Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 13:01:00 (541)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Það var sérkennilegt erindi sem hæstv. forsrh. átti hér í ræðustólinn. Í sjálfu sér var ekkert tilefni til þess að hæstv. forsrh. færi að tala hér í umræðunni, en hann kaus að nota tækifærið og breyta alveg eðli

þeirrar umræðu sem hér hafði farið fram með þeim hætti sem hann hefur greinilega þjálfað sig í í borgarstjórn Reykjavíkur í gegnum árin.
    Ég hafði ætlað mér einhvern tíma í vetur, við tækifæri þar sem málið yrði ekki tilefni mikillar umfjöllunar, að greina þinginu í stuttu máli frá þeirri skoðun minni sem byggð var á bæði reynslu minni sem fjmrh. og eins því sem gerst hefur í sumar, að nauðsynlegt væri að þingið tæki til skoðunar starfshætti Ríkisendurskoðunar og þær reglur sem hún starfar eftir vegna þess að það er þingið sem ber ábyrgð á Ríkisendurskoðun. Mér fannst þess vegna kjörið tækifæri til að láta þetta koma hér fram í tiltölulega rólegri umræðu um frv. sem í sjálfu sér þarf ekki að vera pólitískt deiluefni og hæstv. fjmrh. mælti fyrir hér áðan. Tilefnið var svo það að fjmrh. vék sjálfur að því í sinni ræðu að það kynni að vera nauðsynlegt fyrir þingið að skoða þessi mál. Satt að segja taldi ég að ég hefði nú í stuttri og málefnalegri ræðu gert grein fyrir rökum mínum fyrir því að þingið þyrfti að taka þessi mál til umfjöllunar. Það var ekki ætlun mín að fara að gera það síðan að meira máli hér í þingsalnum heldur koma þessu formlega og opinberlega á framfæri þannig að það lægi fyrir.
    Síðan kemur hæstv. forsrh. og fer í þessum pólitíska stíl borgarstjórans í Reykjavík að fleyta frekar ómerkilegar pólitískar kerlingar í ræðustólnum. Hann sagði m.a. að ég hefði verið að bera mig upp undan Ríkisendurskoðun. Það er mesti misskilningur. Ég tel mína stöðu gagnvart Ríkisendurskoðun vera svo sterka að ég þurfi hvorki að bera mig upp gagnvart einum eða neinum í þeim efnum. Ef ráðherrann er með Þormóðs ramma málið í huga tel ég að ef á að setja það upp hver hafi unnið og hver hafi tapað því máli hafi fjmrh. og fjmrn. unnið það mál algjörlega, og ég vil segja hæstv. forsrh. frá því að þegar við gerðum forsetum þingsins grein fyrir sjónarmiðum fjmrn. á skýrslu Ríkisendurskoðunar hvað Þormóðs ramma málið snerti mætti ráðuneytisstjóri fjmrn. sérstaklega á fundinn með forsetum þingsins til þess að þar kæmi líka fram álit embættismanna fjmrn. Það vita þeir sem gegndu hér forsetastörfum á síðasta vetri. Hæstv. forsrh. ætti enn á ný að kynna sér pínulítið betur málin áður en hann fer að tjá sig um þau hér í ræðustólnum og ég get alveg sagt honum það í eitt skipti fyrir öll að við munum ekki gera mikið mál úr því þótt hann telji sig þurfa að kynna sér málin. Þegar hann rýkur hins vegar fram hvað eftir annað, t.d. í þessu máli, fiskeldismálinu, í stefnuræðunni og fleiri málum, greinilega án þess að vera búinn að kynna sér söguna, er óhjákvæmilegt að menn svari fyrir sig.
    Hæstv. ráðherra sagði líka að mér fyndist Ríkisendurskoðun ógna mér. Það er mikill misskilningur, hæstv. forsrh. Mér stendur engin ógn af Ríkisendurskoðun að neinu leyti. Ég tel það hins vegar mjög alvarlegt mál þegar upp koma á einu ári, hæstv. forsrh., mörg tilvik þar sem efnisleg og ítarleg gagnrýni kemur fram á Ríkisendurskoðun, ekki bara hér í þingsalnum heldur hjá fjölda sérfræðinga utan þings. Ég vil t.d. minna hæstv. forsrh. á það álit sem einn af fremstu endurskoðendum þessa lands, sem m.a., ef ég man rétt, hefur gegnt ákveðnum trúnaðarstörfum fyrir Reykjavíkurbog og jafnvel Sjálfstfl., lét í ljós á þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég vil líka minna á álit fjölmargra sérfræðinga í heilbrigðismálum á skýrslu Ríkisendurskoðunar um heilbrigðiskerfið. Það er nefnilega þannig að fjöldinn allur af sérfræðingum og fagmönnum utan þings hefur sett fram mjög alvarlega gagnrýni á vinnubrögð, ályktanir, forsendur og skýrslur Ríkisendurskoðunar. Það er mesti misskilningur að það sé þannig að einhverjir stjórnmálamenn telji Ríkisendurskoðun ógna sér og um það snúist málið. Það er mikill misskilningur.
