Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 17:29:00 (573)

     Ólafur Ragnar Grímsson :

     Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að kveðja mér hljóðs utan dagskrár til þess að spyrja forsrh. og menntmrh. hvort núverandi ríkisstjórn Íslands hyggst standa við þau fyrirheit og þær skuldbindingar og yfirlýsingar sem ríkisstjórn Íslands gaf, sérstaklega árið 1988 þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sat, varðandi það að halda hér á Íslandi heimsmeistarakeppni í handbolta.
    Um helgina hafa komið í fréttum viðtöl við menntmrh. þar sem hann lýsti því yfir að ekki sé lengur um neinn samning að ræða um að byggja sérstakt hús fyrir þessa keppni og að hann teldi að ríkisstjórnin mundi ekki og þyrfti ekki að aðhafast neitt í þessu máli. Þetta er að mínum dómi mikill misskilningur og mjög alvarlegt ef þetta verður niðurstaða málsins því að þáv. menntmrh. Birgir Ísl. Gunnarsson, þáv. samgrh. Matthías Á. Mathiesen og einnig Matthías Á. Mathiesen sem utanrrh., einnig þáv. menntmrh. Sverrir Hermannsson og Þorsteinn Pálsson sem forsrh. stóðu allir að formlegum yfirlýsingum og bréfaskriftum til Alþjóðahandknattleikssambandsins og allra aðildarríkja þess þar sem heitið var stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar við heimsmeistaramót í handbolta hér á Íslandi og að byggð yrði sérstök leikhöll í því skyni. Í bréfi sem Birgir Ísl. Gunnarsson menntmrh. ritaði til Alþjóðahandknattleikssambandsins í júní 1988 er því lýst yfir að ríkisstjórnin styðji eindregið óskina um að heimsmeistaramótið verði haldið á Íslandi og því lýst yfir að ríkisstjórnin telji að það sé svo mikilvægt að hún ætli að tengja það hátíðahöldum í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Jafnframt tilkynnir hann að samgrh. í þessari ríkisstjórn sé orðinn formaður undirbúningsnefndar.
    Hinn 19. apríl 1988 skrifaði Birgir Ísl. Gunnarsson einnig annað bréf þar sem hann kynnir samþykkt ríkisstjórnar Íslands frá 19. apríl 1988 þar sem því er lýst yfir að ríkisstjórn Íslands muni beita sér fyrir því að byggð verði í samstarfi við Reykjavíkurborg sérstök íþróttahöll til að þessi samkeppni geti farið fram. Þetta bréf er síðan sent í enskri útgáfu til allra aðildarsambanda Alþjóðahandknattleikssambandsins. Það kemur einnig fram í þessum bréfaskriftum að þáv. utanrrh. Matthías A. Mathiesen hefur sent bréf til allra sendiherra Íslands, til allra sendiherra erlendra ríkja á Íslandi og til allra ræðismanna Íslands þar sem óskað er eftir því að þeir beiti sér fyrir þessu. Og í formlegu bréfi sem þáv. menntmrh. Sverrir Hermannsson og þáv. utanrrh. Matthías Á. Mathiesen sendu í júní 1988 er því lýst yfir að ríkisstjórn Íslands óski eftir stuðningi annarra ríkisstjórna og allra annarra aðila við umsókn ríkisstjórnar Íslands, ,,our application``, eins og stendur í þessu bréfi, til að halda heimsmeistaramótið á Íslandi. Síðan er gefinn út sérstakur skrautbæklingur með ávörpum frá forsrh., menntmrh., borgarstjóranum í Reykjavík og samgrh. þar sem aðildarríki Alþjóðahandknattleikssambandsins eru hvött til þess að styðja þessa ósk Íslands.
    Virðulegi forseti. Ég vil þess vegna spyrja að því: Ætlar núverandi ríkisstjórn Íslands að standa við þær yfirlýsingar og samþykktir sem gerðar voru í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og allir þeir ráðherrar sem ég hef hér nefnt stóðu formlega að og sendu bréf um út um allan heim eða á að eyða svo orðstír Íslendinga í alþjóðlegu íþróttasamstarfi með því að draga þetta allt til baka fyrirvaralaust að ekkert aðildarríki neins alþjóðlegs íþróttasambands geti tekið mark á yfirlýsingum íslenskra ráðamanna framvegis?