Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 12:15:00 (535)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. vék nokkuð að því í seinni ræðu sinni að Alþingi þyrfti að íhuga hver reynslan væri af störfum Ríkisendurskoðunar og þeirri skipan sem ákveðin var á sínum tíma. Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi orðað það svo að rétt væri að forsetar þingsins og þeir sem fara með yfirstjórn þingsins tækju það til umfjöllunar með hvaða hætti þessi samskipti hafa verið og eiga að vera. Ég vil nota þetta tækifæri til að taka eindregið undir þessi orð hæstv. fjmrh. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að Alþingi ræði hispurslaust ýmislegt af því sem hefur verið að koma fram í störfum Ríkisendurskoðunar á undanförnum mánuðum. Ég vil segja það strax að mér finnst margt af því sem þar hefur gerst veikja mjög tiltrú þings og þjóðar á Ríkisendurskoðun. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það eru mjög alvarleg orð. En það er hins vegar óhjákvæmilegt að ég láti það koma fram að reynsla mín sem fjmrh. og ýmislegt sem fram hefur komið á síðustu mánuðum er auðvitað með þeim hætti að það er alveg óhjákvæmilegt að þingið fjalli á gagnrýninn hátt um reynsluna af störfum Ríkisendurskoðunar og þá stjórnunarhætti sem þar hafa tíðkast. Ég vil nefna nokkur dæmi máli mínu til stuðnings.
    Ég ætla aðeins að rifja upp í fáeinum setningum, en það er ekkert höfuðatriði, að á síðasta vetrarþingi varð allmikil umræða um skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Þormóði ramma. Ég ætla ekki að hefja þær umræður á nýjan leik. Það muna margir hv. þm. að í því máli kom fram að Ríkisendurskoðun hafði unnið tvenns konar skýrslur um Þormóð ramma sem á engan hátt bar saman. En vegna þess að ég var aðili að því máli ætla ég ekki að gera það að meginröksemd fyrir skoðun minni nú.
    Annað dæmi vil ég nefna. Nokkrum mánuðum síðar urðu miklar umræður um skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi heilbrigðisstofnana og kjör lækna. Nú vill svo til að ég var í hópi þeirra manna sem í þeirri umræðu gagnrýndu margt í kjörum lækna, sérstaklega sérfræðinganna og samskipti þeirra við Tryggingastofnun. Hins vegar komu fram í blöðum í þessari umræðu mjög vandaðar greinar frá ýmsum forstöðumönnum sjúkrahúsa- og heilbrigðiskerfisins þar sem þeir gagnrýndu þær reikningslegu forsendur og þær aðferðir sem Ríkisendurskoðun hafði beitt í þessari skýrslu. Mér vitanlega svaraði Ríkisendurskoðun aldrei þeirri faglegu gagnrýni, en fljótt á litið virtist hún benda til þess að starfsmenn Ríkisendurskoðunar hefðu gefið sér ýmsa hluti sem stöfuðu af vanþekkingu þeirra á hvernig sjúkrahús almennt eru rekin, ekki fjárhagslega heldur sem heilbrigðisstofnanir.
    Þriðja dæmið sem ég vil nefna hér er sú umræða sem fór fram í kjölfarið á skýrslu sem forsrh. bað um frá Ríkisendurskoðun til að meta stöðu nokkurra sjóða í eigu ríkisins, sérstaklega Framkvæmdasjóðs, Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs. Nú vil ég segja hér að það er á ýmsan hátt hæpið að framkvæmdarvaldið, þ.e. einstakir ráðherrar, geti pantað skýrslur frá Ríkisendurskoðun um eitt og annað. Ég taldi að þessi verkaskipting væri með þeim hætti að það væri óeðlilegt ef ég sem fjmrh. væri að panta skýrslur frá Ríkisendurskoðun. Ástæðan fyrir því að ég taldi slíkt óeðlilegt er að grundvallaratriðið í þeirri nýskipan sem var tekin upp fyrir nokkrum árum var að flytja Ríkisendurskoðun algerlega frá framkvæmdarvaldinu og gera hana hluta af tækjum löggjafarvaldsins til eftirlits með framkvæmdarvaldinu. Þess vegna taldi ég óeðlilegt að einstakir ráðherrar, kannski í pólitísku stríði eins og t.d. forsrh. stóð í í sumar, væru að draga Ríkisendurskoðun með skyndingu inn í það pólitíska stríð og réðu því nánast sjálfir hvort Ríkisendurskoðun skrifaði skýrslu um málið eða ekki vegna þess að þó það hafi kannski formlega verið borið undir forseta þingsins, sem mér er þó ekki ljóst að hafi verið gert, þá hefði verið erfitt fyrir forseta þingsins að neita forsrh. um slíka skýrslu. En ég vil segja það hér og nú að mér finnst óeðlilegt að einstakir ráðherrar geri mikið af því að panta slíkar skýrslur frá Ríkisendurskoðun, en látum það vera. Það er kannski ekki kjarni máls á þessu stigi þó ég telji að eitt af því sem þurfi að ræða sé hvort það er eðlilegt.
    Hitt var svo öllu alvarlegra að í þeirri skýrslu sem Ríkisendurskoðun skilaði kom fram að sjóðir sem ríkisendurskoðandi hafði nokkrum mánuðum áður áritað reikningana hjá í nafni Ríkisendurskoðunar og engar athugasemdir gert við stöðu þeirra sjóða voru nú að dómi Ríkisendurskoðunar allt í einu orðnir gjaldþrota. Í ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 1990 er birt áritun ríkisendurskoðanda á reikningum Atvinnutryggingarsjóðs. Þar stendur:
    ,,Með skírskotun til áritunar ofangreindra endurskoðenda er ársreikningur Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina samþykktur.
