Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 17:52:00 (581)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar gaf út innstæðulausa ávísun á byggingu íþróttahúss vegna heimsmeistaramótsins í handbolta. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar átti engan annan kost en að framkvæma þau fyrirheit sem gefin höfðu verið og ég sem menntrmh. beitti mér fyrir því að það yrði staðið við fyrirheitin. Það er skylda ráðherra að vinna með þeim hætti. Það voru mjög gild fyrirheit sem höfðu verið gefin. Það voru ekki einasta margir ráðherrar sem höfðu sent þetta frá sér heldur t.d. forseti Íslands í bæklingi sem var gefin út í þúsundum eintaka og dreift í allri íþróttahreyfingunni. Þar var m.a. borgarstjórinn í Reykjavík, hann hét þá Davíð Oddsson, og það fylgdi líka litmynd af honum og teikning af Laugardalnum þar sem átti að koma fyrir myndarlegri íþróttamiðstöð, þ.e. myndarlegri en þar er nú. Það voru því mjög gildir menn sem gáfu þau fyrirheit sem hér um ræðir og það varð ekki undan því vikist að vinna að framkvæmd þeirra og ég beitti mér fyrir því sem menntmrh. að það yrði gert. Við náðum samningi við Kópavogsbæ á þeim tíma.
    Nú virðist staðan vera önnur. Nú virðast menn þurfa að leita nýrra leiða og ég segi: Ég skora á ríkisstjórnina í nafni alþjóðasamskipta Íslands yfirleitt að taka á þessu máli á nýjan leik. Ég skora á menntmrh. alveg sérstaklega að beita sér fyrir því sem íþróttaráðherra. Ég minni á að samgrh. er nú að skipa nefnd um að byggja fjölnota hús fyrir ráðstefnu- og sýningarsali og ég spyr: Af hverju reyna menn ekki að tengja þessar hugmyndir saman?
    Ég tel að það sé skylda menntmrh. Íslands að ganga í þetta mál núna og hann er að bregðast embættisskyldu sinni ef hann gerir það ekki. Mér finnst hann ætti að segja við forsrh. eins og einu sinni að hann vilji gjarnan ráða þessu sjálfur og tala fyrir sig.