væri alveg sérstakur hópur að sækjast eftir samvistum við. Þetta er gamalmennahæli heimsins. Það er tölfræðileg staðreynd og auðvelt að átta sig á því. Þetta er samsafn af nýlenduþjóðum heimsins sem með mestum ójöfnuði hafa traðkað á öðrum þjóðum á liðnum öldum. Þetta er félagsskapurinn. Ég sé ekki að það sé neitt sérstakt keppikefli að leggja höfuðkapp á að eiga viðskipti við þessa fremur en aðra.
    Ég er sannfærður um að ef GATT-viðræður fara út um þúfur þannig að mannkynið byggi á ný upp tollamúra á milli hins nýja stóra Þýskalands, milli hins nýja stóra veldis Japana og milli hins nýja stóra veldis Bandaríkjamanna í Ameríku er mannkynið nær nýrri styrjöld en það hefur oft verið áður því að það er blekking að halda því fram að styrjaldir hafi nokkurn tíma verið um annað en hagsmuni. Heimsstyrjöldin fyrri var styrjöld um hagsmuni, heimsstyrjöldin síðari var styrjöld um hagsmuni og þriðja heimsstyrjöldin fer því aðeins af stað að mannkynið álpist til þess að styðja viðskiptafjötra í þeirri trú að það leysi þannig sín vandamál.
    Ég vil trúa því að sem betur fer séu enn margir stórir leiðtogar í heiminum sem gera sér grein fyrir því að viðskiptamúrar sem Evrópubandalagið hefur verið að byggja upp eru ekki framtíðin. Mannkynið á að stefna að frelsi í viðskiptum á milli allra landa. Það er eina ásættanlega niðurstaðan sem að mínu viti er viðunandi.