Breytingar á skiptingu landsins í sveitarfélög

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:33:00 (435)

     Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson) :
     Frú forseti. Ég hef á þskj. 41 leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. félmrh. um breytingu á skiptingu landsins í sveitarfélög. Fsp. hljóðar svo:
  ,,1. Hvernig hyggst ráðherra fara með nýlegt nefndarálit um breytingar á skiptingu landsins í sveitarfélög?
    2. Hvaða verkefni telur ráðherra skynsamlegt að færa til sveitarfélaga verði tillaga nefndarinnar að veruleika um verulega fækkun sveitarfélaga?``
    Þetta nefndarálit er nokkuð ítarlegt og vel unnið og er rétt að það komi hér fram að þessi nefnd virðist hafa sinnt starfi sínu feiknavel. Nefndin var skipuð 8. jan. af hæstv. félmrh. og átti að gera samræmdar tillögur um æskilegar breytingar á skiptingu landsins í sveitarfélög. Það var óskað eftir því í skipunarbréfinu að nefndin lyki störfum fyrir 1. okt. en í skilabréfi nefndarinnar kemur fram að nefndin lítur á þetta sem áfangaskýrslu og tekur endanlega afstöðu til málsins í desember nk. og mun þá leggja fram lokatillögur til ráðherra.
    Það er að sjálfsögðu ekki tími til þess hér í stuttum fyrirspurnatíma að fara ofan í þær tillögur sem nefndin gerir grein fyrir. Í skýrslunni eru þó nefndar fyrst og fremst tvær leiðir, annars vegar það sem nefndin kallar leið 1 og gerir ráð fyrir því að fjöldi sveitarfélaga í landinu verði 60--70 og það verði aðeins í örfáum tilvikum þar sem íbúar sveitarfélaga verði færri en 500. Hins vegar er það leið 2 þar sem gert er ráð fyrir að sveitarfélög nái yfir mjög stór svæði eins og segir í tillögu nefndarinnar og aðeins í undantekningartilvikum yrðu íbúar þar færri en 1000. Með þessu yrðu sveitarfélög í landinu um það bil 25. Þá segir einnig varðandi þessa seinni leið, leið 2 í skýrslu nefndarinnar:
    ,,Skilyrði mundu skapast [þ.e. með leið 2] fyrir hreinni verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þannig að samstarfsverkefni þeirra gætu lagst af að mestu. Þessi stóru og fjölmennu sveitarfélög gætu tekið við verkefnum sem ríkið annast í dag.``
    Það er mjög nauðsynlegt fyrir þingheim að fá að heyra hugmyndir hæstv. félmrh. varðandi það hvaða verkefni þarna er um að ræða, hvaða stóru verkefni er hægt að færa til sveitarfélaga sem miðað við þessa leið verða sum hver ekki stærri en með 1000 íbúum. Ég held að þarna séu menn í raun og veru með of miklar væntingar.
    Það er einnig nauðsynlegt fyrir þingheim að fá að heyra af því frá hæstv. félmrh. hvenær ráðherra gerir ráð fyrir því að tillögur verði lagðar fyrir þingið.