Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 16:52:00 (488)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Hæstv. menntmrh. boðaði það í ræðu sinni að þessi ríkisstjórn ætlaði ekki að skrifa reikning á framtíðina. Það er nú svo að eitt sinn þorðu sjálfstæðismenn að hylla skáld sem sagði ,,hverfult að börn þín skuldir sínar greiði``, en það er nú eitthvað annað uppi á teningnum nú. Hæstv. menntmrh. fæst við þann fortíðarvanda sem byggist á barneignum í þessu landi og áður en hann þáði embættið hafði hann ekki gert sér grein fyrir því að þetta er líka framtíðarvandi í hugum flestra því að varla eru hugmyndir stjórnarherranna á þann veg að börn hætti að fæðast börn. Trúlega verða áfram skrifaðir reikningar á framtíðina, eða í það minnsta vona ég það, í þessum efnum.
    Mér finnst aftur á móti dálítið einkennilegt þegar menn tala um stöðugt vaxandi vandamál í þessum efnum. Það blasir nefnilega við ef farið er yfir fjölda í árgangi á Íslandi að árið 1975 fæddust 4.384 börn í þessu landi, árið 1985 fæddust 3.856 börn og árið 1990 fæddust 4.768 börn. Barnafjöldinn er þess vegna minnkandi hlutfall af heildarfjölda Íslendinga sem á þessu tímabili fjölgaði um rúmlega 66.000 manns. Engu að síður er dæmið sett þannig upp að þetta sé að verða eitthvað óyfirstíganlegt vandamál, vandamál sem forfeður okkar af litlum efnum hikuðu ekki við að setja fremst í röð þess sem bæri að framkvæma í landinu þegar Íslendingar fengu stjórn eigin mála 1904. Mér finnst þess vegna að hér skjóti mjög skökku við í öllum málflutningi um þessa hluti. Ég tel það gjörsamlega óásættanlega niðurstöðu, sem fram kom í þingsölum í fyrra, að um 150--235 nemendur á skólaskyldualdri hafa horfið úr skýrslum án þess að vitað sé hvert þeir fóru. Þetta er gjörsamlega óásættanleg niðurstaða. Hvað yrði gert við sauðamann sem tapaði slíkum fjölda? Hvað var gert við smalana sem ekki komu heim með kvíaærnar? Hvað ætti að gera við menntmrh. sem hefur slíkt ,,kontról`` á þeim málefnum sem honum er falið að sinna?
    Reykjanesskóli við Djúp var einn af þeim skólum sem reyndi að leysa úr þessum málum. Hér hafa verið fluttar það stórar ræður um hann að ég tel ástæðulaust að bæta neinu öðru þar við en þeirri staðreynd að það var fyrirsjáanlegt að hann hafði næg verkefni í vetur miðað við umsvif hans á undanförnum árum.
    Hér hafa menn haldið því hér fram að skólagjöld hafi alltaf verið innheimt á Íslandi. 250 millj. er sagt að greitt hafi verið og samt talið að ekki sé allt tínt til og mikið vanti á að upplýsingar séu fullnægjandi. Hér er verið að rugla saman tveimur þáttum. Skólar hafa gjarnan innheimt efnisgjald fyrir pappír, fyrir kostnaði við handavinnu og eitthvað smálegt. Þetta hefur ekki verið talið af þeirri stærðargráðu að það bæri að senda menntmrn. miklar skýrslur yfir það af ótta við kostnaðaraukann sem af því hlytist að hafa menn á störfum við að lesa slíkt í ráðuneytinu. Ég held að ef menn eru að tala um skólagjöld eins og þau hafa tíðkast í nágrannalöndunum þá viti allir hvað verið er að tala um. Það er verið að setja vissa bremsu á það að nemendur fari í skóla. Það er verið sortera menn eftir efnum en ekki eftir hæfni til náms. Breski verkamannaflokkurinn barðist mjög hart fyrir því eftir heimsstyrjöldina síðari að sú stefna yrði tekin upp að að stofnaðir væru skólar þar sem færi fram mikið leiðbeiningarstarf til að vísa mönnum veginn innan menntakerfisins. Þessir skólar hafa verið nefndir fjölbrautaskólar. Ástæðan var sú að það var búið að sanna það með félagslegum athugunum að það var mikill munur á hver yrðu örlög tveggja jafngreindra einstaklinga í bresku samfélagi eftir því hvaða foreldra þeir áttu. Ef foreldrarnir voru komnir af fólki með meiri greind og meiri efni sáu þeir um að koma þeim áfram á sama tíma og hinir hirtu hvorki um að velja fyrir þá skóla né hvöttu þá til áframhaldandi náms. Þess vegna komst breski verkamannaflokkurinn að því að það bæri að framkvæma þetta leiðbeiningarstarf innan skólanna sjálfra. Dýrasta lausnin í menntakerfi nokkurrar þjóðar er að taka svo vitlausa ákvörðun að það eigi að fara eftir efnum og ástæðum hverjir halda áfram skólanámi.
