Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 16:01:00 (478)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
     Virðulegi forseti. Ég ætla að leggja nokkur orð inn í þá umræðu sem hér fer fram um skólamál. Þau eru vissulega þýðingarmikill málaflokkur og óumdeilt hve skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í lífi okkar frá fyrsta skóladegi. Gildir þá einu hvort um er að ræða eflingu tungu okkar og almenns þroska eða grundvallarundirstöðu menntunar og menningar. Víst er líka að í breyttri þjóðfélagsgerð hefur skólinn og þá sérstaklega grunnskólinn tekið á sig ýmsar þær skyldur sem lágu hjá fjölskyldunni á fyrri tíma. Með þessa þætti í huga er það ljóst að almenn umræða um skólamál á í raun sífellt erindi við okkur öll. Hins vegar geta verið skiptar skoðanir um hvort þessi umræða um skólamál sé tímabær að því leyti sem hún fer hér fram í dag. Sumt af því sem til umfjöllunar er fellur að mínu mati í raun undir fjárlagaumræðu þar sem um er að ræða gagnrýni á niðurskurð eða lokun stofnana. Annað á í flestum tilfellum eftir að útfæra og kemur, ef svo ber undir, inn í þingið á sínum tíma.
    En þar sem ég tek þátt í umræðu utan dagskrár finnst mér alveg við hæfi að nefna til umhugsunar að aðeins tíu þingmál eru komin til nefnda og að ótrúlega mikill tími hefur farið í óhefðbundna umræðu á þeim 24 dögum sem liðnir eru af þinginu. Miðað við þann áhuga sem oft hefur komið fram að við færum okkar þinghald í átt að því sem viðgengst í nágrannalöndunum, og er ég þar að vísa í þyngra vægi nefndarstarfa þingmanna, finnst mér við ótrúlega föst í átaka- og orðræðuformi þingfunda frá fornu fari. Í þessum orðum mínum felst ekki gagnrýni á málshefjanda sem að vanda þeirra kvennalistakvenna var með málefnalega framsögu hér.
    Í svokallaðri hvítbók ríkisstjórnar koma fram áform í skólamálum til lengri tíma litið. Þar er boðað að leitað verði nánara samráðs við þann aðila sem ber ábyrgð á rekstri, bæði leikskóla og grunnskóla, en það eru sveitarfélögin. Þar kemur líka fram að leitað verði leiða til að framhaldsskólinn geti þjónað fjölbreytilegri þörfum nemenda og búið þá undir sérhæfðar námsbrautir og starfsnám, að tekið verði mið af þörfum viðkomandi atvinnugreina viðvíkjandi starfsnámi. Það er áhugi á að kanna hvernig breyta megi skipulagi náms, m.a. þannig að unnt sé að ljúka stúdentsprófi við 18 ára aldur eins og viðgengst víða í nágrannalöndum okkar og framsögumaður vék að. Einnig að ná fyrstu námsgráðu í háskóla ári fyrr. Stuðla að eðlilegri sérhæfingu og samræmingu í æðstu menntastofnunum og að eflingu þeirra.
    Í hvítbókinni er fjallað um þær leiðir sem ríkisstjórnin vill kanna sem og áherslur. Sú vinna sem liggur til grundvallar útfærslu á auðvitað að mestu leyti eftir að fara fram og það er eðlilegt að hún eigi eftir að fara fram því að hún tengist óhjákvæmilega frumvarpsgerð þar sem um slíkt verður að ræða. Þannig minnist ég þess að þrátt fyrir nokkurn aðdraganda að frv. til laga um grunnskóla á síðasta vetri voru þó fluttar fjöldi brtt., m.a. af fulltrúum stjórnarflokka, sem þýðir einfaldlega að menn voru að ljúka samræmingu áhersluatriða sinna. Á þeim tíma var það gagnrýnt að sveitarfélögin voru ekki höfð nægilega með í ráðum. Þess vegna er það sérstaklega ánægjulegt hver áhersla er lögð á slíkt samráð í stefnuyfirlýsingu þessarar ríkisstjórnar.
    Þess er líka vert að geta að það kom rækilega fram í fyrrgreindri umræðu að þeir flokkar sem eiga fulltrúa á þingi eru sammála um þau meginatriði varðandi grunnskólann að hann skuli einsetinn, samfelldur og boðið upp á léttar máltíðir í skólum. Þá kom það fram í sömu umræðu frá fulltrúum allra flokka að nauðsyn væri á athvarfi í skólanum utan kennslutíma.
