Framhald umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninga

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 10:45:00 (514)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Forseti verður að leiðrétta misskilning sem virðist vera hér á ferðinni. Það fyrirkomulag sem verið hefur á dagskrá funda hefur verið í fullu samkomulagi milli þingflokka. Fundir hafa verið haldnir með formönnum þingflokka og gert samkomulag um fyrirkomulag fundarhaldsins --- utandagskrárumræðan, sem fór hér fram í gær, var löngu ákveðin eins og hv. þm. vita.
    Þegar umræðum um skýrslu utanrrh. var frestað á sínum tíma var það gert að ósk þingmanna, en ekki að ósk utanrrh. Það hafði verið gert samkomulag um að ljúka þeirri umræðu þennan tiltekna dag, en á síðustu stundu var fundinum frestað að ósk eins hv. þm. Þetta þykir forseta bráðnauðsynlegt að komi fram.