Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 18:05:00 (497)

     Sigríður A. Þórðardóttir :
     Virðulegi forseti. Ég tek undir þakkir þeirra þingmanna sem hafa lýst ánægju sinni með að hér skuli fara fram umræður um menntamál. Ég hef lengi talið að mjög skorti á slíka umræðu í íslenskri þjóðmálaumræðu og þess vegna fagna ég því.
    Við lifum í síbreytilegum heimi sem einkennist í senn af samvinnu og samkeppni þjóða á milli. Um þetta höfum við einmitt verið að tala í þinginu á síðustu dögum í tengslum við samningana um Evrópskt efnahagssvæði. Við þessar aðstæður tel ég að aldrei hafi verið jafnmikilvægt fyrir okkur Íslendinga og einmitt núna að huga vel að menntakerfi okkar því að aukin samkeppni kallar á enn þyngri áherslur á þau mál sem að menntuninni snúna. Aðeins með því að leggja áherslu á góða undirstöðumenntun fáum við staðist öðrum þjóðum snúning í samkeppninni.
    Við Íslendingar höfum oftast nær verið ófeimnir við að bera okkur saman við aðrar þjóðir í flestum efnum og okkur þykir oft að okkar hlutur sé góður. Ef við berum okkur hins vegar saman við aðrar þjóðir í skóla- og menntamálum, hvað blasir þá við? Íslensk börn hefja skólagöngu seinna en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum. Íslensk börn verja styttri tíma á dag í nám í skólanum en börn með öðrum þjóðum og íslenskir unglingar útskrifast seinna en unglingar með öðrum þjóðum sem stúdentar eða úr öðrum framhaldsskólum og hefja háskólanám seinna en ungt fólk annars staðar í nágrannalöndum okkar. Þetta er það sem blasir við og kannski má draga það saman í hnotskurn að við notum tímann illa, við gætum notað tímann miklu betur.
    Hv. þm. Svavar Gestsson, fyrrv. menntmrh., lét áðan eins og allt hefði verið blúndulagt í hans tíð í menntmrn. Hann hrósaði sjálfum sér og starfsháttum sínum og hann deildi á Sjálfstfl. og menntmrh. með fullyrðingum í hneykslunartón. Ég held að umræðurnar sem við höfum átt hér í dag sýni svo ekki verður um villst að það er ekki allt jafngott og hann vildi vera láta. Það er mikið verk að vinna í menntamálum þjóðarinnar þannig að við sjálfstæðismenn höfum nóg að gera í þessi fjögur ár, og við ætlum okkur að vinna vel.
    Það sem ég vildi helst gera að umræðuefni er framhaldsskólinn vegna þess að ég tel að þar sé mesti vandinn í íslensku skólakerfi í dag. Framhaldsskólinn var opnaður upp á gátt fyrirhyggjulaust undir slagorðunum ,,framhaldsskóli fyrir alla`` og ,,jafnrétti til náms``. Um leið og þetta var gert var ekkert hugsað fyrir því hvernig því yrði mætt að inn í framhaldsskólann kæmu miklu fleiri nemendur en áður höfðu verið þar. Kennararnir voru ekki viðbúnir að taka við þessu. Skólarnir voru ekki viðbúnir hvað varðaði húsnæði og búnað. Nemendur voru heldur ekki viðbúnir, og við sitjum uppi með mjög stórt, óleyst vandamál.
    Í framhaldi af þessu mætti kannski velta fyrir sér þessum spurningum: Í hverju er jafnrétti til náms fólgið? Er jafnrétti til náms fólgið í því að allir fari sömu leið, óháð hæfileikum og þörfum einstaklinganna? Svari því hver fyrir sig. Ég held að það sem einmitt núna er brýnast að gera sé að leggja meiri áherslu á fjölbreytni. Það vantar meiri fjölbreytni inn í framhaldsmenntunina. Við höfum lagt ofuráherslu á stúdentsprófið og bóklegt nám í þessu þjóðfélagi og við höfum talið unga fólkinu okkar trú um, eða einhvers staðar frá hefur það fengið þær hugmyndir, að stúdentsprófið sé nauðsynlegt til að standa sig, til að komast áfram. En það er bara ekki þannig því að þetta stúdentspróf veitir fólki engin starfsréttindi. Sá sem hefur stúdentspróf fær ekkert frekar vinnu en sá sem ekki hefur slíkt próf og þar held ég að sé kannski mesta verkið sem við þurfum að beina okkur að, þ.e. að búa til fleiri stuttar námsbrautir sem tengjast atvinnulífinu. Atvinnulífið kallar á slíkt nám, en við höfum ekki brugðist við því kalli. Hins vegar verðum við líka að gæta þess að stúdentsprófið haldi gildi sínu sem próf sem veitir aðgang inn í Háskólann. Á síðustu dögum hafa einmitt verið uppi umræður um það í Háskóla Íslands að taka upp inntökupróf í Háskólanum. Þetta er m.a. afleiðingin af því að framhaldsskólinn hefur verið opnaður og þessi umræða á örugglega eftir að verða háværari og það verður e.t.v. fyrr en okkur grunar, að slík inntökupróf verði tekin upp.
