Jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 12:02:00 (446)

     Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson) :
     Frú forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 43 að leggja fsp. fyrir hæstv. samgrh. um jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi. Fsp. hljóðar svo:
  ,,1. Hvenær er áætlað að nefnd um jarðgangagerð á Austurlandi, skipuð af fyrrv. samgrh., ljúki störfum?
    2. Hyggst ráðherra framfylgja þeirri stefnu sem mörkuð var á síðasta kjörtímabili að framkvæmdir við jarðgöng á Austurlandi hefjist strax að loknum framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum?``
    Ofangreind nefnd var skipuð af fyrrv. samgrh. sem nokkurs konar samráðsnefnd Vegagerðar, ráðuneytis og heimamanna og hefur hún starfað nú um nokkurt skeið. Gert var ráð fyrir að hún lyki störfum á síðasta ári en

af einhverjum ástæðum hefur það dregist. Enn hefur ekki borist álit frá nefndinni og þess vegna brýnt að fá af því fréttir hvernig nefndarstarfið gengur.
    Þá er það ekki síður mikilvægt af ýmsum ástæðum að fram komi vilji hæstv. ráðherra gagnvart því að jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi hefjist strax að loknum jarðgangaframkvæmdum á Vestfjörðum. Slíkt kemur fram í athugasemdum um langtímaáætlun í vegagerð því að þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Verulegur hluti Vestfjarðaganga er einnig á 1. tímabili [þ.e á árunum 1991--1994] og fjárveitingar til nauðsynlegra rannsókna og undirbúnings vegna Austfjarðaganga. Á 2. tímabili er gert ráð fyrir að framkvæmdum og greiðslum vegna Vestfjarðaganga ljúki og framkvæmdir við Austfjarðagöng hefjist og verði þeim síðan fram haldið á 3. tímabili.``
    Það er ekki síður mikilvægt að fá að heyra skoðanir hæstv. ráðherra vegna þess að í hinni hvítu bók segir, með leyfi forseta:
    ,,Endurskoðuð vegáætlun verður lögð fram á Alþingi haustið 1991 í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.`` En einnig segir í hinni hvítu bók örlitlu síðar: ,,Unnið verður áfram að stórverkefnum, þ.e. jarðgöngum``. Þess vegna, hæstv. samgrh., er það ekki síst okkur Austfirðingum mikilvægt að heyra vilja þinn í því máli sem um er spurt.