Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 16:29:00 (481)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. fyrrv. menntmrh. þarf auðvitað ekkert að rifja upp fyrir mér þau innri vandamál sem hefur verið við að glíma í Reykjanesi. Hins vegar var ég að árétta það sem allir hafa alltaf vitað og hefur auðvitað margoft komið fram í skólamálaumræðu á Vestfjörðum að það hefur ekki með nægjanlegum hætti verið tekið á og viðurkennd sú sérstaða skólans að taka á móti nemendum, eins og hann hefur gert, sem oft á tíðum hafa ekki átt í önnur hús að venda. Ég hygg að fyrrv. menntmrh. hljóti að hafa haft skilning á því, og það hefur verið samdóma álit bæði þeirra sem hafa starfað í Reykjanesi og annarra sem þekkt hafa til, að það hafi alls ekki með eðlilegum og nægjanlegum hætti verið tekið á og viðurkennd sérstaða skólans að þessu leyti.