Breytingar á skiptingu landsins í sveitarfélög

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:35:00 (436)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Nefndarálit það sem hér um ræðir og um er spurt er í raun áfangaskýrsla nefndar sem ég skipaði í janúar sl. til að gera tillögur um æskilegar breytingar á skiptingu landsins í sveitarfélög. Nefnd þessi var skipuð fulltrúum allra þingflokka á Alþingi auk fulltrúa frá Byggðastofnun, Sambandi ísl. sveitarfélaga og félmrn. Áfangaskýrslan kom út um síðustu mánaðamót og henni hefur einkum verið dreift til alþingismanna og sveitarstjórnarmanna.
    Ákveðið var að skýrslan yrði kynnt á fundum um allt land sem ætlaðir væru sveitarstjórnarmönnum, svo og öllum öðrum sem áhuga hafa á þessu máli. Félmrn. stendur fyrir þessum fundum í samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga. Rétt er að minna á í þessu sambandi að sl. sumar héldu fulltrúar úr sameiningarnefndinni fundi með flestum sveitarstjórnum í landinu og kynntu sér viðhorf sveitarstjórnarmanna til málsins. Samband ísl. sveitarfélaga hefur ákveðið að halda aukafulltrúaráðsfund nú seint í nóvember í tengslum við árlega fjármálaráðstefnu. Á fundinum er ætlunin að fulltrúaráðið taki afstöðu til þeirra tillagna sem settar eru fram í skýrslunni. Nefndin sjálf hefur ekki tekið endanlega afstöðu í málinu en hún mun koma saman í desember og móta þá endanlegar tillögur í ljósi þeirra viðbragða sem skýrslan hefur þá fengið.
    Ég vonast eftir að geta fljótlega eftir þinghlé lagt fram frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum byggt á endanlegu áliti og tillögum nefndarmanna.
    Varðandi það hvaða verkefni væri skynsamlegt að flytja til sveitarfélaganna veltur mjög á því hversu róttæk breyting er fyrirsjáanleg varðandi stækkun sveitarfélaganna. Við núverandi aðstæður er mjög erfitt að færa aukin verkefni til sveitarfélaganna og ég veit að það er nokkuð almenn skoðun sveitarstjórnarmanna.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að ríkisstjórnin muni á kjörtímabilinu beita sér fyrir því að stofnunum og þjónustu á vegum ríkisins verði komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins. Grundvöllur þess að flytja aukin verkefni til sveitarfélaganna í einhverjum mæli tel ég vera að við getum stækkað sveitarfélögin verulega þannig að hvert sveitarfélag myndi eitt stórt þjónustu- og atvinnusvæði sem geti myndað sterk vaxtarsvæði

og félagslega heild fyrir íbúa sína. Allar aðgerðir stjórnvalda á sviði byggðamála, atvinnumála, samgöngumála og sveitarstjórnarmála verður líka að samræma með markvissari hætti en verið hefur. Ljóst er að stækkun sveitarfélaga ásamt bættum samgöngum er víða um land forsenda fyrir samstarfi eða samruna undirstöðuatvinnufyrirtækja.
    Þar sem mörg sveitarfélög eru á sama atvinnu- og þjónustusvæði kemur oft upp togstreita um staðsetningu atvinnufyrirtækja, uppbyggingu hafna eða sameiningu atvinnufyrirtækja. Með stækkun sveitarfélaganna væri hægt að koma í veg fyrir slíkt sem aftur gæti leitt til meiri hagkvæmni og styrkt atvinnulífið á stöðunum. Ef það markmið yrði sett að fækka sveitarfélögunum úr 200 í 25--30 þannig að sveitarfélög yrðu yfirleitt ekki með undir 1000 íbúa mundi það skapa skilyrði til þess að tryggja öflugt atvinnulíf á landsbyggðinni. Takmarkanir á möguleikum á samruna fyrirtækja vegna sveitarfélagamarka mundu vera að mestu úr sögunni og stjórnsýslan öll mundi verða mun einfaldari, skilvirkari og ódýrari. Aðstæður mundu skapast fyrir dreifingu valds frá miðstjórnarstofnunum ríkisins út til sveitarfélaganna.
    Með þeim aðgerðum sem ég hef hér lýst væri hægt að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið á landsbyggðinni og koma í veg fyrir þá byggðaröskun sem við höfum upplifað sl. ár. Brottflutningur fólks af landsbyggðinni umfram aðkomna til höfuðborgarsvæðisins síðustu ár er af stærðargráðunni frá 1000--1500 manns á ári og mannfjöldaspár sýna stöðnun eða jafnvel fækkun íbúa landsbyggðarinnar á næstu árum verði ekkert að gert.
    Náist samstaða um stóra áfanga í stækkun sveitarfélaganna mun ég samhliða beita mér fyrir því að skipulega verði af hálfu stjórnvalda lagðar fram ákveðnar tillögur um hvaða verkefni, stofnanir og þjónusta geti flust til landsbyggðarinnar til að efla atvinnulífið. Þessi mál eru nú til athugunar í félmrn. en verkefnin sem sérstaklega hljóta að koma til skoðunar eru bæði á sviði heilbrigðis- og skólamála auk þess að flytja þjónustu og stofnanir út á landsbyggðina sem núna er nánast eingöngu að finna á höfuðborgarsvæðinu.