    Með leyfi hæstv. forseta vitna ég í viðtal í Morgunblaðinu þriðjudaginn 22. okt. við Þorstein Vilhjálmsson sem er formaður kennslumálanefndar Háskólans. Hann segir þar:
    ,,Við erum með þessum hugmyndum ekki að gagnrýna framhaldsskólana. Námið hefur orðið þar fjölbreyttara og þeir hafa brugðist við vaxandi ásókn í menntun. Það má segja að það sé eðlilegt næsta skref að skilgreina betur undirbúning fyrir þessa tegund af háskóla sem Háskóli Íslands er. Stúdentspróf er ekki endilega fullnægjandi undirbúningur fyrir nám í Háskóla Íslands, en það getur verið undirbúningur fyrir margt annað, annars konar háskóla eða lífið.``
    Með þessu finnst mér hann segja að stúdentsprófið sé ekki lengur sá inngangur að Háskólanum sem var. Seinna segir: ,,Hann sagði að varlega yrði farið í sakirnar til að byrja með og árangur af inntökuprófi ekki látinn vega þungt en metið yrði hvort menn fengju skólavist. Einnig væri líklegt að aukið tillit yrði tekið til einkunna á stúdentsprófi, en ómögulegt væri að láta einkunnirnar ráða eingöngu þar sem stúdentsprófið væri mjög sundurleitt eftir framhaldsskólum.``
    Guðni rektor Menntaskólans í Reykjavík segir í DV 23. okt.: ,,Ég vil bara að stúdentsprófið standi fyrir sínu.`` Þarna má segja að skoðanir stangist nokkuð á. Guðni segir líka í viðtalinu í DV, með leyfi forseta: ,,Það er alveg ljóst að þeir [og þar á hann við þá í Háskólanum] eru með þessu að segja að það sé ekki nógu góður undirbúningur í menntaskólanum.
    Hann tekur þessar hugmyndir um inntökupróf sem gagnrýni á framhaldsskólann eða menntaskólana og ég held að sá skilningur sé alveg réttur hjá honum vegna þess að þarna er Háskólinn að bregðast við því að framhaldsskólinn útskrifar fólk með stúdentspróf sem stenst ekki þær kröfur sem til þess eru gerðar í Háskólanum.
    Mig langar líka til að gera að umtalsefni afleiðingar þessarar opnunar á þá nemendur framhaldsskólanna sem trúa því að í þessu þjóðfélagi sé nauðsynlegt að hafa stúdentspróf en komast síðan að því að námið hentar þeim ekki og þeir ná ekki fótfestu. Þetta er mjög slæmt fyrir þetta unga fólk, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess og sjálfsmyndina og getur verið mjög erfið reynsla sem oft og tíðum endar með því að það flosnar upp úr námi löngu áður en því lýkur. Einnig má benda á að þessi opnun leiðir í raun og veru það af sér að framhaldsskólinn verði skyldunám. Þetta er í rauninni byrjunin á því ef við bregðumst ekki við með einhverjum markvissum aðgerðum. Ég tel að það sem við eigum að gera núna og leggja megináherslu á sé að gera námið fjölbreyttara, hafa fleiri stuttar námsbrautir og leggja áherslu á starfsnám. Ég tel að það sé undirstaða þess að jafnrétti sé í raun til náms. Það er ekki jafnrétti að steypa alla í sama mót heldur þvert á móti að allir geti fundið nám við sitt hæfi.
    Virðulegi forseti. Áður en ég lýk máli mínu vildi ég taka innritunargjöldin örlítið til umræðu. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi hér í ræðu sinni í dag niðurfellingu gjalda vegna fátæktar. Ég get ekki annað en undrast slíka umræðu á Íslandi árið 1991. Innritunargjöld hafa tíðkast í framhaldsskólanum svo lengi sem ég man og mér finnst að það hafi verið allt of mikið gert úr þeim innritunargjöldum sem fyrirhugað hefur verið að taka. Þar að auki er rétt að það komi líka fram hér að skólunum er gert að brúa ákveðið bil með þessum innritunargjöldum. Þeim er í sjálfsvald sett hvort þeir nota gjöldin til þess eða beita einhverjum öðrum aðgerðum.
    Ég vænti þess að þessar umræður hafi orðið til að vekja fólk til umhugsunar um þann vanda sem við blasir og að það er ærið verk að bregðast þar við.