Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 18:00:00 (496)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Þetta eru of margar spurningar til að ég geti svarað þeim á tveimur mínútum. Til þess hins vegar að taka það sem hv. þm. nefndi síðast og til að fyrirbyggja allan misskilning er mér mætavel kunnugt um það að forusta kennarasamtakanna hefur auðvitað sinnt öðru en kjaramálum, en ég sagði að mér þætti vont að hún væri svo mjög upptekin við þau eins og hún er og var svo sem ekkert hissa, ég tók það fram.
    Ég var spurður hver í menntmrn. hefði neitað beiðni hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um bréfaskipti ráðuneytisins vegna Kennaraháskólans og Menntaskólans við Hamrahlíð. Það var komið með þau erindi til mín og ég heimilaði ekki að þetta bréfasafn yrði látið út. Það er einfaldlega þannig að menntmrn. lætur ekki sitt bréfasafn út til einstaklinga, jafnvel ekki þó að þeir séu þingmenn, um einstaka liði, hvað þá safnið allt. Ég vona að menn skilji það. Það er svo sérstakt athugunarefni ef beiðni kemur frá þingnefnd, og slíkar beiðnir hafa komið til einstakra ráðuneyta, veit ég, um upplýsingar, og það verður skoðað í hverju einstöku tilviki.
    Hvort þessi hámarksupphæð sem er verið að tala um að setja á skólagjöldin gildi fyrir þessa svonefndu einkaskóla, það getur varla orðið. Ég nefni þar Verslunarskólann sem þegar innheimtir yfir 30 þús. kr. en ég held að það sé alveg ljóst að hann yrði að bæta við sína gjaldtöku vegna þess að það framlag sem Verslunarskólinn fær frá ríkinu miðast við meðalkostnað tveggja menntaskóla, ef ég man rétt, Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans við Sund.
    Hvaða skólar hafi notað skólagjöldin til reksturs og þar með brotið lög, ég ætla ekki að fullyrða að þeir hafi brotið nein lög. Ég veit ekki til hvers þeir hafa notað þetta fé vegna þess að þeir hafa ekki gert ráðuneytinu grein fyrir því. Það hefur áður komið fram í mínu máli. Þetta er liður því sem verður sérstaklega skoðað fyrir afgreiðslu fjárlaga, hvað er raunverulega heimilt samkvæmt gildandi lögum að innheimta upp í rekstrarkostnað skóla. Það hafa verið settar fram efasemdir um að þetta sé heimilt og það verður kannað.
    Ég hef ekki ákveðið það endanlega hvernig þessi nefnd verður skipuð og er algjör óþarfi að líkja því við það sem ég ákvað varðandi endurskoðun lánasjóðslaganna. Þar lofaði ég, og mun standa við það, að eftir að hugmyndir þeirrar nefndar hafa komið fram verði haft samráð við samtök námsmanna, og það verður gert. (Forseti hringir.) Ég er ekki nálægt því búinn. Ég ætla ekki að syndga mikið upp á náðina en mér finnst ég þurfa að svara einu. Reyndar þarf ég að svara miklu fleiru, ég skal vera mjög stuttorður.
    Það var spurt hvað það væri sem hægt væri að einkavæða. Tilefnið var sjálfsagt að ég sagði að ég væri ekki með neinar hugmyndir um að einkavæða skólakerfið í heild, svo var ekki. Hins vegar má kaupa ýmsa þjónustu sem nú er innt af hendi af ríkisstarfsmönnum, þar á meðal kennslu, líkt og er í Verslunarskóla Íslands, og ég nefni t.d. ræstingu. Hv. þm. nefndi sjálfur fullorðinsfræðslu og það er ýmislegt svona sem má athuga. Talið er að það

sem sparast við það sem ætlunin er að leggja fyrir Alþingi, um frestun á vissum þáttum grunnskólalaganna, muni verða um 40 millj. frá haustmissiri 1992. Ef um allt árið væri að ræða yrðu það 100 millj. kr.
    Fleira hefði ég viljað segja en ég má ekki misbjóða þolinmæði forseta.