Ráðning erlendra sjómanna á íslensk kaupskip

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 10:38:00 (411)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Að undanförnu hafa skráningar íslenskra kaupskipa erlendis aukist mjög. Nú er svo komið að af 41 skipi sem er í rekstri íslenskrar útgerðar eru 24 skráð í 7 erlendum ríkjum en aðeins 17 skip eru skráð á Íslandi. Það leiðir m.a. af þessari staðreynd að erlendum sjómönnum á flotanum hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Sé litið á mönnun kaupskipanna sl. fjögur ár kemur glögglega í ljós að Íslendingum sem starfa á skipunum hefur jafnframt fækkað verulega.
    Árið 1988 voru stöðugildi á flotanum alls um 500. Þar af sinntu Íslendingar um það bil 425 stöðugildum sem er nálægt 85%. Á stuttum tíma hefur þetta hlutfall orðið mun óhagstæðara. Í apríl 1991 voru stöðugildi um það bil 465. Þar af gegndu Íslendingar um 340 eða 73%. Stöðugildum íslenskra farmanna hefur því fækkað um nálægt 85 á þessum fjórum árum. Erlendu farmennirnir, um það bil 100 talsins, eru allir starfandi á þeim skipum í rekstri íslensku útgerðanna sem sigla undir erlendum fánum. Ríflega helmingur þeirra er á svokölluðum stórflutningaskipum sem sum hver eru alfarið í leiguverkefnum erlendis. Einnig eru þessir erlendu farmenn á áætlunarskipum sem eru annaðhvort í eigu íslensku útgerðanna eða eru í leigu til lengri eða skemmri tíma, en eins og fyrr segir eru þessi áætlunarskip skráð undir erlenda fána. Það er því ljóst samkvæmt framansögðu að skráning skipa undir erlendum fána og ráðning erlendra farmanna í skipsrúm haldast í hendur. Til þess að snúa þessari þróun við verður að skapa kaupskipaútgerðum betri samkeppnisstöðu gagnvart erlendum útgerðum og hvetja jafnframt til þess að þeir sem á skipunum starfa séu íslenskir þegnar.

    Stjórnvöld hafa gert sér grein fyrir þeim vanda sem hér er við að etja og því var sl. vor skipuð nefnd á vegum samgrn. til þess að vinna að tillögum sem mættu verða til að bæta úr þessu ófremdarástandi. Í skipunarbréfi segir svo:
    ,,Verksvið nefndarinnar verður að endurskoða gildandi lög og reglur um skráningu og mönnun íslenskra kaupskipa. Þetta verður gert með það að markmiði að skapa íslenskum kaupskipaútgerðum sambærilegan rekstrargrundvöll og í nágrannalöndunum. Í starfi sínu skal nefndin hafa hliðsjón af lögum annarra Norðurlanda um alþjóðlegar skipaskráningar og reynslu þessara þjóða á alþjóðlegri skipaskráningu.``
    Í stefnu- og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar sem birt var nú á dögunum segir svo í kaflanum um samgöngur og ferðamál: ,,Gerð verður könnun á hagkvæmni þess að koma á fót alþjóðlegri skipaskrá hér á landi.``
    Nefndin hefur ekki enn skilað áliti sínu en ég vonast til að niðurstaða hennar muni skapa grundvöll fyrir stefnumörkun í þessu máli. Nefndin hefur fjallað um mögulegar leiðir til þess að ná þeim markmiðum sem ég hef skýrt, þar á meðal skoðað leiðir sem Danir og Norðmenn fóru 1987 og 1988 þegar þeir stóðu frammi fyrir sams konar vanda og við stöndum nú frammi fyrir. Kaupskipum sem sigldu undir fánum þessara landa fækkaði ört og bitnaði það m.a. á tengdri starfsemi í þessum löndum, svo sem skipasmíðum og margvíslegri þjónustu við skipaútgerð. Með alþjóðlegri skipaskráningu, í Noregi NIS og í Danmörku DIS, var réttarstöðu útgerðarfélaga breytt þannig að rekstrarkostnaður þeirra var minni en áður. Í Noregi voru gefnar heimildir til að ráða erlenda sjómenn á öðrum kjörum en norska en í Danmörku voru veitt veruleg skattfríðindi til að tryggja dönskum sjómönnum skipsrúm.
    Lög verða ekki sett um þjóðerni áhafna í alþjóðlegri skipaskrá, enda er frjálst val um þjóðerni áhafnar eitt megineinkenni slíkrar skrár. Það er ekki verkefni stjórnvalda að hafa áhrif á samninga milli hagsmunaaðila. Stjórnvöld geta hins vegar leitast við að leiða málsaðila til samkomulags og greiða fyrir viðræðum þeirra í milli og hefur samgrn. þegar átt fundi með fulltrúum útgerða og farmanna til þess að ræða vandamál er tengjast mönnun skipa og alþjóðlegri skipaskrá á Íslandi.
    Það er alvarlegt mál að íslensk sjómannastétt missi æ fleiri atvinnutækifæri í hendur erlendra farmanna, en það er ekki komið undir stjórnvöldum einum að snúa þeirri þróun við. Ábyrgðin hvílir líka og kannski miklu fremur á farmönnum og á útgerðaraðilum sjálfum.
    Ég vona að spurningunni sé svarað eins og efni standa til á þessari stundu.