Stefna ríkisstjórnarinnar varðandi ríkisjarðir

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:07:00 (424)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi út af hugmyndum um að Landgræðslan fái til sín mjólkurkvóta vil ég aðeins segja það að málefni mjólkurframleiðslunnar eru nú í athugun í sjömannanefnd. Illu heilli féllst forveri minn á það að heimila kúabændum að framleiða 15% fram yfir framleiðslurétt sem hefur valdið birgðasöfnun í mjólkuriðnaði en reiknað er með að mjólkurframleiðslan sé nú um það bil 5% meiri en nemur markaðnum hér á landi.
    Á hinn bóginn eru verð á t.d. ostum erlendis það lág að ekki kemur til greina að stefna að frekari útflutningi á mjólkurvörum svo að mjókurkvóti er alls ekki til skiptanna heldur óhjákvæmilegt að draga þar saman. Hins vegar hefur Landgræðslan nokkurt fé til þess að liðka fyrir þar sem nauðsynlegt er og ég geri mér vonir um að það takist að hafa veruleg áhrif á það að búskapur með sauðfé dragist saman eða leggist niður á þeim svæðum sem viðkvæmust eru ellegar þá að fé verði haldið innan girðingar.
    Um embættismenn vil ég aðeins segja að það er eðlilegt að jarðir séu undir fleiri en einu ráðuneyti. Þannig hefur samgrn. með þær jarðir að gera þar sem vitaverðir eru. Ég geri ráð fyrir því að góður prestur geti þess vegna verið góður bóndi en get á hinn bóginn ekki fullyrt um það hvort þeir sem tóku saman það svar sem hér er séu eru sömu skoðunar. Þess vegna er mér ekki kunnugt um hvort þeir telji þá bændur sem búa með bændum.