Móttökuskilyrði útvarps og sjónvarps

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:29:00 (434)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Það sem vekur athygli mína í þessari fsp., og þá einkum í svari hæstv. menntmrh., eru þær tölur sem hann nefnir, kostnaðartölur um nauðsynlegar úrbætur. Hæstv. ráðherra telur þetta kosta liðlega 1000 millj. kr. Það eru tölur sem eru á allt öðru stigi en nefndar voru fyrir nokkrum árum þegar fyrirspurn var rædd sem vikið var að áðan.
    Ég hefði haft áhuga á því ef menntmrh. vildi sundurgreina þetta eitthvað örlítið nánar þannig að menn áttuðu sig á því í hverju þessi munur liggur því að það er gríðarlegt stökk að tala um 80 millj. eða 1000 millj.
    Ég vil líka minnast á skilyrði sjómanna til móttöku útsendinga sjónvarps og útvarps. Þau eru eins og allir vita nokkuð lakari og önnur en hjá flestum okkar hér á landi. Það hefur verið mikið knúið á um það af hálfu sjómanna að fá úrbætur í þessu efni. Ég minni á það mönnum til fróðleiks að hér fyrir nokkrum árum þegar verið var að sannfæra landsmenn og Vestfirðinga um það að nauðsynlegt væri að reisa ratsjárstöð á Bolafjalli, voru ein af þeim rökum sem stjórnvöld reiddu fram þá, þar á meðal frá hv. utanrrn., að með þeirri stöð kæmu sjónvarpssendingar til sjómanna.