Jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 12:04:00 (447)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Spurt er hvenær áætlað sé að nefnd um jarðgangagerð á Austurlandi ljúki störfum. Nefnd þessi var skipuð í árslok 1988. Í skipunarbréfi voru engin takmörk sett um starfslok nefndarinnar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá nefndinni miðaði hún í upphafi við að ljúka verkefninu á árinu 1990. Af ýmsum ástæðum, m.a. vegna mikillar undirbúningsvinnu í tengslum við flýtingu jarðgangagerðar á Vestfjörðum, hefur það dregist að nefndin skilaði af sér. Nú áformar nefndin að ljúka störfum í vetur.
    Spurt er: ,,Hyggst ráðherra framfylgja þeirri stefnu sem mörkuð var á síðasta kjörtímabili að framkvæmdir við jarðgöng á Austurlandi hefjist strax að loknum framkvæmdum við jarðgöng á Vestfjörðum?``
    Tillaga um langtímaáætlun í vegagerð var lögð fyrir Alþingi á sl. vetri en ekki samþykkt. Tillagan var samin af starfshópi sem skipaður var af þáv. samgrh. Í hópnum sátu fulltrúar stjórnmálaflokkanna auk fulltrúa samgrn. og Vegagerðar. Í tillögunni voru fjögur jarðgangasvæði tekin með, þ.e. lúkning Ólafsfjarðarmúla, endurbætur Strákaganga, Vestfjarðagöng og Austfjarðagöng. Vestfjarðagöngum var þar raðað á undan Austfjarðagöngum og tóku þau til sín meginhluta fjármagns á 1. og 2. tímabili áætlunarinnar. Austfjarðagöng fengu nokkurt fjármagn til undirbúnings og rannsókna á 1. tímabili 1991--1994, en framkvæmdafé ekki fyrr en á 2. tímabili 1995--1998. Samkvæmt þessu áttu framkvæmdir við Austfjarðagöng að hefjast seinni hluta 2. tímabils, þ.e. á árunum 1997--1998. Nokkur umræða fór fram um tillöguna þó að ekki yrði hún afgreidd. Í þeim umræðum var ekki hróflað við þeirri meginstefnu í jarðgangagerð sem hér var lýst.
    Við afgreiðslu vegáætlunar fyrir árin 1991--1994 var stefnumörkunin hins vegar staðfest. Í samræmi við það voru Vestfjarðagöng boðin út og gerður verksamningur við lægstbjóðanda. Samkvæmt honum á framkvæmdum að ljúka fyrir árslok 1994.
    Þessi framkvæmdatími Vestfjarðaganga lá nokkurn veginn fyrir þegar unnið var að langtímaáætluninni en þá var gert ráð fyrir því að fjár á framkvæmdatímanum yrði að hluta til aflað með lánum. Alþingi hafði áður heimilað lántökur í þessu skyni og skyldu lán greiðast af vegáætlun á næstu árum eftir að framkvæmdum lyki. Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að á næsta ári verði verkið fjármagnað innan vegáætlunar sem verður lögð fram nú á næstu dögum.
    Hér á undan hef ég rakið nokkra þætti um framvindu jarðgangamála. Í ljósi þess verður svar við spurningu fyrirspyrjanda tvíþætt:
    Í fyrsta lagi hefur Alþingi markað þá stefnu að Austfjarðagöng verði næsta jarðgangaverkefni á eftir Vestfjarðagöngum. Verða rannsóknir og annar undirbúningur á næstu árum við það miðuð. Ljóst er þó að vandkvæði eru á því að hraða jarðgangaframkvæmdum frá því sem ráð var fyrir gert. Þetta eru mjög dýr mannvirki en á hinn bóginn er mjög mikil þörf fyrir úrbætur á vegakerfinu og lagningu bundins slitlags. Til lengri tíma litið verður erfitt að draga úr almennri vegagerð til að gefa svigrúm fyrir meiri fjárveitingum til jarðganga. Þetta á við þó að fjárveitingar til vegáætlunar hafi farið hækkandi undanfarið og séu hærri samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrv. 1991 en verið hefur síðan 1974.
    Í öðru lagi gerir tillaga um langtímaáætlun sem í var vitnað ráð fyrir verkbyrjun í Austfjarðagöngum á árunum 1997--1998. Ég tel ekki tímabært nú að gefa yfirlýsingar um neinar breytingar á þeirri tímasetningu þó að fjármögnun Vestfjarðaganga ljúki fyrr en áætlað var. Það hlýtur að vera verkefni Alþingis á þeim tíma að taka ákvarðanir þar að lútandi við endurskoðun langtímaáætlunar og vegáætlunar og er nægur tími til stefnu í þeim efnum.