Framhald umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninga

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 11:04:00 (522)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Það liggur fyrir að hæstv. utanrrh. getur verið hér við eftir kl. 14. Forseti hefur hug á því að ná samkomulagi um að umræðan um skýrsluna geti farið fram eftir þann tíma en mun óska eftir því að fá fund með formönnum þingflokka til að ræða það frekar á meðan fundur stendur yfir.
    Nú væntir forseti þess að þessi þingskapaumræðu geti hætt. Forseta langar að upplýsa það að eftir er að lesa upp bréf þar sem nýr þingmaður er að taka sæti. Honum þykir það miður að þurfa að taka á móti nýjum þingmönnum með þessum hætti, að komast ekki að með það að bjóða þingmanninn velkominn. Vil ég nú biðja menn að láta af þessari þingskapaumræðu að þessum orðum töluðum. ( ÓRG: Hvað með forsrh., hvenær kemur hann?) Forseti getur ekki svarað því hvenær forsrh. mætir hér á fundi en væntanlega eigum við eftir að sjá hæstv. forsrh. á fundinum. ( Gripið fram í: Og viðskrh. hlýtur að þurfa að koma hér og vera viðstaddur.)
    Þá vill forseti einnig láta þess getið að honum þykir miður sú ásökun sem hér hefur komið í garð mætinga þingmanna á þingfundum. Forseti hefur ekki orðið vör við að það sé með neinum öðrum hætti heldur en oft hefur verið áður á þingum. Það er misjafnt hvernig þingmenn mæta hér og forseti hefur ekki getað séð að nýir þingmenn sitji hér neitt verr en aðrir og vill þess vegna vísa slíkum ásökunum á bug.
    En nú vill forseti beina því til hv. þm. sem enn hafa beðið um orðið um þingsköp hvort þeir eru tilbúnir að falla frá því. Eru hv. þm. tilbúnir til að falla frá orðinu um þingsköp? ( RG: Já.) Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur beðið um orðið um þingsköp og verður honum sjálfsagt leyft það.