Kennaramenntun

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:53:00 (443)

     Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson) :
     Frú forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 39 að leggja fsp. fyrir hæstv. menntmrh. um kennaramenntun. Hún hljóðar svo:
    ,,Hefur ráðherra einhver áform uppi varðandi framkvæmd tillagna um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun?``
    Fyrirspurn þessi er auðvitað fyrst og fremst fram lögð vegna gífurlegs kennaraskorts á landsbyggðinni sem verið hefur um æðilangan tíma. Ýmislegt hefur þó verið gert til að reyna að sporna við þessum kennaraskorti, m.a. hafa verið samdar nokkuð nákvæmar tillögur á vegum starfshóps sem skipaður var af skólaráði Kennaraháskóla Íslands þann 10. mars 1989. Hópurinn skilaði áliti í desember sama ár þar sem tillögurnar eru bæði skilgreindar og námið skipulagt. Þær hafa því miður ekki náð fram að ganga og hæstv. ráðherra hafði fyrir nokkrum mánuðum síðan afskipti af þeirri stofnun sem með þetta fer og það er ekki síst þess vegna sem hæstv. ráðherra er að því spurður hvort hann hafi einhver áform uppi varðandi framkvæmd þessara ákveðnu tillagna.
    Það er einnig merkilegt að í hinni svokölluðu hvítbók ríkisstjórnarinnar er hvergi á Kennaraháskólann minnst, eingöngu sagt: ,,Kapp verður lagt á að bæta úr kennaraskorti á landsbyggðinni.`` Ég vona að hæstv. ráðherra muni notfæra sér við það kapp þær ágætu tillögur sem fyrir liggja, væntanlega einhvers staðar í Kennaraháskóla Íslands.
    Það er rétt að hér komi fram nokkrar tölulegar upplýsingar sem því miður eru af skornum skammti en verður væntanlega fljótlega bætt úr þar sem fyrir liggur beiðni um skriflegt svar frá hæstv. ráðherra um útskrifaða kennara frá Kennaraháskóla Íslands og hvernig þeir hafa skipst á fræðsluumdæmi. Ég hef hér undir höndum eingöngu tölur varðandi tvö sl. ár. Þar kemur fram að á árinu 1990 útskrifuðust 103 kennarar frá Kennaraháskóla Íslands. Af þeim eru 67 í starfi, þar af 31 utan Reykjavíkur og Reykjaness. En þeir skiptast nokkuð misjafnlega á fræðsluumdæmin og það er athygli vert að þetta ár fer enginn kennari í fræðsluumdæmi Norðurl. v. Á árinu 1991 útskrifaðist frá skólanum 101 kennari en hinn 4. sept. var 61 þeirra kominn til starfa, þetta gæti auðvitað eitthvað hafa breyst á síðustu vikum, og af þessum 61 sem eru í starfi eru 22 utan Reykjavíkur og Reykjaness. Það vekur enn athygli að aftur þetta ár er það sama fræðsluumdæmið sem engan kennara hefur úr þeim hópi sem útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands.