Móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:22:00 (430)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Varðandi þessar spurningar um móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps, en þar hefur komið fram að síðan langbylgjumastrið á Vatnsendahæð hrundi hefur verið ófremdarástand í móttökuskilyrðunum víða um land, þá vil ég að það komi fram hér að það eru nokkrir sveitabæir a.m.k. sem ég þekki til á Vestfjörðum í heilum fjörðum þar sem hvorki heyrist í útvarpi né sjónvarpi, hvorki í Rás 1 né Rás 2. Þetta tel ég mjög alvarlegt mál, ekki síst vegna þeirra öryggisatriða sem eru í því fólgin að hafa útvarp. Það er orðið mjög brýnt að eitthvað varanlegt sé gert í því að koma á langbylgju eins og var áður en mastrið hrundi. Það er ekki nægilegt að setja upp það sem verið er að prófa núna sem ekki mun ná nema til hluta af landinu.