Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 15:41:00 (476)

     Valgerður Sverrisdóttir :
     Hæstv. forseti. Menntun er mikilvægasta aflið í baráttunni gegn félagslegu og efnahagslegu óréttlæti, hleypidómum og hvers konar ofstæki sem og í baráttunni fyrir friði, mannúð og mannréttindum. Menntun er jafnframt grundvöllur framfara á tækniöld. Þessi orð eru eins og þau kannski bera með sér tekin upp úr stefnuskrá stjórnmálaflokks, í þessu tilfelli Framsfl.
    Íslenskt menntakerfi hefur verið í mjög örri þróun á síðustu áratugum og þar hefur að sjálfsögðu ekki verið fundin nein endanleg lausn. Þó er ólíklegt að horfið verði frá þeirri skiptingu innan skólans sem nú er komin til framkvæmda, þ.e. leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli, háskóli.
    Ég vil þakka hv. 18. þm. Reykv. og 5. þm. Vestf. fyrir að hefja þessa umræðu hér um skólamál. Það er með mig eins og fleiri að á síðustu mánuðum hafa verið að aukast áhyggjur í mínum huga yfir framtíð íslensks skólakerfis og hvað núv. hæstv. ríkisstjórn ætlar sér með það.
    Nú hefur hæstv. ríkisstjórn gefið sér tíma til að setja saman stefnuskrá sem við myndun ríkisstjórnarinnar gafst ekki tími til vegna þess hversu mjög lá á að koma ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar frá völdum. Mergurinn málsins er kannski sá að fullyrðingar hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. frá vordögum um að nú fengi þjóðin loksins samheldna ríkisstjórn sem vegna samheldninnar og áþekkrar stefnu í öllum meginmálum þyrfti ekki að

senda frá sér texta um stefnu og starfsáætlanir hafa verið vanhugsaðar og nú sé komið í ljós að hvorki er samstaða innan hæstv. ríkisstjórnar í veigamiklum atriðum né á meðal stjórnarþingmanna. Því hefur verið gripið til þess ráðs að setja saman texta sem nokkurs konar ratljós fyrir þessa hv. þm. og flokksmenn alla.
    Hæstv. forseti. Ég ætla að gera hér að umræðuefni nokkur málefni sem snerta skólann. Ég byrja á leikskólanum og held síðan áfram upp skólastigann. Ný lög um leikskóla voru samþykkt á sl. vori. Það var tekin veigamikil ákvörðun um skipan leikskólamála í stjórnkerfinu þegar leikskólinn fékkst staðsettur innan skólakerfisins. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mikilvægt skref. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. í hvaða átt hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að vinna að breytingum í samráði við samtök sveitarfélaga með þessa nýju löggjöf. Ég óttast um ákvæði 3. gr. sem samkvæmt bráðabirgðaákvæði eiga að koma til framkvæmda á næstu 10 árum, en þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sveitarfélag gerir árlega könnun á því hversu margir foreldrar óska eftir leikskólavistun. Á grundvelli þeirrar könnunar verði gerð áætlun um uppbyggingu leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi til a.m.k. tveggja ára í senn. Sveitarfélögum er samkvæmt lögum þessum skylt að hafa forustu um að tryggja börnum þann lögvarða lágmarksrétt til þjónustu sem lög þessi gera ráð fyrir. Til þess að setja á stofn leikskóla þarf starfsleyfi frá menntmálaráðuneytinu. Heimilt er að veita leikskóla starfsleyfi þótt börnin dvelji þar ekki daglega eða einungis hluta úr ári.``
    Ég óttast sem sagt, hæstv forseti, að þessi ákvæði séu í hættu. En einmitt þetta er grundvallaratriði í allri umræðu um jafnréttismál í landinu þar sem tæplega helmingur mannafla á vinnumarkaði er konur. Þarna verður að vinna samkvæmt nýsamþykktum lögum.
