Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 12:30:00 (536)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fann að því að það vantaði ýmsa menn hér í salinn þegar þessi umræða á sér stað rétt eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég verð að viðurkenna það að þegar hv. þm. fór að ræða sérstaklega Þormóð ramma saknaði ég sérstaklega hv. þm. Páls Péturssonar sem hefur nú lýst skoðun sinni á málflutningi hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og segist hafa þekkt þann málflutning í 20 ár og hann hafi einkennst af tilteknum þáttum sem hv. þm. Páll Pétursson rakti alveg sérstaklega.
    Ég tók eftir því að þingmaðurinn var að bera sig upp undan Ríkisendurskoðun. Það er þekkt aðferð stjórnmálamanna þegar óháðar stofnanir koma með upplýsingar sem ekki falla í kram viðkomandi, þá reyna þeir með beinum eða óbeinum hætti að ógna viðkomandi stofnunum. Mér fannst á marga lund ómaklegt hvernig þingmaðurinn vék að ríkisendurskoðanda sem hefur auðvitað engin tök á því að bera hönd fyrir höfuð sér á þessum vettvangi.
    Hv. þm. nefndi að það væri óeðlilegt að ríkisstjórn eða einstakir ráðherrar væru að ,,panta`` skýrslur frá ríkisendurskoðanda eða Ríkisendurskoðun. Og hann margnotaði þetta, ,,panta skýrslur``. Mér fannst eima af því að þetta ætti að þýða það að viðkomandi ráðherra væri að ,,panta`` niðurstöður skýrslna. Auðvitað er hér um að ræða að ráðherrar óska eftir því að Ríkisendurskoðun geri úttekt á tilteknum þáttum. Þeir geta ekki vitað fyrir fram hver sú niðurstaða er. Og það er engin ástæða til þess að gefa sér það eða vera með hálfkveðnar vísur um það að ríkisendurskoðandi eða Ríkisendurskoðun lagi sig að óskum ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra um niðurstöður slíkra skýrslna. Ég tel til að mynda að fyrrv. hæstv. fjmrh., Ólafur Ragnar Grímsson, hefði ekki átt að nefna það í ríkisstjórn þegar hann hafði hugboð um það að Framkvæmdasjóður væri á hausnum heldur hefði hann átt að láta fara

fram á því ítarlega úttekt eða óska eftir því við forsrh. En það var svo alvarleg staða miðað við þá stöðu sem Framkvæmdasjóður sýndi eins og þingmaðurinn nefndi sérstaklega.
    Þingmaðurinn velti því fyrir sér hvort sú breytta skipan sem gerð var á fyrirkomulagi Ríkisendurskoðunar leiddi til þess að ráðherrar hefðu ekki heimild til þess að óska eftir því að Ríkisendurskoðun gerði tilteknar úttektir eða gerði tilteknar skýrslur. Ég hygg að ráðherrann hljóti að vita betur hvernig fyrirkomulagið er. Breytingin felst í því í rauninni að ráðherra getur beðið um slíka skýrslu, en Ríkisendurskoðun þarf ekki að verða við þeirri beiðni ráðherrans. Ef ráðherrann biður hins vegar um slíka skýrslu og Ríkisendurskoðun ákveður að verða við þeirri beiðni, þá er það sjálfsögð og eðlileg aðgerð og í samræmi við hina breyttu skipan. Ef Ríkisendurskoðun neitar að verða við slíkri beiðni getur viðkomandi ráðherra snúið sér til forseta þingsins og ef forseti þingsins tekur þá ákvörðun að gefa Ríkisendurskoðun engu að síður fyrirmæli um að gera slíka athugun þá ber henni að fara eftir því. Geri forseti þingsins það ekki þá fer sú athugun ekki fram. Þetta er sú breyting sem orðið hefur.
    Hv. þm. nefndi eftir minni sérstaklega ummæli ríkisendurskoðanda í Morgunblaðinu. Ég get ekki farið með þau ummæli hér eftir minni. En ég minnist þess þó að þau voru á nokkurn annan veg en þingmaðurinn gaf til kynna. Hann gaf til kynna að ríkisendurskoðandi hafi sagt að fyrst komin væri ný ríkisstjórn þá skyldi koma önnur niðurstaða. Það var ekki svo. Ummæli hans voru skilyrt. Ég þori ekki að fara með þau eftir minni, enda er afskaplega hæpið að gera það þegar reynt er með hálfkveðnum vísum að gera embættismann, í þessu tilfelli ríkisendurskoðanda, tortryggilegan með þeim hætti sem þingmaðurinn gerði.
    En hver er staðreynd málsins? Staðreynd málsins er sú, bæði varðandi Byggðastofnun og Framkvæmdasjóð, að þeim niðurstöðum sem hafa komið frá Ríkisendurskoðun hefur ekki verið mótmælt. Og meira að segja fimm dögum eða svo áður en Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu sinni um Byggðasjóð ákvað Byggðastofnun skyndilega að bæta við á annan milljarð króna í afskriftasjóð umfram það sem hún hafði ákveðið örfáum mánuðum fyrr til þess að mæta hinni löku stöðu sem reyndar kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og starfsmenn Byggðastofnunar höfðu auðvitað séð að við mátti búast á næstunni.
    Það er heldur ekki ágreiningur við Framkvæmdasjóð um það að staða þess sjóðs er svo miklu lakari sem Ríkisendurskoðun segir en sjóðurinn var áður, sjóður sem átti milljarða eignir fyrir örfáum árum er núna öfugur um 1200 millj. kr. Mér fannst afskaplega hæpið af hv. þm. að reyna að gera ríkisendurskoðanda, sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér hér, tortryggilegan með þeim hætti sem hann gerði.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sagði að þessi framkoma Ríkisendurskoðunar hefði veikt tiltrú þings og þjóðar á þessari stofnun. Ég er ósammála þingmanninum um þetta. Hins vegar er ég sannfærður um að sú staðreynd að þessir sjóðir allir skuli vera svona miklu verr farnir en látið var í veðri vaka hefur veikt tiltrú þings og þjóðar á meðferð ríkisvaldsins eða fulltrúa þess í stjórnum þessara sjóða. Mér fannst því hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fara mjög ómaklegum orðum um ríkisendurskoðanda og vera með alls konar hálfkveðnar vísur í hans garð sem að mínu mati er ekki sæmandi þingmanninum.
    Hins vegar væri fróðlegt, ekki endilega undir þessum dagskrárlið heldur síðar, að taka mjög ítarlega umræðu um þessi efni og um þessa stöðu alla. Ég er þingmanninum sammála um að það væri afskaplega fróðlegt að gera það. En ég tel að þingmaðurinn hefði átt, fyrst hann hafði lýst yfir í ríkisstjórn að hann hefði ekki trú á að Framkvæmdasjóður stæði eins og látið var í veðri vaka, að láta gera á því ítarlega athugun. Á því hefði farið betur.