Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 15:02:00 (567)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Hér er til umræðu ársskýrsla Byggðastofnunar fyrir árið 1990. Get ég vissulega tekið undir orð Byggðastofnunar sem fram koma þar í athugasemdum að sú búseturöskun sem orðið hefur hlýtur að vera okkur mikið áhyggjuefni. Sú búseturöskun er ekki gott mál fyrir höfuðborg landsins og hún er heldur ekki hagstæð fyrir landsbyggðina. Hún er sem sagt ekki gott mál fyrir neinn íbúa landsins. Það kallar á ný mannvirki á höfuðborgarsvæðinu, það kallar á meiri fjárfestingar, uppbyggingu skóla og heilbrigðisstofnana og það kallar jafnframt á að sömu stofnanir verði vannýttar úti á landsbyggðinni.
    Samþykkt hafa verið ný lög um Byggðastofnun þar sem talað er um að nú verði áherslubreyting í starfsemi stofnunarinnar. Í framtíðinni muni hún sinna meira byggðaáætlunum og þróunarverkefnum. Það er vissulega gott og vel --- Byggðastofnun hefur sinnt þeim verkefnum --- og hún mun sinna þeim í enn meira mæli á næstu árum. En á síðustu árum hafa oft verið samdar miklar og góðar skýrslur um þróun byggðamála og um einstök svæði en því miður hefur ekki alltaf mikið af þeim áætlunum komist í framkvæmd.
    Hver er þá vilji stjórnvalda sem nú ráða gangi mála til þess að hafa áhrif á byggðaþróun? Það verður að segjast eins og er að íbúar landsbyggðarinnar a.m.k. telja ekki að vilji stjórnvalda í dag sé mjög jákvæður. Sú umræða sem komið hefur frá ríkisstjórn landsins hefur ekki verið í þeim dúr að íbúar landsbyggðarinnar þurfi neitt sérstaklega að hlakka til. Það sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan vekur heldur ekki miklar vonir. Það er dökkt útlit hjá atvinnulífinu á landsbyggðinni en það er á því sem mannlífið byggist á.
    Í sl. viku hitti ég nokkuð marga úr atvinnulífinu, að sjálfsögðu aðallega úr mínu kjördæmi, og það sem þeir sögðu var þetta: Á næsta ári fáum við að sjá hvort sjávarútvegurinn á landsbyggðinni lifir eða deyr. Það verða að koma til aðgerðir sem skuldbreyta og sem lækka vexti. Öðruvísi lifir atvinnulífið ekki af. En það sem við höfum heyrt frá stjórnvöldum er ekki til þess fallið að glæða vonir okkar um að þau hugsi sér að gera eitthvað í þeim málum.
    Sjávarútvegurinn verður áfram undirstaða byggðar í landinu. Það getur ekki annað orðið á næstu árum. Við sjáum það ekki fyrir okkur. En vissulega þarf jafnhliða að auka störf í þjónustugreinum. Það kom fram í máli hæstv. forsrh. hér áðan að sú aukning sem orðið hefur í þjónustugreinum er aðallega á suðvesturhorninu en mjög lítið á landsbyggðinni. Þar komum við líka inn á það að konum fækkar á landsbyggðinni en fjölgar jafnframt á höfuðborgarsvæðinu. Það vantar atvinnutækifæri fyrir konur úti um landið. Ef ekki fjölgar í þjónustugreinunum á landsbyggðinni, þá fjölgar ekki störfum fyrir konur. Miðað við stöðuna sem er í dag, þá eru þær meiri hluti þeirra sem stunda þau störf.
    Það er vissulega jákvætt að félmrn. hefur veitt á síðasta ári, þessu yfirstandandi ári og mun veita á næsta ári 15 millj. kr. til uppbyggingar atvinnu fyrir konur í dreifbýli. Nýlega var haldin á Vestfjörðum mikil atvinnumálaráðstefna sem konur stóðu fyrir og sóttu hana um 100 konur. Þar komu fram mjög margar hugmyndir um það sem hægt væri að gera í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og ekki bara fyrir konur heldur fyrir alla íbúa.

Ég vona svo sannarlega að framhald verði á þeirri vinnu sem þar byrjaði með hópum sem þegar hafa verið settir í gang til að vinna áfram að þeim hugmyndum. Einnig kom það fram hjá mörgum þeim sem sóttu þessa ráðstefnu að þeir vonuðust til að hún væri aðeins byrjunin á fleiri slíkum úti um landið.
