Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 18:21:00 (499)

     Sigríður A. Þórðardóttir (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma skýrt fram að hér er ekki um gagnrýni að ræða af minni hálfu á fyrrv. menntrh., Birgi Ísl. Gunnarsson. Ég tel að hann hafi unnið mjög gott starf í menntmrn. Einnig ætla ég að mótmæla því sem hv. þm. Svavar Gestsson fullyrti hér áðan að ég hefði oftrú á stúdentshúfunni. Þvert á móti var ég að leggja áherslu á að við höfum lagt ofuráherslu á stúdentsprófið með þeim afleiðingum sem nú blasa við. Það vantar meiri fjölbreytni fyrst og fremst. Það vantar meiri tengingu við atvinnulífið.