    Á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem haldinn var sl. laugardag, kom sú hugmynd fram og fékk góðar undirtektir hvort ekki væri tímabært að rekstur grunnskólans færi að öllu leyti yfir til sveitarfélaganna. Sú umræða spratt í framhaldi af gagnrýni á hve ríkisvaldið reynir að ýta verkefnum sem það á að greiða yfir á kostnað sveitarfélaganna. Í þessu tilfelli var um sálfræðiþjónustu í skólum að ræða.
    Við munum að sjálfsögðu skoða þessa þætti mjög vel þó umræðan um þá sé ekki fullþroskuð nú.
    Spurningar frummælanda vegna hugmynda um styttingu tíma til stúdentsprófs og hvernig slík aðgerð mundi tengjast atvinnulífi og kjörum kennara eiga fullan rétt á sér. En þetta eru m.a. þeir þættir sem þarf að kanna. Mín skoðun er sú að e.t.v. verði breyting í þá átt sem viðgengist hefur í nágrannalöndum okkar lyftistöng í kjaramálum kennara. Alla vega á ekki að hafna þessum hugmyndum án rækilegrar skoðunar.
    Það hefur líka orðið mikil breyting á atvinnumálum á liðnum árum meðan áður fyrr þurfti að gera út á námsfólkið, ef svo má að orði komast, jafnvel gefið frí í gagnfræðaskólanum þegar óvænt kom mikill afli á land í sjávarútvegsplássum. Þá hefur þróunin orðið á þann veg hin síðari ár að minna og minna er byggt á sumarvinnufólki, t.d. í frumvinnslugreinum okkar. Jafnvel hafa komið sumur þar sem ríkisvaldið þurfti að grípa til sérstakra aðgerða í samvinnu við sveitarfélög til að afstýra því atvinnuleysi skólafólks sem yfirvofandi var. Ég tek líka undir varúðarorð hv. frummælanda varðandi þá þróun sem orðið hefur eftir að aflétt var lágmarkskröfum um námsárangur nemenda og ég tel fyllilega tímabært að skoða þau mál aftur.
    Þó margt hafi breyst á framhaldsskólastiginu með tilkomu fjölbrautaskólanna og fjölbreytni námsbrauta hafi í framhaldi aukist ár frá ári hefur þó ríkt visst tregðulögmál í þeirri heildarsýn á samspili atvinnulífs og menntakerfis sem hér þyrfti að vera. Ég minnist þeirrar bjartsýni sem ríkti á sínum tíma í Kópavogi þegar unnin var námsskrá fyrir MK í framhaldi af breytingu skólans í fjölbrautaskóla. En þar með tók bærinn líka á sig ákveðinn kostnað vegna skólans. Á þeim tíma var ákveðið að áherslur þess skóla yrðu matvælaiðja og ferðaþjónusta, þ.e. þeir þættir sem tengdust framtíðarsýn í atvinnulífi okkar Íslendinga. Sú námsskrá sem unnin var laut bæði að styttri matvælaiðjubrautum sem tengst gætu vinnumarkaði beint og lengri brautum sem leiddu til háskólanáms. Í framhaldi af því var ákveðið að matvælaiðjuskólinn yrði tengdur Hótel- og veitingaskólanum sem þó var að nokkru sérmál en tengdist húsakostinum, samnýtingu dýrra innréttinga og áhalda auk sérhæfðra kennara.
    Ég nefni þessi góðu og á sínum tíma merkilegu áform hér vegna þess að þó liðinn sé nær heill áratugur er MK enn að basla við að koma ferðamálaskólanum til fulls inn í sitt skólahald. En matvælaiðjuskólinn, húsið sjálft, er opinn grunnur, en grunnur samt, tekinn í framhaldi af samkomulagi sem loks var gert af hálfu menntmrn. laust fyrir kosningar.
    Virðulegi forseti. Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að framhaldsskólinn geti þjónað æ fjölbreytilegri þörfum nemenda og búið þá undir sérhæfðar námsbrautir og starfsnám.
    Varðandi menntunarmál almennt vil ég því líka nefna mikilvægi frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu sem verður til umfjöllunar hér í haust sem mun þegar að lögum verður hafa geysilega þýðingu fyrir atvinnulífið, bæta verkkunnáttu og auka hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og greiða fyrir tækninýjungum.