Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 15:50:00 (572)

     Matthías Bjarnason :
     Herra forseti. Skýrslan um starfsemi Byggðastofnunar á sl. ári sem liggur hér fyrir til umræðu er ekki nema lítill hluti af byggðamálum, aðeins starfsemi einnar stofnunar sem er tiltölulega lítil miðað við þá nauðsyn sem er á að leggja meira fram til byggðamála en gert hefur verið, einkum á undanförnum árum.
    Ég vil taka fram áður en lengra er haldið að að ég er ekki neinn aðili að hinni svokölluðu hvítbók ríkisstjórnarinnar sem ber heitið Velferð á varanlegum grunni og er mjög andvígur mörgu sem í þeirri bók er og sérstaklega því sem lýtur að byggðastefnu. Þetta er heimasmíði ríkisstjórnarinnar sem verður sjálfsagt hægt að ræða miklu ítarlegar á síðari tímum.
    Það er ákaflega gott eins og hæstv. forsrh. sagði að byggðastefnan hefði brugðist. Ég vil bara alls ekki taka undir það. Og þótt hann sé kominn í landsmálin fyrir nokkrum mánuðum held ég að hann eigi eftir að læra mikið hvað hefur gerst í byggðastefnu. En af hverju hefur ekki náðst meiri árangur en raun ber vitni? Það er vegna þess að stjórnvöld á liðnum árum hafa verið að takmarka öll framlög til byggðamála. Það er ekki skemmtileg þróun sem hefur átt sér stað. Ég hef látið taka saman framlög til Byggðasjóðs og síðan Byggðastofnunar í fyrsta lagi á verðlagi hvers árs og nú á verðlagi í nóvember 1991. Hver eru þessi framlög? Þau voru árið 1972, miðað við verðlag í nóvember sl., næstum því 408 millj. En núna er í fjárlagafrv. ætlað að veita 200 millj. Með öðrum orðum, það er lækkun um 20% á milli ára. Hefur þessi þróun átt sér stað allan tímann? Nei, sem betur fer ekki. Árið 1975 lagði ríkisvaldið fram til byggðamála 1137 millj. 1976 1043 millj., 1977 1160 millj. og 1978 1036 millj. Síðan fer þetta ört lækkandi, næsta ár eru þetta 875 millj., svo 625 og niður í 176 millj. á árinu 1988. Svo koma hér menn, berja sér á brjóst og segja: Byggðastefnan hefur brugðist. Hverjir hafa brugðist? Stjórnvöld í þessu landi hafa brugðist byggðastefnunni. Og ég ætla að taka það fram að á árunum 1975--1978 þegar þessi framlög voru langhæst var gróska á landsbyggðinni. Þá var loksins hægt að stöðva fólksflóttann til Suðvesturlandsins á þessum árum. Þá var uppgangur í atvinnumálum og byggðamálum víðast hvar um land. Það sýnir best að þá var tekið á hlutunum með eftirminnilegum hætti. Þá var tekið á hlutunum á þann veg að menn meintu að það ætti að byggja landið allt.
    Ég segi: Byggðastefnan hefur hvergi brugðist. Henni hefur orðið á í ýmsum framkvæmdum eins og víðast annars staðar. Mér þykir ansi hart að gengið að tala um sukk eins og kom fram í ræðu forsrh. Ég á eftir að fá þau orð staðfest þegar ræðan kemur prentuð og mun ekki taka þeim með sérstökum fögnuði og ætla ekki að taka við hverju sem að mér er rétt. Hv. þm. Ragnar Arnalds tók af mér ómakið með því að ræða nokkuð um reikninga Byggðastofnunar og hina frægu úttekt Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun skrifar upp á reikninga Byggðastofnunar 22. mars á þessu ári fyrir árið á undan. Endurskoðun var framkvæmd í samræmi við viðurkenndar endurskoðunarvenjur og í því sambandi gerðar ýmsar athuganir og kannanir á bókhaldi og bókhaldsgögnum sem taldar voru nauðsynlegar. Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af rekstri 1990 og efnahag Byggðastofnunar í árslok sama ár. Undir þetta rita löggiltir endurskoðendur Byggðastofnunar og síðan kemur:
    ,,Með skírskotun til áritunar ofangreindra endurskoðenda er ársreikningur Byggðastofnunar samþykktur. Ríkisendurskoðun.``
    Um Atvinnutryggingarsjóðinn, sem allnokkuð hefur nú verið rætt um, er sams konar yfirlýsing löggiltra endurskoðenda og síðan Ríkisendurskoðunar, en hún er ekki dagsett fyrr en 13. maí 1991, þá setja löggiltir endurskoðendur sína áritun á reikninginn og stjórn Byggðastofnunar samþykkir reikninginn fyrir sitt leyti. Þá hafði það gerst að atvinnutryggingardeildin hafði verið sett undir Byggðastofnun frá síðustu áramótum, en Byggðastofnun hefur ekki komið nálægt einni einustu lánveitingu Atvinnutryggingarsjóðs og er því allsendis utan við þær ákvarðanir sem þá voru teknar. Þessu hefur verið margoft hrært saman, bæði atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar og Hlutafjársjóði hvað eftir annað hrært saman eins og það sé eitt og sama tóbakið.
    Ég ætlaði að fara nokkrum orðum um fyrrv. ríkisstjórn í sambandi við byggðamálin en það tekur því varla að byrja. Það er komin hér orðsending frá forseta að nú þurfi að gera hlé vegna þingflokksfunda. Ég ætla að halda áfram máli mínu þegar þingflokksfundum lýkur, ef það verður þá ekki einhver truflun vegna utandagskrárumræðna. Læt ég svo staðar numið að sinni. --- [Fundarhlé.]