    Ég er þeirrar skoðunar að fram til þessa höfum við Íslendingar verið að betrumbæta skólakerfi okkar. Við höfum kannski ekki verið með allt í fyrsta flokki, en við höfum engu að síður stöðugt verið að sækja fram. Ég óttast því miður að nú séu þær hugmyndir uppi sem leiði til verulegrar stöðnunar í þessum efnum. Samt ber að horfa á vissa ljósa bletti í þeirri stefnumörkun sem nú á sér stað. Hjá hæstv. menntmrh. eru hugmyndir um að stytta námstíma þeirra sem taka stúdentspróf. Ég vil taka undir þetta sjónarmið. Hins vegar er ég mjög andvígur því að við líðum það að tapa nemendum úr grunnskóla í jafnríkum mæli og verið hefur. Alveg eins tel ég það út í hött að Íslendingar uni því að útskrifa stúdenta mun seinna en aðrar þjóðir. Ég tel líka að það sé verulegur hvati ef bæði er gefinn kostur á að ljúka stúdenstnámi á þremur árum og fjórum. Ég hygg að þetta gæti tengst því hvaða örlög menn ætla heimavistarskólum en það er staðreynd að heimavistarskólar fara betur með tíma nemenda en aðrir skólar vegna þeirrar nálægðar sem nemendur eru við þau verkefni sem þeir eru að vinna.

    Ég ætla að víkja í fáum orðum að því málefni sem mjög hefur verið haldið á lofti að undanförnu að Ísland bíði nánast gjaldþrot ef við stígum ekki með báðum fótum á bremsurnar gagnvart stuðningi við þá námsmenn sem stunda lengra nám. Það var vikið að því að það er kvíði meðal íslenskra framhaldsskólanema og verulegur ótti er við þá stefnumörkun að það eigi að herða mjög að námslánum. Mér er ljóst að það er ætlunin að taka heildstætt á þessu umræðuefni seinna en ég vil vekja athygli á því að það gætir verulegs ósamræmis í fjárlögum íslenska ríkisins sem annars vegar launar lögreglumönnum meðan þeir eru í Lögregluskóla og greiðir þeim dagpeninga ef þeir eru utan af landi og hins hvernig staðið er að því að mennta aðra þegna sem ætla sér einnig störf hjá ríkinu. Það hlýtur að vera einhver vitræn hugsun að baki þeirrar stefnu sem menn eru að boða. Eða eru menn svo hræddir um að upplausn verði í landinu að nú þurfi enn að styrkja þann arminn, sem á að halda uppi lögum og lofum, ef friður á að vera um þá stefnu sem stjórnvöld boða?
    Ég vil undirstrika alveg sérstaklega að ég held að þessi þjóð eigi farsæld sína undir því í framtíðinni hvernig henni tekst til að ala upp og mennta sitt æskufólk. Við sem hér erum í salnum eigum okkar eftirlaun og okkar aðbúnað á efri árum undir þessum atriðum. Það fer ekkert á milli mála. Og sú reglugerðarspeki, sem sumir hafa tekið upp, að skilyrðislaust eigi að kosta þess sama til grunnskólanema án tillits til nokkurra aðstæðna, það eigi að vera sama sem komi út í kröfum, í greiðslum, í námslánum, gerðar verði sömu kröfur eftir einhverjum reglustikufræðum, sú kenning gengur illa upp. ,,Örðugasta arfa sínum önn fyrir bera flestar mæður`` var sagt af Stefáni G. Skáldinu sem upplifði það sem ungur sveinn að þurfa að segja móður sinni að hann hafði farið að gráta af því að hann komst ekki suður í skóla. Og hún lýsti því seinna yfir að þá hefði sér sviðið fátæktin mest. Ég held að Sjálfstfl. sé kominn í slíka villu í hugsun sinni í íslenskum skólamálum að hann þurfi alvarlega að fara að rétta kompásinn af og skoða hvað var á bak við hugsunina í slagorðunum um mannúð og mildi sem átti að nota til að afla fylgisins.
