Stefna ríkisstjórnarinnar varðandi ríkisjarðir

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 10:54:00 (418)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Eins og fram kom í fsp. minni til hæstv. landbrh. hér áðan, þá hljóta að felast miklir möguleikar í öllum þeim fjölda jarða sem eru í eigu ríkisins. Það má t.d. hugsa sér að kanna hvort jarðir sem farnar eru í eyði eða nýtast illa geti komið að gagni fyrir ferðafólk sem tjaldsvæði, göngusvæði, sumarbústaðalönd, þjóðgarðar eða til ræktunar af ýmsu tagi svo eitthvað sé nefnt.
    Í hvítbók ríkisstjórnarinnar er sett fram hugmynd um að lána land til fósturs, þ.e. til uppgræðslu, og í fjárlagafrv. kemur fram að hugað verði að sölu ríkisjarða. Því vil ég spyrja hæstv. landbrh. nánar út í þessi áform og beini til hans eftirfarandi spurningum:
    ,,Hver eru áform ríkisstjórnarinnar varðandi:
    a. frekari eða breytta nýtingu ríkisjarða,
    b. sölu á ríkisjörðum?``