Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

17. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 15:12:00 (554)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem hæstv. utanrrh. misskilur það sem maður hefur sagt. Kannski hlustar hann ekki nógu vel, en það sem ég hafði eftir Frans Andriessen var, með leyfi forseta, þegar hann er að tala um tengsl EFTA-ríkjanna við ákvarðanakerfi Evrópubandalagsins:
    ,,Þegar allt kemur til alls verður það Evrópubandalagið sem ákvarðar hvað gerist á Evrópsku efnahagssvæði.``
    Það var þetta sem ég sagði. Ég var ekki að tala um það að EFTA-löndin hefðu áhrif innan EB heldur það hver hefði áhrif innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta virtist hæstv. ráðherra ekki hafa heyrt ef marka má hans orð. Þó svo að hægt sé að sýna fram á það að með einhvers konar hillingum --- ég vil nefna það hillingar --- geti EFTA og þar með Ísland haft einhver áhrif á þau lög sem sett verða á Evrópsku efnahagssvæði er það að mínu mati alls ekki rétt. Það er í raun og veru EB sem tekur allar ákvarðanir um ný lög inni á Evrópsku efnahagssvæði og það er mat bæði norskra og sænskra lögfræðinga að svo sé. Það getur vel verið að það sé mat hæstv. utanrrh. að svo sé ekki, en ég er ekki ein um það að halda þessu fram þannig að hann þarf þá að fara að athuga sinn gang aðeins betur ef hann heldur þessu fram því að þá er hann að tala gegn mjög mörgum lögfræðingum.
    Ég spurði líka í minni ræðu um hve mikið áætlað væri að kostnaðurinn við framkvæmdina yrði eftir að samningurinn væri orðinn að veruleika. Ég var ekki að tala um hvað hann kostaði nú. Hæstv. ráðherra sagði að aðeins 90 manns væru núna á skrifstofu EFTA. Á ekkert að fjölga þeim? Ég hef heyrt að það eigi að margfalda þann fjölda. Síðan er talað um að EFTA taki þátt í einhverjum nefndum. Það hlýtur að kosta eitthvað líka og eins með dómstólinn. Þó að dómararnir séu ekki margir hlýtur það að kosta eitthvað. Síðan talaði ég um fullveldið og Noreg. Í Noregi er það mat manna að með samningnum fari fram verulegt fullveldisafsal og það er merkilegt ef það sama afsal á sér ekki stað hér á Íslandi.