Ráðning erlendra sjómanna á íslensk kaupskip

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 10:34:00 (410)

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
     Virðulegi forseti. Á þskj. 5 hef ég borið fram fsp. til hæstv. samgrh. um með hvaða hætti hann hyggist sporna við því að erlendir sjómenn séu ráðnir til starfa á skipum í þjónustu íslenskrar kaupskipaútgerðar.
    Á undanförnum árum hefur það í vaxandi mæli gerst að íslenskar kaupskipaútgerðir hafa tekið erlend kaupskip á leigu til siglinga að og frá landinu. Um tvenns konar leiguform er þá einkum um að ræða, þ.e. svokölluð þurrleiga sem er leiga á skipi án áhafnar eða tímaleiga þar sem alfarið er erlend áhöfn á skipinu eða fáeinir Íslendingar um borð. Þá eru einnig allmörg kaupskip í eigu íslenskrar kaupskipaútgerða undir erlendum fánum, ýmist alfarið með erlendar áhafnir eða samsett af íslenskum og erlendum sjómönnum.
    Afleiðing þess sem hér hefur verið getið er minnkandi íslenskur kaupskipafloti jafnhliða fækkun atvinnutækifæra íslenskra farmanna. Nú er svo komið að af 41 skipi í eigu Íslendinga eru aðeins 17 skráð á Íslandi undir íslenskum fána, hin 24 eru undir erlendum fána og flest undir svokölluðum þægindafána, þ.e. fána þeirra landa sem láta sig litlu varða um aðbúnað og öryggismál sjómanna.
    Það er ekki langur tími í sögu þjóðar vorrar þá litið er til ársins 1913 en þá barst hinu háa Alþingi skeyti frá danska skipafélaginu sameinaða sem þá var með einokun í siglingum hér við land, þar sem Íslendingum var hótað samgönguerfiðleikum á sjó ef fjárhagslegur stuðningur yrði veittur við millilandaferðir Eimskipafélags Íslands sem þá var í burðarliðnum. Svar Íslendinga um land allt við þessum hótunum var aðeins eitt. Þeir sameinuðust um hlutabréfakaup Eimskips og skipafélagið varð til.
    Fimmtíu árum síðar birtist merkileg ábending til Íslendinga sem á enn við í dag, a.m.k. hvað varðar sjálfstæði þjóðarinnar og, með leyfi hæstv. forseta, vil ég vitna þar til.
    ,,Þegar Íslendingar glötuðu sjálfstæði sínu á árunum 1262--1264 steig þjóðin það hættulega spor að trúa útlendingum fyrir siglingamálum sínum. Með stofnun hf. Eimskipafélags Íslands endurheimti þjóð vor þessi mál í sínar hendur og steig þar með hið heilladrýgsta spor í sjálfstæðisbaráttunni.``
    Virðulegi forseti. Það eru ekki mörg ár liðin síðan hið margumrædda skipafélag gaf út um það fyrirheit á aðalfundi sínum að það vildi verða burðarás í íslensku atvinnulífi. Vonandi verður það fyrirheit haldið. Samtök sjómanna gera sér fulla grein fyrir þeim vanda sem íslensk kaupskipaútgerð á við að etja í siglingum milli erlendra hafna, hvar erlendir samkeppnisaðilar eru með skip sín undir þægindafánum og mönnuð láglaunasjómönnum. Þar er vandinn fyrst og fremst sem á þarf að taka, hæstv. samgrh. Engu að síður eiga íslenskar kaupskipaútgerðir í harðri samkeppni við erlendar útgerðir um farmflutninga á lýsi og mjöli frá landinu. Við verðum að efla íslenska kaupskipaútgerð. Það er hluti af sjálfstæði okkar. Við verðum að efla íslenskt atvinnulíf, sérhvert atvinnutækifæri er okkur Íslendingum mikið verðmæti.