    Hæstv. forsrh. sagði að ómaklegt væri að gera þetta hér í þingsalnum að ríkisendurskoðanda fjarstöddum. Það var líka frekar ómerkileg framsetning og ef hæstv. forsrh. læsi sér til í þingtíðindunum sæi hann að ég tók það mál upp á síðasta þingi að það væri mjög erfitt þegar tveir embættismenn störfuðu á ábyrgð þingsins, annar er ríkisendurskoðandi og stofnun hans og hinn er umboðsmaður Alþingis, og gæfu út skýrslur um hin ýmsu mál, og ef þær væru teknar til umfjöllunar hér í þingsalnum væru menn sakaðir um að vera að gagnrýna fjarstadda menn. Þess vegna benti ég á nauðsyn þess að skýrslurnar yrðu t.d. teknar til umfjöllunar í nefndum þingsins og á þeim vettvangi þar sem þingmenn gætu formlega rætt við þessa embættismenn. Hinu neita ég algerlega að menn megi ekki greina þinginu frá athugasemdum við þessi vinnubrögð og þessa skýrslu, einfaldlega vegna þess að embættismennirnir eigi samkvæmt lögum ekki sæti hér.
    Ég vil líka segja við hæstv. forsrh. að hann ætti að biðja flokksbróður sinn fjmrh. að koma á fundi með forsrh. og fjmrh. og embættismönnum fjmrn. og reyndar einnig ýmsum embættismönnum Seðlabankans þar sem þeir gætu látið þessum ráðherrum í té þá gagnrýni sem embættismenn fjmrn. og ýmsir embættismenn Seðlabankans hafa á undanförnum missirum sett fram á vinnubrögð, forsendur og skýrslur Ríkisendurskoðunar. Það er nefnilega þannig að í röðum ýmissa færustu embættismanna þessa lands er uppi mjög alvarleg fagleg gagnrýni á vinnubrögð Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun hefur hins vegar verið veittur mjög mikilvægur sess og það er höfuðatriði að sem flestir geti treyst Ríkisendurskoðun og búið sé svo um hnútana að ef einhver brestur er þar á verði reynt að laga það. Það má alls ekki haga málinu þannig að embættismenn Ríkisendurskoðunar séu hafnir yfir alla gagnrýni því, eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson benti rækilega á, og hefur hann til þess sterkan, faglegan grundvöll, fræði Ríkisendurskoðunar eru með þeim hætti að á þeim kann oft að vera mismunandi álit fagmanna, hvað þá heldur annarra.
    Hæstv. forsrh. kvartaði undan því að ég hefði rifjað það hér upp að nokkrum mánuðum áður en ríkisendurskoðandi skilaði forsrh. skýrslu, þar sem hann lýsti því yfir að Atvinnutryggingarsjóður og Hlutafjársjóður væru jafnilla staddir eins og sagði í þeirri skýrslu, hefði sami ríkisendurskoðandi áritað reikninga þessara tveggja sjóða og talið reikningana sýna trausta og rétta mynd af stöðu sjóðanna. Hér er á borðum þingmanna þessi skýrsla

Byggðastofnunar og þar er áritað af ríkisendurskoðanda að hann telji reikningana sýna trausta og áreiðanlega mynd af stöðu sjóðanna. Nokkrum mánuðum síðar er hins vegar komin allt önnur niðurstaða. Hæstv. forsrh. getur auðvitað eins og ég flett upp þessu viðtali í Morgunblaðinu en það er alveg öruggt að einn af þeim skýringarþáttum sem ríkisendurskoðandi reiddi fram var að nú væri komin önnur ríkisstjórn.
    Ég segi alveg eins og er að mér er hulin ráðgáta hvað það hefur með málið að gera, að hvaða faglegri niðurstöðu Ríkisendurskoðun kemst þegar hún skoðar þessa tvo sjóði, að komin sé ný ríkisstjórn.
