Jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 12:08:00 (448)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því sem fram kemur í fjárlagafrv. að ríkistjórnin hefur nú þegar breytt í grundvallaratriðum þeirri stefnu sem samþykkt var að framfylgja með vegáætlun sl. vor. Það felst í fjárlagafrv., vegna ákvæða um greiðslu á Vestfjarðagöngum og minni markaðra tekjustofna en ráð var fyrir gert í vegáætlun, verulegur niðurskurður framkvæmda á næsta ári frá því sem samþykkt var í vegáætlun á sl. vori. Mér sýnist í fljótu bragði að sá niðurskurður framkvæmda geti numið um 17% og í krónutölu slagað langt upp í 1 milljarð kr. sem áformað er að verja til vegaframkvæmda á næsta ári miðað við samþykkta vegáætlun sl. vor. Það er því ljóst að ríkisstjórnin hefur þegar markað þá stefnu að draga úr framkvæmdum í vegamálum og víkja frá hinni metnaðarfullu stefnu sem þingið samþykkti sl. vor.