Fjárveiting til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:43:00 (439)

     Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson) :
     Frú forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 42 að leggja fram fsp. til hæstv. félmrh. sem hljóðar svo:
  ,,1. Hvernig var af hálfu ráðherra staðið að úthlutun á 15 millj. kr. fjárveitingu samkvæmt fjárlögum 1991 til

atvinnumála kvenna á landsbyggðinni?
    2. Hvaða aðilar hafa fengið úthlutað fjármagni og hvenær var því úthlutað?``
    Ástæður þessarar fsp. eru auðvitað þær að hér er um mjög brýnt mál að ræða og mikil ástæða til þess að vel sé að málinu staðið. Á öðrum vettvangi hef ég kynnst nokkuð því sem ég vil kalla fálmi ráðuneytisins í því að koma þessum peningum í þetta annars ágæta verkefni. Ég vil stikla aðeins á stóru.
    Hinn 16. apríl sl. var landshlutasamtökum sveitarfélaga sent bréf frá ráðuneytinu þar sem fram kemur að þessar 15 millj. kr. séu til úthlutunar í ráðuneytinu. Þetta bréf barst Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi þann 22. apríl sl. en í lok bréfsins segir:
    ,,Þess er vænst að stjórnir landshlutasamtaka sveitarfélaga láti umbeðnar tillögur í té sem fyrst og eigi síðar en 30. apríl 1991.``
    Þessar tillögur átti samkvæmt bréfinu að vinna í samvinnu við atvinnumálanefndir sveitarfélaga.
    Á Austurlandi var brugðist mjög skjótt við og strax þann 23. apríl eða daginn eftir að bréfið barst var dreifibréf sent öllum sveitarstjórnum á Austurlandi og þau beðin um að senda inn tillögur og minnt á frest ráðuneytisins. Síðan er erindið tekið fyrir í framkvæmdaráði Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi þann 7. maí en þá hafði tekist að fá örlítinn frest eftir munnlegum leiðum hjá ráðuneytinu til þess að skila inn tillögum. Með leyfi forseta, segir í fundargerð þessa fundar:
    ,,Fram kom að einhver sveitarfélög og atvinnumálanefndir hefðu sleppt því að fjalla um málið vegna hinna kröppu tímamarka. Samþykkt var að fresta afgreiðslu á umsóknunum, fela framkvæmdastjóra að sækja um frekari frest hjá ráðuneytinu og jafnframt að leita eftir því við það að fjárveitingunni verði komið í hendur stjórnar Atvinnuþróunarsjóðs Austurlands sem sjái um útdeilingu styrksins vegna þess að þar sé til staðar betri fagleg þekking er varðar málaflokkinn en hægt er að ætlast til af stjórn Sambands sveitarfélaga í Austurlandsjördæmi.``
    Ég hef nú rakið helstu ástæður þess að ég tel nauðsynlegt að hæstv. félmrh. geri Alþingi grein fyrir því hvernig með þessa fjármuni var farið.