    Ég ætla ekki í umræðum um þetta litla frv. sem hæstv. fjmrh. var að mæla fyrir að fara að ræða við hæstv. forsrh. um túlkun hans á skýrslum Ríkisendurskoðunar. Það gefast nægileg tækifæri og tími til þess síðar á þessu þingi. Hitt er auðvitað alveg ljóst að niðurstöðu Ríkisendurskoðunar mætti túlka á þennan veg, vegna þess að hún er um framtíðina. Hún er ekki um fortíðina, hún er um framtíðina. Ég hef gagnrýnt það að Ríkisendurskoðun sé sífellt að gefa út skýrslur um framtíðina. Skýrsla Ríkisendurskoðun er hins vegar á þann veg að þessir sjóðir muni verða gjaldþrota í framtíðinni að gefnum tilteknum forsendum, m.a. um efnahagsstefnu ríkisstjórna. Þess vegna mætti, virðulegi forsrh., draga þá ályktun, ef menn vildu fara í sams konar pólitískt skak og ráðherrann hefur gert með þessar skýrslur Ríkisendurskoðunar, að álit Ríkisendurskoðunar á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sé á þann veg að hún, efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar, muni gera þessa sjóði gjaldþrota vegna þess að fyrirtækin muni ekki geta staðið undir skuldbindingunum. Við í stjórnarandstöðunni höfum hins vegar sýnt þann þroska að vera ekki að detta niður á sama plan í umfjöllun um þessar skýrslur og forsrh. Efnislega er alveg hægt að halda á málinu með þeim hætti, enda veit ég að einn hv. þm., sem reyndar er fjarverandi, Ólafur Þ. Þórðarson, var að skemmta sér við það í sumar eftir að þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út að lýsa sérstakri ánægju sinni með þennan harða dóm sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefði fengið í skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna þess að Ríkisendurskoðun hefði lýst því yfir, strax eftir að stjórnin var mynduð, að stefna hennar mundi gera þessa sjóði gjaldþrota.
    Ég held hins vegar að svona umræða sé ekki heppileg og eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson benti á eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar forsendur sem margar hverjar er hægt að telja mjög hæpnar og sumar á þann veg að hægt er að gefa sér aðrar sem eru raunsannari. Ég nefni sem dæmi að það er búið að leggja drög að nýjum samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Meginrökin fyrir samningnum um Evrópskt efnahagssvæði fyrir okkur Íslendinga eru að hann muni styrkja mjög stöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þar með er ein af meginforsendum Ríkisendurskoðunar fyrir skýrslunni í sumar brostin og komin önnur miklu bjartari forsenda, ef dæma má af málflutningi hæstv. ráðherra um Evrópska efnahagssvæðið, sérstaklega sjútvrh., t.d. á fundinum sem Samband ungra sjálfstæðismanna hélt á Hótel Borg í gær. Ef hæstv. forsrh. bæði um aðra skýrslu í haust frá Ríkisendurskoðun um stöðu þessara sjóða í ljósi þess að fyrir lægi að samningur um Evrópskt efnahagssvæði hefði verið gerður sem gerbreytti markaðsstöðu íslensks sjávarútvegs hlyti Ríkisendurskoðun þess vegna að komast að annarri niðurstöðu í skýrslunni í haust en hún komst að í skýrslunni í sumar.
    Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hæstv. forsrh. skyldi telja það tilefni til að fara upp með þá ræðu sem hann flutti að ég taldi nauðsynlegt að vekja athygli á því að þetta mál þyrfti að skoða. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að þingsalurinn er ekki heppilegasti vettvangurinn til að ræða það. Ég vona hins vegar að þessi umræða hafi þó orðið til þess að gera forsetum þingsins, sem bera ábyrgð á Ríkisendurskoðun, það ljóst að það er nauðsynlegt að forseti og forsætisnefnd þingsins taki til ítarlegrar umfjöllunar þá efnislegu gagnrýni sem fram hefur komið á störf Ríkisendurskoðunar. Við eigum ekki að gera það að flokkspólitísku máli hér í þinginu, á engan hátt. Ég get t.d. sagt hæstv. forsrh. það að ég ætla mér ekki í stjórnarandstöðu að leika sams konar leik með upplýsingar Ríkisendurskoðunar og t.d. flokksbróðir hæstv. forsrh., hv. þm. Pálmi Jónsson, lék á síðasta kjörtímabili. Það voru satt að segja mjög óvönduð vinnubrögð og voru skemmandi, bæði fyrir Ríkisendurskoðun og þau mál. Ég ætla mér ekki að gera það. Ég ætla að hafa nákvæmlega sömu afstöðu í stjórnarandstöðu til þessara mála eins og ég hafði sem fjmrh. Ef forsrh. vill flytja það mál niður á eitthvert pólitískt skæklatog, þá hann um það. Það breytir engu um þá niðurstöðu mína sem byggð er á reynslu sl. þriggja ára að það er nauðsynlegt að taka starfshætti Ríkisendurskoðunar til alvarlegrar umfjöllunar innan þingsins.