Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

13. fundur
Miðvikudaginn 23. október 1991, kl. 19:37:00 (409)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að þurfa að grípa til þess hér en ég átti ekki von á að hæstv. utanrrh. mundi nota þær 15 mínútur, sem reyndar urðu 25, sem samið var um hér milli þingflokka að hann hefði hér í lok umræðna, til þess að ráðast á fjarstadda þingmenn og fyrrv. ráðherra með hreinum ósannindum að dómi okkar sem til mála þekkjum og að hann skyldi þar að auki verða við óskum okkar um skýr svör við tilteknum spurningum með útúrsnúningum. Það er því óhjákvæmilegt að mótmæla þessum málflutningi ráðherrans og koma jafnvel þeirri ósk á framfæri við virðulegan forseta að þegar þessari umræðu verður fram haldið, virðulegi forseti, fái bæði ráðherrann og einstakir þingmenn ótakmarkaðan tíma til þess að ræða þetta mál áfram því að það er ekki hægt að láta setja sig í þá spennitreyju að hafa aðeins fáeinar mínútur þegar ráðherrann kýs að nota sinn tíma ýmist til að þylja rangfærslur, útúrsnúninga, eða svara ekki lykilatriðum. Ég mótmæli þess vegna þeirri frásögn sem ráðherrann var hér með og óska eftir því við forsetann að þegar þessari umræðu verður fram haldið verði það gert á þann veg að það verði ótakmarkaður ræðutími, m.a. til þess að þeir þingmenn, sem ráðherrann hefur ráðist á hér þó að þeir séu fjarstaddir, fái tækifæri til að svara fyrir sig.