    Ríkisendurskoðun, Halldór V. Sigurðsson.``
    Og sams konar formleg áritun Ríkisendurskoðunar er á ársreikningi Hlutafjársjóðs Byggðastofnunar.
    Þegar ríkisendurskoðandi, Halldór V. Sigurðsson, var síðan spurður að því í Morgunblaðinu nokkrum dögum seinna hvernig hann skýrði það að hann í vor áritar reikninga Byggðastofnunar og Hlutafjársjóðs og finnur

ekkert athugavert en lýsi því yfir í skýrslu til forsrh. í sumar að þessir sjóðir séu bara gjaldþrota, þá var svar ríkisendurskoðanda, Halldórs V. Sigurðssonar, mig minnir að ég fari með það orðrétt, menn geta flett því upp í Morgunblaðinu: Það er komin önnur ríkisstjórn. Mig rak satt að segja í rogastans við að lesa þessi orð ríkisendurskoðanda. Er það háð því hvaða ríkisstjórn situr í landinu hvaða niðurstöðu Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðandi fær þegar þeim ber samkvæmt lögum að árita reikninga?
    Ég vil nefna enn eitt dæmi og er nú leitt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skuli ekki vera í þingsalnum. Össur Skarphéðinsson var fulltrúi fjmrh. í stjórn Framkvæmdasjóðs um rúmlega tveggja ára skeið. Ég held að ég fari rétt með en það hefði verið æskilegt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefði getað staðfest það í þingsalnum, að þegar ég var fjmrh. varð nokkur umræða í stjórn Framkvæmdasjóðs um hver staða sjóðsins væri. Ég taldi t.d. sem fjmrh. og lýsti þeirri skoðun í ríkisstjórninni að margt benti til þess að Framkvæmdasjóður væri e.t.v. gjaldþrota. Og ég ræddi það mál við fulltrúa fjmrh. í stjórn Framkvæmdasjóðs, Össur Skarphéðinsson, nokkrum sinnum og mér hefur verið tjáð að hann hafi síðan í stjórn Framkvæmdasjóðs farið fram á það að áður en stjórnin gengi frá því að samþykkja reikningana kæmi formleg staðfesting frá Ríkisendurskoðun um það að staða sjóðsins væri í lagi. Og síðan kom áritun ríkisendurskoðanda á reikninga Framkvæmdasjóðs með fullkomlega eðlilegum hætti og þá fyrst staðfesti stjórnin, í trausti þess að orðum ríkisendurskoðanda mætti treysta, að staða sjóðsins væri í lagi. Ég tek það hins vegar fram að ég fer með þetta eftir minni og það væri mjög æskilegt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson gæti fjallað um þetta mál.
    Þessi fjögur dæmi sem ég hef nefnt, deilan um tvenns konar skýrslur Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma, fagleg gagnrýni lækna og forstöðumanna sjúkrahúsa á heilbrigðislegar forsendur og útreikninga Ríkisendurskoðunar á rekstri sjúkrahúsanna og heilbrigðiskerfisins, áritun ríkisendurskoðanda á reikninga Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs fyrr á þessu ári og síðan yfirlýsing hans um það í sumar að sú áritun hafi verið marklaus eða hann skipt um skoðun vegna þess að komin var ný ríkisstjórn og í fjórða lagi umræðurnar í stjórn Framkvæmdasjóðs um stöðu sjóðsins og frestun á samþykkt stjórnar á reikningum sjóðsins þar til Ríkisendurskoðun hafði gengið frá reikningunum, eru auðvitað allt mjög alvarleg dæmi, því miður. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að forsetar þingsins og aðrir ábyrgðaraðilar á Alþingi taki til mjög ítarlegrar og alvarlegrar umræðu reynsluna af störfum Ríkisendurskoðunar og framgöngu Ríkisendurskoðunar í þessum málum á síðustu mánuðum.
    Ég vil líka geta þess að mér hefur alltaf þótt óeðlilegt að vararíkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, skuli hafa starfað jafnnáið með fjvn. á sínum tíma og raun ber vitni. Það var óeðlilegt að sá maður, vararíkisendurskoðandi, sem átti síðan að vera trúnaðarmaður þingsins í því að fara yfir ríkisreikninginn og framkvæmd fjárlaganna hafi með beinum eða óbeinum hætti tekið þátt í meðferð þingsins á fjárlagafrv. á sínum tíma þannig að hann sæti alls staðar í kringum borðið á nánast öllum ferli máls. Ég hef sett fram þá skoðun að þingið ætti að ráða sér sjálfstæða starfsmenn til þess verks og mér er tjáð að nú hafi það verið ákveðið og ég tel það vera rétta ákvörðun og hefði átt að taka hana fyrir tveimur árum.
    Virðulegi forseti. Mér fannst nauðsynlegt vegna þess að stöðu Ríkisendurskoðunar bar á góma í ræðu hæstv. fjmrh. að gera þinginu grein fyrir þessum sjónarmiðum mínum, að hluta til byggðum á þeirri reynslu sem ég fékk sem fjmrh. en að hluta til líka á því sem ég hef skoðað í sumar og hvet eindregið til þess að forustumenn þingsins, forsetar og e.t.v. í samvinnu við fjárln. og efh.- og viðskn. þingsins ræði mjög rækilega á næstu mánuðum hvort ekki þarf að gera verulegar breytingar á yfirstjórn Ríkisendurskoðunar, setja henni fastar starfsreglur og eyða þeirri óvissu sem óhjákvæmilega hefur skapast vegna þess sem Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðandi hefur birt á undanförnum missirum.