Framhald umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninga

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 10:36:00 (511)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig eðlileg ósk að haldið verði áfram umræðu um hið Evrópska efnahagssvæði. En eins og fram hefur komið tel ég að það sé varla hægt á meðan hæstv. utanrrh. er fjarstaddur og því miður getur hann ekki verið á þingfundi hér í dag. Reyndar er ekki langt síðan að ákveðið var að halda þingfund í dag, en ástæðan var einmitt sú umræða sem var fyrir tveimur dögum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég vænti þess að hv. þm. virði það við ríkisstjórnina og hæstv. utanrrh. þó framhald umræðunnar geti ekki átt sér stað einmitt í dag. Ég tel að þetta mál hlaupi alls ekki frá okkur og það sé í raun og veru hægt að taka málið upp eftir næstu viku án þess að stórir hlutir hafi gerst sem komi í veg fyrir það að sjónarmið manna fái að koma fram og hafa áhrif á gang mála eins og eðlilegt getur talist.