    Hver skyldi þá í raun og veru vera undirrótin að þeirri byggðarröskun sem orðið hefur? Atvinna skiptir miklu máli. En það kom líka fram í máli hæstv. forsrh. áðan að á Vestfjörðum, þar sem fólki hefur fækkað mest, er það ekki vegna þess að atvinnu hafi vantað því að þar eru atvinnutekjur með því hæsta sem gerist á landinu og atvinnuleysi hefur varla verið þar mælanlegt. En hvað er það þá? Það vantar fjölbreytni. Atvinnulífið er of einhæft. Það byggir of mikið á sjávarútveginum sem er aðalundirstaðan. Þegar einhverjar sveiflur verða í honum hlýtur atvinna að minnka.
    Fólkið horfir líka á fleira og það er hvernig aðstaðan er til að lifa á hverjum stað. Hv. þm. Ragnar Arnalds kom nokkuð inn á að það væri aðstöðumunur sem skipti máli líka og það held ég að sé í raun og veru og hafi verið á undanförnum árum þegar næg atvinna hefur verið. Það hefur verið aðstöðumunurinn sem hefur skipt máli. Það eru almenn lífskjör, það hvað kostar að reka heimili, það er orkukostnaðurinn, það er vöruverðið, það eru skólarnir og heilbrigðisstofnanirnar. Það er þetta sem skiptir máli þegar fólk er að velja sér búsetu eða velja hvort það vill vera áfram á þeim stöðum sem það býr á. Því miður hefur það verið svo á undanförnum árum, sérstaklega hvað varðar rekstrarkostnað heimilanna, að ekki hefur náðst hljómgrunnur fyrir því fyrr en nú á allra síðustu árum. Sl. vor var það í stefnuskrá núv. ríkisstjórnar að stuðla að lækkun orkukostnaðar í landinu. Það er jákvætt svo langt sem það nær. Ég óttast hins vegar að ekki sé nóg að gert.
    Einnig hefur verið rætt um að stofnanir þurfi að flytja út á land. Um það hefur verið rætt í áratugi. Hvernig hefur það gengið? Það hefur gengið mjög hægt, það viðurkenna allir. Skógrækt ríkisins var flutt út á land á síðasta kjörtímabili með miklum látum sem allir muna sjálfsagt. Ég hef ekki heyrt um hvaða stofnun eigi næst að flytja út á land. Og ég held að það gangi ekki að vera alltaf að tala um að við ætlum að flytja stofnanir út á land. Það sem þarf að gera er að leggja þær niður í Reykjavík og stofna aðrar nýjar úti á landi. Það þýðir ekki að segja að við ætlum bara að flytja stofnanir út á land heldur verður að leggja þær niður, breyta þeim að einhverju leyti og stofna þær upp á nýtt eða nýjar stofnanir úti á landi. Öðruvísi verður ekki fjölgun í opinberum störfum úti á landi. Hins vegar þarf þetta vissulega að fylgjast að, opinber þjónusta, uppbygging í henni og atvinnuuppbygging með framtaki einstaklinga.
    Samgöngur skipta miklu máli. Samgöngur eru nánast nr. eitt, tvö og þrjú þegar við ræðum um byggðamál, en mikið hefur áunnist í samgöngumálum síðustu árin og við horfum öll til þess að svo muni verða áfram á næstu árum. Við færum staðina saman með því að stytta leiðir á milli þeirra en ekki með því að taka fólkið af einum stað og flytja það yfir á annan.