    Mér finnst einhvern veginn sem menn hafi ekki frétt að járnfrúin í Bretlandi er ekki lengur við völd. Hún var ekki felld af breska verkamannaflokknum, hún var ekki felld í kosningum, hún var felld af íhaldsmönnum sjálfum á þingi íhaldsmanna í Bretlandi vegna þess að breskir íhaldsmenn vildu ekki það þjóðfélag íhaldsstefnu sem hún boðaði. Það var m.a. hennar kalda ákvörðun um að skipta Bretum upp í ríka menn og fátæka sem olli því að flótti brast í liðið. Þess vegna skora ég á hæstv. menntmrh. að gefa sér tíma til að hugleiða stöðuna í skólamálum og flýta sér hægt sem boðberi frjálshyggjunnar í menntamálum á Íslandi. Ég trúi ekki öðru en að hann búi yfir meiri lífsreynslu en svo að hann viti ekki eitt og annað um íslenskt samfélag sem væri honum hollara veganesti en þær hrásoðnu kenningar um að nú eigi að fara að sortera menn eftir nýjum leiðum inn í skólakerfið og inn á menntabrautir í þessu landi.
    Ég veit að vísu að menn horfa til ýmissa átta þegar þeir velja sér fyrirmynd í stjórnun. Ég minnist þess þegar ég las biblíusögurnar sem ungur maður að þar er sagt frá þeim afarkostum sem skaparinn tilkynnti Lot að hann mundi eyða Sódómu fyndust þar ekki fimm réttlátir. Þó að nú hafi farið þannig fyrir Reykjanesi að hæstv. ráðherra hafi ákveðið að tilkynna að fyndust þar ekki 30 nemendur reiðubúnir að mæta til náms yrði skólanum eytt met ég það svo að nokkrar efasemdir sitji eftir. Ég vænti þess að þeir stjórnunarhættir verði aflagðir að við fréttum það í slíkum fyrirskipunartón hvaða ákvarðanir verði teknar í menntamálum á Íslandi. Ég trúi ekki öðru en að þær hefðbundnu leikreglur hins íslenska samfélags verði virtar að á Alþingi Íslendinga verði teknar ákvarðanir um hvað gert verði í skólastarfi næsta vetur. Það komi ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti á miðju sumri hvað menn ætli að aðhafast.
    Ég vil þakka þeim sem hófu hér mál utan dagskrár um skólamál. Ég hef áður gert athugasemd við og ég vona að það gerist ekki aftur að menn ætli tveimur frummælendum að tala samtímis.
    Ég vil aftur á móti undirstrika að það liggur fyrir að hér eiga að fara fram umræður um stefnuna varðandi menntunarmöguleika íslenskrar æsku í tengslum við námslánin. Ég tel óumflýjanlegt að þær umræður fari fram sem allra fyrst. Fyrst að hæstv. menntmrh. er í landinu og ekki hafa borist fréttir um brottför næstu daga þætti mér vænt um ef það yrði sem allra fyrst tímasett hvenær sú umræða fer fram. Ég er sannfærður um það að kvíði þeirra mörgu sem tóku sínar ákvarðanir út frá gjörbreyttum forsendum í möguleikum sínum til að fjármagna sitt nám geri þeim erfitt fyrir að einbeita sér að námi og því veldur sú óvissa að e.t.v. sé best að hætta strax en halda ekki áfram og geta ekki leyst þessi mál síðar.
    Herra forseti. Mér þykir það miður hvað hæstv. ráðherra hefur sóað tíma sínum og á þess ekki kost að svara með eðlilegum hætti. Af þeirri ástæðu ætla ég ekki að fara hér út í hvassari umræðu en ég hef gert og vænti þess aftur á móti að hv. 3. þm. Vestf. falli ekki frá þeirri hugmynd að biðja um skýrslu.