Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 13:39:00 (547)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. sagði áðan að í tíð síðustu ríkisstjórnar hefði ekki verið sett króna í sjóði eins og Atvinnutryggingarsjóð. Hæstv. fjmrh., það eru til nógu mörg eintök af fjárlagafrv. og fjárlögum síðustu tveggja eða þriggja ára uppi í fjmrn. til að ráðherrann geti, svona þegar hann fær sér morgunkaffið, t.d. á mánudaginn, beðið ráðuneytisstjórann að ná í eintök af fjárlögum síðustu tveggja, þriggja ára fyrir sig. Þar getur hann flett því upp, ef það hefur farið fram hjá honum á meðan hann sat hér í þingsalnum sem þingmaður, að á fjárlögum síðustu ára hafa mörg hundruð milljónir verið lagðar í þessa sjóði. Svo kemur hæstv. fjmrh. upp og segir að ekki hafi verið lögð króna í þessa sjóði. Ég fer að segja eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson: Hvernig eigum við að taka þátt í umræðum við svona menn sem fara með hreint fleipur hér í ræðustólnum? Fjmrh. ríkisins tilkynnir þjóðinni í ræðustól Alþingis að ekki hafi verið sett króna í þessa sjóði á síðustu árum. Ég held þvert á móti, ef ég rifja þetta upp, að sjálfstæðismenn hafi gagnrýnt mig sem fjmrh. hér í þingsalnum á síðustu árum fyrir það að of mikið hafi verið lagt í þessa sjóði á fjárlögum. Ég bið því virðulegan fjmrh. að fara að lesa fjárlögin.
    Ég gæti ýmislegt sagt um andsvar fjmrh. Ég ætla ekki að gera það hér úr ræðustólnum, en ef hann heldur áfram þeirri sögutúlkun sem hann var með í sínu andsvari mun ég gera það.