Stefna ríkisstjórnarinnar varðandi ríkisjarðir

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:08:00 (425)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp er sú umræða sem hér varð um það hversu eðlilegt það

væri að ríkið ætti jarðnæði og í hversu miklu umfangi það ætti að vera. Og þá langar mig til þess að minna á þann samning sem hæstv. utanrrh. var að gera í Lúxemborg um Evrópskt efnahagssvæði og þær girðingar sem hæstv. landbrh. sagði að nú þyrfti að fara að setja í íslensk lög.
    Það sem hér hefur verið rætt á þingi æ ofan í æ og utanrrh. hefur sagt er að til þess að menn hefðu rétt til landakaupa þyrfti að setja inn í lögin ákvæði um að menn hefðu fasta búsetu á jörðinni, ætluðu sér að hafa fasta búsetu, að þeir hefðu búið ákveðinn tíma hér í landinu og að þeir ætluðu sér að nýta jörðina. Þetta eru auðvitað afskaplega þröng ákvæði miðað við þann niðurskurð sem við erum að gera í landbúnaðarmálum. Ef menn ekki uppfylla þessi ákvæði, þá kemur til forkaupsréttur sveitarfélaga hugsanlega eða forkaupsréttur ríkis. Ég held því að það sé ljóst að ríkið mun eftirleiðis í ríkari mæli eignast jarðnæði heldur en hingað til.
    Í þessu sambandi langar mig til að vísa til þess að þetta er í rauninni sérstakt vandamál hjá okkur vegna þess hversu landið er stórt og þjóðin er fámenn. Þetta er auðvitað allt annað hjá þjóðum úti í Evrópu þar sem víðast er skortur á landsvæði.