    Víkjum þá að grunnskólanum. Ný löggjöf um grunnskóla var einnig samþykkt á sl. vori. Þar var stigið stórt skref í framfaraátt. Þar náðust m.a. fram ýmis meginatriði og markmið Framsfl., svo sem samfelldur skóladagur og skólamáltíðir. Þessa löggjöf á einnig að endurskoða samkvæmt texta í hvítri bók. Ég óttast að sú endurskoðun verði ekki til bóta þrátt fyrir það að núverandi hv. stjórnarþingmenn hafi allflestir staðið að samþykkt laganna fyrr á þessu ári. Það er þó ýmislegt sagt í hinni hvítu bók um grunnskólann sem ástæða er til þess að taka undir eins og t.d. um ráðgjöf með tilliti til námsframvindu, persónulegra málefna nemenda, fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ávana- og fíkniefnaneyslu og fleira.
    Eitt vil ég benda hæstv. ráðherra á í tengslum við lengingu grunnskólans og það er lítill hópur sem lætur ekki mikið yfir sér en þarf athygli. Það eru þau grunnskólabörn sem eru í heimavist og þá alveg sérstaklega yngstu börnin. Á síðasta þingi lagði ég fram fyrirspurn um heimavistarskólana, en þar kom m.a. fram að í 15--20 grunnskólum voru þá börn í 1. bekk á heimavist. Að sjálfsögðu mislengi og mismargar nætur í viku. Víðast hvar er reynt að þjappa náminu saman á fáa daga þannig að svona ung börn þurfi ekki að sofa margar nætur að heiman. En með lengingu skóladagsins og lengingu skólaársins er hætt við, og ég er hrædd um að það gerist, að ekki verði tekið tillit til þessa litla hóps sem oft býr við lélegar aðstæður á heimavistum.
    Ríkisstjórnin hyggst skilgreina stöðu einkaskólanna nánar. Nú er Tjarnarskóli kominn í frv. til fjárlaga. Hvert verður framhaldið? Við framsóknarmenn erum á móti því að einkavæða grunnskólann og óttumst stórslys í þeim efnum þar sem Sjálfstfl. fer nú með málefni hans. Reyndar er það sem Sjáflstfl. boðar engin einkavæðing þar sem sveitarfélög leggja til húsnæði og ríkið laun kennara. Þetta er því frekar til að þjóna óskum tiltölulega lítils hóps sem telur sig hafinn yfir almenning. Einkaskólar eru mjög óæskilegir í okkar litla þjóðfélagi. Aukið sjálfstæði skólanna er rétta leiðin en þó innan ákveðins ramma vegna lítilla og vanmáttugra sveitarfélaga. Þá er mjög æskilegt að efla fræðsluskrifstofur og kennslumiðstöðvar þeim tengdar þannig að kennarar á landsbyggðinni þurfi sem minnst að leita til Reykjavíkur. Ég geri þó að sjálfsögðu ráð fyrir að Námsgagnastofnun verði áfram til staðar.
    Í framhaldi af málefnum grunnskólans langar mig til að koma inn á kennaramenntunina í landinu. Ný lög um Kennaraháskóla Íslands, sem samþykkt voru árið 1988, voru tvímælalaust til mikilla bóta fyrir allt skólastarf. Í þeirri löggjöf var stefnt að því að efla stórlega starfsemi endurmenntunar og símenntunar fyrir kennara. Þá var einnig tekin sú ákvörðun að lengja kennaranámið úr þriggja ára námi í fjögurra ára nám þó svo að ekki væri ákveðið hvenær það skyldi gert. Sú ákvörðun var tekin í tíð síðustu ríkisstjórnar að sú breyting skyldi koma til framkvæmda á þessu hausti. Vinnubrögð hæstv. menntmrh. við afturköllun þeirrar heimildar á síðustu stundu eru ámælisverð.
    Stærsta vandamálið í dag er hins vegar hversu erfiðlega gengur að fá réttindakennara til starfa á landsbyggðinni. Það er orðið alllangt síðan farið var að tala um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun hér á landi samkvæmt norskri hugmynd. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað líði aðgerðum í þá átt.
