Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 17:40:00 (576)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um það mörg orð á hvaða forsendum núv. forustumenn Sjálfstfl. ætla að slátra svo mörgum af fyrrv. forustumönnum og nota þá til heimabrúks og flokka þá undir fortíðarvanda. Það verða þeir sem yngri eru í Sjálfstfl. að hafa manndóm til að ræða í þingsölum. Hitt er svo umhugsunarefni hvort Kópavogsbær er svo aumur viðsemjandi að við hann sé ekki hægt að gera samninga. Venjan er að halda mönnum við samninga og fylgja því eftir. Og að verðlauna þá með því að greiða þeim fjármuni eins og ríkisstjórnin hefur lagt til, 10 millj., ef þeir hætti við, er fáheyrð ósvífni. Það á ekki að verðlauna þá sem svíkja samninga og koma sér undan að virða þá. Það þarf að kenna öllum aðilum, bæði ríkisstjórn Íslands og einnig sveitarstjórnarmönnum að samningar eins og þessir eru svo mikilvægir varðandi heiður þjóðarinnar að það er gjörsamlega vonlaust að líða það að þeir séu hafðir að leikaraskap hjá meiri hluta hverju sinni. Það voru forustumenn íslenskrar þjóðar, ekki einhverra smáflokka, það voru forustumenn stærstu stjórnmálaflokka þjóðarinnar sem lögðu það til og stóðu að því að þetta yrði gert. Ætla þeir nú allir sem einn að hlaupa eins og hænsni út og suður?
    Ef þetta er niðurstaðan, þá spyr ég: Er Kópavogskaupstaður reiðubúinn að líta svo á að allir samningar íslenska ríkisins við þá verði rofnir hverju nafni sem tjáir að nefna? Það hlýtur að vera grundvallaratriði að það sé hægt að gera samninga við bæjarfélag af þessari stærð, samninga sem standa og það er okkar krafa.