Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 13:35:00 (545)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég þarf eiginlega líka að bera af mér sakir því að ég hef ekkert gert af misgáningi hér í þinginu í dag og hef verið ágætlega vakandi og þarf ekki umhyggju hæstv. fjmrh. í þeim efnum.
    En það kemur í ljós í þessum umræðum að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. skilja ekki hvað við erum að segja og það er það alvarlega í málinu. Við erum að segja að ef ekkert hefði verið að gert hefðu tugir fyrirtækja orðið gjaldþrota og þá þýðir lítið fyrir fyrrv. bankaráðsmann í Landsbankanum að tala um einhver B-hluta skuldbréf eða hlutabréf. Það er allt annað mál sem við erum að tala um. Heilu byggðarlögin hefðu orðið gjaldþrota.

Og hvað átti þá að gera? Hvað hefði núv. ríkisstjórn gert í þeim efnum? Og hvað er núv. ríkisstjórn að tala um að gera til þess að treysta endurgreiðslugetu þessara fyrirtækja? Leggja sérstakan skatt á sjávarútveginn í fjárlagafrv. núna. Það sýnir mat hennar á stöðu þessara fyrirtækja. Það er andstæðan, það er algerlega öfugt við það sem þeir segja. Og hæstv. viðskrh. tilkynnti það hjá iðnaðarmönnum í gær og er rétt að tilkynna iðnaðarmönnum landsins það að það standi til að leggja á auðlindaskatt. Hvernig eigum við að koma þessu heim og saman hjá hæstv. ríkisstjórn? Þarna er dálítið undarlegt mat á hlutunum. Það gengur sitt í hvora áttina. Ég vil gjarnan að þessi umræða fari fram undir lánsfjárlögum eða um Byggðastofnun eða í bæði skiptin því að mér heyrist að hæstv. ráðherrar hafi þetta svo mikið í huganum að þeir verði nánast að tala um þetta á hverjum degi. Ef þeir geta ekki talað um þetta í fjölmiðlum á hverjum degi verða þeir að tala um það hér á Alþingi. Og ég vil biðja hæstv. fjmrh. að tala gætilega um þessi mál því að ég veit ekki betur en eitt af hans fyrstu embættisverkum hafi verið að fella niður skattskuldir sem ég veit ekki til að áður hafi verið gert. En það er sjálfsagt fyrri ríkisstjórn að kenna eins og allt annað.