Móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:27:00 (433)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Okkur greinir auðvitað ekki á um það að ástandið er ekki eins og við vildum hafa það. Það eru of margir enn í þessu landi sem ekki njóta þess að hlýða á útvarp eða horfa á sjónvarp.
    Ég veit ekki hvort mönnum er það kunnugt að það þarf ekki að fara undir Grænuhlíð eða í einhverja þrönga firði vestur á fjörðum eða annars staðar á landinu til þess að verða var við þessa staðreynd. Það þarf nú ekki lengra en upp í Kjós eða upp í Mosfellsbæ þar sem aðstæður eru alveg eins og þessar, að einstaka heimili sjá ekki sjónvarp alla vega.
    Hver taki sér umboð til þess að ákveða hver fær að hlusta eða horfa, ég held að enginn sé nú í sjálfu sér að sækjast eftir slíku umboði. Ég tel alveg víst að það sé farið eftir þeim skynsamlegustu áætlunum sem menn gera þegar framkvæmdaröð er ákveðin. En það er vissulega viðfangsefni okkar að koma þessum málum í lag sem allra fyrst.
    Þær tölur sem hv. 4. þm. Norðurl. v. nefndi og talað var um hér fyrr, 65 millj. kr., þar er auðvitað átt við eitthvað allt annað en ég var að telja upp áðan.