Jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 12:19:00 (452)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Gamli Blöndal er nú að birtast hér í stólnum dag frá degi og verður senn kominn fullskapaður hér í þingsalinn þegar þingið kemur saman aftur eftir fríið og veri hann þá velkominn. En það var í stíl hins gamla Blöndals að ráðherrann notaði tíma sinn hér til að fara með skæting í garð manna sem ekki geta svarað fyrir sig og fullkomlega út í hött að ráðherrann sé að temja sér þannig stíl í svörum hér við fyrirspurnum.
    Ég vil láta það koma hér fram vegna þess að ég hef nokkuð fylgst með þeim málum á undanförnum árum að Austfirðingar munu að sjálfsögðu koma sér saman um það í hvaða röð verður farið í þessar framkvæmdir og það er fullkomlega ástæðulaust fyrir ráðherrann að vera hér með skæting í garð Austfirðinga og gera því skóna að þar ríki svo mikil óeining að þeir geti ekki komið sér saman. Austfirðingar sýndu mikinn þroska fyrir u.þ.b. tveimur árum síðan þegar þeir sjálfir komu fram með þá skoðun að þeir teldu eðlilegt að Vestfirðingar hefðu forgang og sýndu þar með hæfni sína til þess að ráða fram úr stórum málum. Ég er fullviss um það að Austfirðingar munu koma sér saman í þessu máli þegar það verður talið tímabært að tilkynna um slíkt. (Forseti hringir.) Ég skal svo ljúka máli mínu, virðulegi forseti, en vil að lokum vekja athygli á því að það var afar sérkennilegt að hlusta á þakkarávarp ráðherrans til hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar og mátti helst skilja að loksins hefði komið alþýðuflokksmaður sem styddi ráðherrann í vegamálum og jarðgangagerð, margbarinn ráðherrann af ríkisstjórnarfundum mættur hér, þakkandi Gunnlaugi Stefánssyni fyrir það að styðja sig. Ég þakka forseta fyrir umburðarlyndið.