Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 17:58:00 (583)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég harma það að í svörum hæstv. ráðherra kom ekki fram að þeir vildu verða við þeirri ósk sem ég bar hér fram og það sem verra er er að hæstv. forsrh. fór í vörn sinni með rangt mál. Hann fullyrti í ræðustólnum að þegar ég var fjmrh. hefði ég ekki viljað verða við óskum þeirra sem tóku við meiri hluta í Kópavogi árið 1990. Þetta er rangt. Ég skal upplýsa það hér að aldrei, frá því að nýr meiri hluti tók við völdum í Kópavogi og þar til ég yfirgaf fjmrn. tæpu ári síðar, óskuðu þessir menn í eitt skipti eftir því að eiga fund með mér, hvorki um þetta mál né neitt annað. Þeir óskuðu aldrei eftir því að eiga viðræður við fjmrn. um að breyta þessum samningi eða neitt annað í þá veru. Þess vegna var gengið út frá því í fjmrn. að þeir yndu vel þessum samningi vegna þess að ekkert annað heyrðist frá þeim. Ég bið því hæstv. forsrh. að vera ekki að fara með rangt mál eins og hann gerði hér áðan.
    Í öðru lagi tek ég undir það sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson sagði að það er alveg ljóst að ríkisstjórn Íslands er siðferðilega skuldbundin til að tryggja að heimsmeistaramót í handbolta verði haldið á Íslandi. Það er ekki aðeins í því bréfi sem hv. þm. Ingi Björn Albertsson las hér upp áðan þar sem þáv. menntmrh., Birgir Ísl. Gunnarsson, lýsir því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, og vitnar í samþykkt ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, þar sem þetta kemur skýrt fram, heldur lýsa menntmrh. Sverrir Hermannson og utanrrh. Matthías Á. Mathiesen því yfir í bréfi, sem þeir undirrituðu 9. júní 1987 og var sent á ensku út um allan heim, að það sé umsókn ríkisstjórnarinnar um að fá að halda heimsmeistaramótið í handbolta sem þeir eru að óska eftir að menn verði við. Og 31. ágúst sendi þáv. samgrh., Matthías Á. Mathiesen, á bréfsefni samgrn. bréf á ensku til forseta Alþjóðahandknattleikssambandsins þar sem hann lýsir því sérstaklega yfir að ríkisstjórn Íslands styðji þessa ósk og tilkynnir meira að segja að hann, samgrh. í ríkisstjórninni sem líka er ráðherra ferðamála, sé formaður undirbúningsnefndarinnar. Þegar menn í erlendum löndum fá slík bréf á bréfsefnum ráðuneytanna undirrituð af utanrrh., menntmrh. og samgrh. og samgrh. sjálfur er orðinn formaður undirbúningsnefndarinnar er ekki hægt að skilja málið á annan veg en þann að ríkisstjórn Íslands og þar með lýðveldið Ísland sé búið að skuldbinda sig til að halda þessa heimsmeistarakeppni. Þess vegna tel ég það rangt að það sé bara málefni meiri hlutans í Kópavogi hvort heimsmeistaramótið verður haldið hér eða ekki. Það er málefni Íslendinga og ríkisstjórnar Íslands.
    Ég vil svo láta það koma hér fram að það eru forkastanleg vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar að rifta þessu samningi án þess að ræða málið við Handknattleikssamband Íslands áður --- það var ekki gert --- án þess að ræða málið við það íþróttafélag í Kópavogi, Breiðablik, sem tengist þessum málum formlega með samningagerð. Það var heldur ekki gert. Ég vil upplýsa það hér að íþróttafélagið Breiðablik hefur farið fram á það að fá að reisa þetta íþróttahús í eigin nafni og láta fara fram alútboð til þess að sanna það að hægt sé að byggja húsið fyrir 600 millj.
    Þess vegna er það alveg ljóst að vilji menn á annað borð standa við orð sín og orð Íslands og efla íþróttastarfsemi í landinu, þá eru margar leiðir og mörg ráð til þess að tryggja að svo verði. Ég skora á ríkisstjórnina að taka málið upp að nýju og standa við þau fyrirheit sem hér hafa verið gefin.