    Þá höfum við framsóknarmenn sett fram hugmyndir um sérstakan sjóð sem settur yrði á stofn og til hans rynnu þeir fjármunir sem ríkissjóður sparar með því að ráða réttindalaust fólk í stað réttindakennara. Þessir fjármunir yrðu síðan nýttir til að styrkja fólk til kennaranáms gegn því að það starfi að námi loknu við dreifbýlisskóla. Ég tel þó að stærsta skrefið sem hægt væri að taka nú í þessum efnum væri að koma við kennaramenntun á landsbyggðinni, t.d. við Háskólann á Akureyri eins og hér hefur áður verið nefnt í dag. Reynslan frá Samvinnuháskólanum og frá Háskólanum á Akureyri segir okkur að stundi fólk nám á landsbyggðinni eru meiri líkur til þess að það að námi loknu búi þar áfram og setjist þar að.
    Í 16. gr. framhaldsskólalaganna stendur með leyfi forseta: ,,Allir, sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun, eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla að fullnægðum kröfum um starfsþjálfun

þar sem hennar er krafist. Nemendum er skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt ákvæðum í námsskrá hafi þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri.``
    Þetta er ótvírætt ákvæði þess efnis að allir skulu eiga rétt á námi í framhaldsskóla. Að sjálfsögðu þarf að virkja alla einstaklinga en það þarf að gera með ólíkum úrræðum. Gamli menntaskólinn hentar ekki öllum. Hann var fyrst og fremst undirbúningur undir háskólamenntun.
    Fyrrv. hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson beitti sér fyrir aukinni menntun fiskvinnslufólks. Við þurfum að auka menntun á sviði ferðamennsku og fleira mætti telja. T.d. eru umtalsverðir möguleikar á sviði matvælaframleiðslu, ekki síst í mínu umdæmi, Norðurl. e., sem menntakerfið á að laga sig enn frekar að. Sem sagt, það þarf ólík úrræði. Annað yrði ekki til annars en að brjóta niður einstaklingana.
    Síðan langar mig aðeins að nefna ákvæði um jafnrétti til náms í hvaða skóla sem er. Þróunin hefur verið sú að framhaldsskólarnir komi heim í byggðarlögin og það er að sjálfsögðu rétt og gott. Sveitarfélögin og ríki bindast samtökum um stofnun nýs framhaldsskóla. Hlutur ríkisins við stofnbúnað er 60% en sveitarfélaganna 40%. Það er þannig ætlast til þess að nemendur stundi framhaldsnám í sinni heimabyggð sem er gott og gilt. En ég vil þó ekki að það sé njörvað svo rækilega niður að það komi niður á nemandanum fjárhagslega, í gegnum dreifbýlisstyrkinn svokallaða, kjósi hann að stunda nám í öðrum skóla. Þarna verður að vera ákveðinn sveigjanleiki.
    Hæstv. forseti. Nú hafa gerst þau tíðindi í íslenskum skólamálum að ríkisstjórn Íslands hefur sett fram stefnu í fjárlagafrv. um skólagjöld á framhaldsskólastigi og háskólastigi en er nú reyndar eitthvað farinn að draga í land ef marka má orð hæstv. ráðherra hér áðan. Hin gamla speki, sem fram að þessu hefur verið tiltölulega góð samstaða um í þessu litla þjóðfélagi, að allir skuli eiga jafnan rétt til náms án tillits til efnahags, er nú í hættu. Í umræðunni um fjárlög gerði ég að umtalsefni þann gífurlega kostnað sem því fylgir víða hjá fólki í hinum dreifðu byggðum að senda börnin sín til framhaldsskólanáms í framhaldsskólabæjunum. Oftast er brugðið á það ráð að leigja eða kaupa íbúð, stofna til útibús frá heimilinu, a.m.k. þegar um fleiri en eitt barn er að ræða. Þetta eru atriði sem ég er sannfærð um að fólk hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu leiðir ekki oft hugann að. Það er svo vant því að hafa allt við höndina. Við framsóknarmenn mótmælum öllum frekari álögum á framhaldsskólanemendur og fjölskyldur þeirra og teljum slíka skattheimtu ósanngjarna og merki um uppgjöf við skattheimtu í landinu samkvæmt hefðbundnum aðferðum þar sem tekið er tillit til félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna.
