Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 11:43:00 (530)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 51/1968, um bókhald. Frv. þetta er samið að lokum viðræðum við stjórn Félags löggiltra endurskoðenda um vinnubrögð við mótun góðrar reikningsskilavenju. Góð reikningsskilavenja hefur verið skilgreint sem samheiti yfir þær aðferðir sem sérhæfðir og samviskusamir kunnáttumenn á sviði reikningshalds beita á hverjum tíma við gerð reikningsskila.
    Góð reikningsskilavenja hér á landi hefur einkum mótast af lögum og reglum, alþjóðlegum reikningsskilareglum og álitsgerðum reikningsskilanefndar Félags löggiltra endurskoðenda. Áður fyrr voru ákvæði skattalaga mjög ráðandi við alla reikningsskilagerð en á síðari árum hefur verið vikið frá fyrirmælum skattalaga í vaxandi mæli við gerð ársreikninga fyrirtækja þó að sjálfsögðu hafi skattskil fyrirtækja byggst á þeim. Reglur skattalaga þurfa ekki að móta reikningsskil en kjósi löggjöfin svo geta reikningsskilareglur aftur á móti haft veruleg áhrif á skattskilareglur. En skortur á formlega settum reglum um reikningsskil hefur að margra dómi þótt leiða til minna samræmis í reikningsskilum en æskilegt er.
    Stjórn Félags löggiltra endurskoðenda hefur ályktað um nauðsyn þess að samræma aðferðir við gerð reikningsskila og telur hún að enn ríkari ástæður liggi til þess en áður að skýrar reglur gildi um reikningsskil fyrirtækja, reglur sem liggi ljósar fyrir og víðtæk samstaða ríki um í þjóðfélaginu. Er það álit stjórnar félagsins að ekki nægi lengur að reikningsskilanefnd Félags löggiltra endurskoðenda gefi út álit á ýmsum reikningsskilamálum. Ástæðan sé sú að hvorki félagsmenn Félags löggiltra endurskoðenda né forráðamenn fyrirtækja telji sig bundna af slíkum álitsgerðum. Hafi það leitt til meira ósamræmis í framsetningu reikningsskila en æskilegt geti talist þótt mismunandi framsetning geti að vissu marki rúmast innan góðrar reikningsskilavenju.
    Lagt er til að lögunum um bókhald verði breytt á þann veg að inn í þau komi nýr kafli sem hafi fyrirsögnina Reikningsskilaráð og góð reikningsskilavenja og verður kaflinn þrjár greinar eins og um getur í 1. gr. frv. a-liðurinn verður 23. gr. laganna. Í henni verði ákvæði um að fjmrh. skipi fimm sérfróða menn til fjögurra ára í senn í nefnd sem nefnist reikningsskilaráð. Þrír nefndarmenn séu skipaðir samkvæmt tilnefningu þeirra aðila sem upp eru taldir í greininni. Sá fjórði sé ríkisendurskoðandi og sá fimmti sé skipaður án tilnefningar. Ráðherra skipar síðan formann reikningsskilaráðs úr hópi nefndarmanna.
    Í b-lið 1. gr. frv., sem verður 24. gr., er mælt fyrir um starfssvið ráðsins. Haft er í huga að fagleg vinnubrögð verði höfð að leiðarljósi í starfsemi ráðsins og að ráðið taki upp mál ýmist að eigin frumkvæði eða eftir utanaðkomandi ábendingum. Ráðið mun óska eftir umsögnum frá hagsmunaaðilum og reikningsskilanefnd Félags löggiltra endurskoðenda eftir því sem við á, en síðan gefa álit eða ákveða útgáfu á samræmdum reglum. Auk þess að vera fjmrh. til ráðuneytis um útgáfu reglugerða samkvæmt bókhaldslögunum getur ráðið verið öðrum stjórnvöldum til ráðuneytis um ákvæði sem sett eru í lögum eða reglugerðum og varða reikningsskil. Hér má sem dæmi nefna ákvæði hlutafélagalaga um reikningsskil hlutafélaga og ákvæði sveitarstjórnarlaga um ársreikninga sveitarstjórna. Í faglegri umfjöllun sinni um reikningsskilareglur mundi ráðið auk íslenskrar löggjafar hafa til hliðsjónar alþjóðlegar reikningsskilareglur og venjur en vaxandi alþjóðavæðing atvinnulífsins kallar á samræmingu á þessu sviði milli Íslands og annarra ríkja.
    Í c-lið, sem verður 25. gr. laganna, er lagt til að ráðherra ákveði skiptingu kostnaðar við störf reikningsskilaráðs að höfðu samráði við tilnefningaraðila. Reynsla frá nágrannalöndunum sýnir að verulegur kostnaður getur verið því samfara að semja tillögur um reikningsskilareglur, sem lagðar eru fyrir samsvarandi stofnanir og reikningsskilaráði er ætlað að verða. Eðlilegt þykir að ríkissjóður, Verslunarráð Íslands og Félag löggiltra endurskoðenda beri kostnað sem af starfi nefndarinnar hlýst, þar með talinn kostnað vegna aðkeyptrar sérfræðiaðstoðar, ritfanga, birtingar og fundakostnaðar samkvæmt nánara samkomulagi sem staðfest sé með ákvörðun ráðherra. Gert er ráð fyrir að ráðið starfi eftir fjárhagsáætlun sem lögð sé fyrir til staðfestingar aðila fyrir upphaf hvers starfsárs.
    2. gr. frv. er einföld. Þar er eingöngu ákvæði þess efnis að lögin taki þegar gildi.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta frv. sem hér er til umræðu. Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.