    En hvar skyldi svo grunnurinn liggja? Ef við reynum að grafa djúpt og leita, hvar liggur grunnurinn í allri þessari búseturöskun? Ég hef nefnt aðstöðumuninn, almennu lífskjörin, en það er líka annað sem er stórt mál. Ég ætla að vitna í bók eða rit sem heitir ,,Byggðamál á Norðurlöndum``, með leyfi hæstv. forseta, hluta greinar eftir Gunnlaug A. Júlíusson:
    ,,Allir þekkja, bæði beint og af afspurn, harmsögu sveitarstjórnarmanna utan af landi þegar þeir fara í ferðir suður til Reykjavíkur í þeim tilgangi að sarga peninga út úr fjárveitingavaldinu. Hér getur verið um að ræða fjárveitingar í verkefni sem viðkomandi sveitarstjórnir leggja sérstaka áherslu á að unnið verði að. Einnig getur verið um að ræða verkefni sem ríkið á að fjármagna að hluta til með sveitarstjórnum, en það stendur ekki við að

greiða sinn hluta án eftirgangsmuna og þá þurfa sveitarstjórnarmenn að herja út lögboðnar skuldbindingar með suðurferðum. Þetta fyrirkomulag, sem of mörgum þykir sjálfsagt, er afar niðurlægjandi fyrir þá sem starfa að sveitarstjórnarmálum, svo að ekki sé meira sagt. Það fyrirkomulag, sem hér er við lýði, að öllu framkvæmdafé skuli úthlutað af Alþingi og í gegnum stofnanir í Reykjavík, er dæmi um lénsskipulag sem hefur verið kollvarpað fyrir löngu í öllum nágrannalöndum.
    Vitaskuld reynir núverandi ástand að viðhalda sjálfu sér því að úthlutun fjármagns fylgja völd. Völdum fylgja margs konar áhrif og fríðindi sem erfitt er að sjá á bak. Því er andstaða við breytingar á því kerfi sem hér er við lýði ekki endilega rökræn umræða sem byggist á staðreyndum, heldur eðlileg tregða núverandi kerfis til að viðhalda sjálfu sér.
    Til þess að auka ábyrgð sveitarstjórnarmanna varðandi ákvarðanatöku í málefnum sinnar heimabyggðar, gera framkvæmdaröðun markvissari og í samræmi við vilja heimamanna, ásamt því að dreifa völdum í þjóðfélaginu, er ekki einungis nauðsynlegt, heldur óhjákvæmilegt að landshlutasamtök fái tekjur beint og milliliðalaust af innheimtu skatts. Með því móti eykst sjálfstæði heimaaðila og völd og áhrif flytjast út á land frá miðstýringunni í Reykjavík.
    Mikilsvert atriði í þessu sambandi er sú atvinnusköpun sem völdum og peningaumsýslu fylgja. Gegnum árin hefur ein af aðalástæðum fólksflótta af landsbyggðinni verið sú að það fólk, sem fer í langskólanám úr hinum dreifðu byggðum, kemur ekki nema að litlu leyti heim aftur vegna þess að verkefni við hæfi þess eru ekki fyrir hendi í heimabyggðum. Þau eru hins vegar fyrir hendi í Reykjavík. Með því að flytja völd, ákvarðanatöku og peningaumsýslu út til landshlutasamtakanna eru störf einnig flutt þangað. Því yrði slík kerfisbreyting, sem hér hefur verið lýst, landsbyggðinni til góðs í margháttuðum skilningi. Þangað væru flutt völd, áhrif og atvinna.
    Með því að byggja upp landshlutasamtök sem hafa sjálfstæðan tekjustofn yrði grundvallarbreyting á valdauppbyggingu í þjóðfélaginu því að peningum fylgja völd og völdum fylgja áhrif. Í stað þess að vera þiggjendur, sem hafa lítil áhrif á forgangsröðun verkefna á annan hátt en með því að senda undirskriftir og óskalista, þá hefðu heimamenn öll ráð í sinni hendi hvað varðar forgangsröðun verkefna á sumum sviðum, svo sem í mennta- og heilbrigðismálum.
    Þýðing slíkrar valdreifingar yrði gífurleg fyrir landsbyggðina. Í stað þess að sækja vilyrði fyrir öllu því sem gera skal suður til Reykjavíkur færi ákvarðanatakan um mörg mikilvæg málefni fram heima í héraði.``
    Og að lokum segir: ,,Ef landshlutasamtök fengju beina tekjustofna og sæju alveg um ákvarðanatöku við ákveðnar fjárfestingar, þá mundu starfshættir Alþingis breytast verulega. Minni hluti af tíma þess færi þá til að huga að fjárveitingum í hin margvíslegustu smáverkefni sem eiga ekkert skylt við aðalverksvið þingsins. Því mundi þessi kerfisbreyting, sem hér hefur verið lýst, hafa í för með sér markvissari vinnubrögð, bæði heima í héraði og einnig í sölum Alþingis.``
    Ég held að með þessu ljúki ég máli mínu um ársskýrslu Byggðastofnunar að sinni.