Ríkisjarðir

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 10:50:00 (415)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Eftir að endanlegt skipulag komst á íslensku kirkjuna seint á 13. öld tók kirkjan að eignast jarðir sem hún ýmist fékk að gjöf, keypti eða tók upp í sektir fyrir veraldlegar syndir manna. Eftir siðskiptin komust hinar gífurlegu jarðeignir kirkjunnar, svo og allar eignir klaustranna í hendur umboðsmanna Danakonungs. Með tilkomu þess embættismannakerfis sem mótaðist á 17. öld fengu embættismenn, jafnt prestar sem sýslumenn, jarðir til yfirráða og til urðu embættismannabústaðir sem sumir hverjir eru enn við lýði. Aðrar jarðir í eigu konungs voru leigðar eða veittar sem umboð. Á 19. öld var nokkuð selt af konungs- og kirkjujörðum en enn í dag er töluvert eftir af þessum aldagamla arfi sem nú telst eign þjóðarinnar auk þess sem margar jarðir hafa bæst við af ýmsum ástæðum. Því miður hafa jarðeignir fallið í verði og landbúnaður á erfitt uppdráttar sem kunnugt er, en samt sem áður hljóta að felast í jarðeignum ríkisins veruleg auðæfi sem unnt er að nýta betur í þágu þjóðarinnar með ýmsum hætti.
    Til að fá upplýsingar um umfang ríkisjarða og nýtingu þeirra vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. landbrh.:
  ,,1. Hversu margar jarðir eru í eigu ríkisins?
    2. Hversu margar ríkisjarðir eru:
    a. nýttar af embættismönnum ríkisins,
    b. nýttar af bændum,
    c. í eyði?``
    Eftir að þessi fsp. kom fram var mér bent á það að þess væru dæmi að ríkisjarðir væru notaðar undir sumarbústaði, hefðu verið leigðar eða lánaðar undir sumarbústaði, jafnvel opinberra starfsmanna og það mál þarfnast nánari skoðunar.