Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 17:38:00 (575)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta. Ég vek aðeins athygli á því vegna þeirra bréfa sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var að vitna til að þar voru ráðherrar í ríkisstjórn Íslands að hvetja til þess að umsókn Íslands um að fá að halda heimsmeistaramótið í handknattleik 1993 yrði tekin til greina og ríkisstjórnin mundi leggja sitt af mörkum til þess að þetta mót yrði haldið hér. Nú fór það svo að Svíþjóð hlaut mótið 1993 en Ísland 1995. Það hefur ekkert komið fram í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar annað en það að hún muni standa við sinn þátt samningsins sem gerður var milli ríkisstjórnarinnar og Kópavogs á sínum tíma, 5. apríl 1990. Ríkisstjórnin getur hins vegar ekki haldið því að Kópavogi að byggja þetta hús ef ráðamenn þar treysta sér ekki til þess. Ég held að það sem gerðist hafi einfaldlega verið að samningurinn sem var gerður 1990 var Kópavogskaupstað svo óhagstæður að bærinn treysti sér ekki til þess að byggja þetta hús. Það liggur líka fyrir, eins og hæstv. forsrh. sagði, að ríkisstjórnin hefur ekki gefið nein fyrirheit um að hækka þetta framlag, þær 300 millj. kr. sem samið var um á sínum tíma.
    Og til að fyrirbyggja allan misskilning þá ætlaði þessi ríkisstjórn, og ég vona ekki fyrri ríkisstjórnir, sér ekki að halda þetta heimsmeistaramót sjálf. Það voru aðrir. En fyrrv. ríkisstjórn ætlaði að stuðla að því með þessu 300 millj. kr. framlagi og það hefur ekkert komið fram hjá núv. ríkisstjórn annað en að hún muni standa við sinn þátt þessa samnings.