    Eitt af því sem ríkisstjórnin hefur sett fram er að kannað verði hvort mögulegt sé að stytta þann tíma sem þarf til að ljúka námi til stúdentsprófs. Þetta eru í sjálfu sér ekki nýjar hugmyndir og ég er ekki andvíg því að þær verði skoðaðar. Ég vil tengja þetta því sem ég sagði fyrr um aukið sjálfstæði skólans. Gæti ekki verið skynsamlegt, hæstv. ráðherra, að gera tilraun í þessum efnum? Einn eða tveir skólar yrðu sérstaklega skipulagðir í þessu skyni, þangað sæktu þeir nemendur sem virkilega vilja leggja á sig mikla vinnu og lengra skólaár. E.t.v. væri þó rétt að byrja á því að kanna áhugann á meðal framhaldsskólanemenda.
    Ég get ekki skilið við framhaldsskólann án þess að minnast á framhaldsskólana í mínu kjördæmi, sem er Norðurl. e., en þar eru gífurleg húsnæðisvandamál, bæði á Akureyri og á Húsavík. Framlög úr ríkissjóði til Verkmenntaskólans á Akureyri á þessu ári urðu að umtalsefni í þinginu þar sem að þau voru óeðlilega lág og ekki í samræmi við þarfir og ekki í samræmi við aðra skóla. Nú er skólinn sprunginn utan af starfseminni og kennsla er þar fram að kvöldmat. Menntaskólinn er einnig í mjög miklum húsnæðiserfiðleikum og þar eru áformaðar miklar framkvæmdir við uppbyggingu. Um þessi mál fjallar héraðsnefnd Eyjafjarðar þessar vikurnar og þessa mánuðina. Vel má vera að niðurstaðan verði sú, þó ég sé ekki að boða það alveg á næstu árum, að nýr framhaldsskóli komi á Eyjafjarðarsvæðinu og þá á Út-Eyjafjarðarsvæðinu svokallaða, t.d. á Dalvík. Þörfin er geysilega mikil.
    Framhaldsskólinn á Húsavík hefur verið að festast í sessi á síðustu árum, en þar hefur einnig skort fjármagn til framkvæmda. Núv. ríkisstjórn treystir sér ekki til að fylgja eftir þeim vilja fyrrv. ríkisstjórnar að veita fjármagni til skólans á fjáraukalögum, og gildir það sama um Verkmenntaskólann á Akureyri, sem hins vegar reyndist verða niðurstaðan að gera í sambandi við suma aðra skóla.
    Framhaldsskólinn á Laugum í Reykjadal er einn af fáum gömlum héraðsskólum í landinu þar sem virkilega hefur fundist hlutverk fyrir skólann og þar fer fram blómleg starfsemi.
    Háskólinn og háskólamenntun hefur verið nokkuð í umræðunni á síðustu vikum, ekki síst vegna Lánasjóðsins sem verður ræddur hér síðar og ég ætla ekki að gera að frekara umtalsefni í dag.
    Einnig hafa verið settar fram hugmyndir um inntökupróf í háskóla. Fyrr í haust töluðu framámenn skólans um nauðsyn þess að koma á námsskeiðum fyrir nýnema til að kenna þeim íslensku. Þetta vekur hjá manni ýmsar hugsanir og alveg sérstaklega þá að lögð sé of mikil áhersla á háskólanám í þessu landi, án tillits til getu einstaklingsins og þarfa þjóðfélagsins. Verkmennt almennt hefur ekki hlotið þann sess sem henni ber.
    Við framsóknarmenn höfum nýlega lagt fram á hv. Alþingi tillögur um endurmat á iðn- og verkmenntun.
    Ég fagna því sem kemur fram í stefnu ríkisstjórnarinnar að Háskólann á Akureyri verði efldur. Á það höfum við framsóknarmenn lagt mikla áherslu frá upphafi. Háskólinn hefur nú sýnt það með sinni starfsemi að sú gagnrýni sem var uppi um stofnsetningu skólans í upphafi átti ekki við rök að styðjast.
    Hæstv. forseti. Ég vil að síðustu segja það að skólakerfið hér á Íslandi er að flestu leyti gott. Ólæsi er ekki vandamál hér. Ég vara hæstv. menntmrh. við byltingum í íslensku menntakerfi, ég tel reyndar að hann sé enginn byltingarmaður en það er félagsskapurinn sem hann er í í hinum nýja Sjálfstfl. sem ég óttast.