Atkvæðagreiðsla með rafeindabúnaði

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 13:42:00 (562)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :

     Nú hefur forseti hugsað sér að nota í fyrsta sinn atkvæðagreiðslukerfið sem sett var upp í þingsalnum í sumar og haust. Þegar forseti tilkynnir að atkvæðagreiðsla hefjist kviknar rautt ljós á litlum kassa sem hefur verið komið fyrir hægra megin á borði þingmanna og geta þingmenn þá greitt atkvæði. Það gera þeir með því að ýta á einn hnapp af þremur sem eru á þessum litla kassa. Hnappur nr. 2, rauður hnappur, merkir nei, grænn hnappur nr. 4 merkir já og hvítur hnappur nr. 3 merkir að þingmaðurinn greiðir ekki atkvæði. Komið hefur verið fyrir í borði þingmanna skýringum á þessum hnöppum. Þá vill forseti geta þess að hnappur nr. 1 er til þess ætlaður að þingmenn geti látið skrá atkvæðagreiðsluna í Alþingistíðindum þannig að fram komi hvernig hver og einn þingmaður greiddi atkvæði. Ef þingmenn óska eftir því að það sé gert ýta þeir á hnapp nr. 1. Að öðrum kosti birtast í þingtíðindum aðeins niðurstöðutölur atkvæðagreiðslunnar.
    Þá vill forseti láta þess getið að það er brýnt að þingmenn sitji í sætum sínum meðan atkvæðagreiðslur fara fram vegna þess að atkvæðin eru skráð úr því sæti þar sem ýtt er á hnapp. Forseti vill geta þess sérstaklega að ef menn óska eftir að gera grein fyrir atkvæði sínu við atkvæðagreiðslu með þessu kerfi ber þeim að gefa forseta merki með hefðbundnum hætti. Forseti mun þá láta atkvæðagreiðslukerfið standa opið meðan þingmaður gerir grein fyrir atkvæði sínu og lýkur atkvæðagreiðslu ekki fyrr en þingmaðurinn hefur haft ráðrúm til þess að komast aftur í sæti sitt og greiða atkvæði.
    Í þessu sambandi skal líka tekið fram að þingmönnum er heimilt að breyta atkvæði sínu meðan logar ljós á tækinu á borðum þeirra þannig að hafi þeir upphaflega ýtt á rauðan hnapp og sagt nei, þá geta þeir, ef þeim sýnist svo, ýtt á græna hnappinn áður en atkvæðagreiðslu lýkur og greitt já-atkvæði.
    Forseti vonar að þetta sé skýrt og jafnframt að vel takist til, en verði hins vegar tafir vegna byrjunarerfiðleika biður hann þingmenn að hafa biðlund.
    Jafnframt verður forseti að geta þess að með uppsetningu þessa kerfis er brotinn réttur á örvhentum þingmönnum. Öll tæki hafa verið sett við hægri jaðar á borðum þingmanna eins og áður segir. Áður hefur gengið úrskurður forseta um að vinstri hönd örvhentra þingmanna sé þeirra hægri hönd. Verður forseti að biðja örvhenta hv. þm. sérstakrar velvirðingar þar sem ekki reyndist tæknilega unnt að leysa þeirra mál. Einkum veldur hér sá gamli siður að dregið er um sæti þingmanna í upphafi hvers þings og erfitt að spá fyrir um hvar örvhentir dragast í sæti. Það skal enn fremur játað að forseti hefur ekki látið rannsaka hve margir hv. þm. eru örvhentir né heldur er það kannað þegar varamenn koma til þingstarfa hvort þeir eru rétthentir eða ekki. Forseti er vissulega reiðubúinn að gera hér bót á ef unnt reynist.