Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 21:46:00 (591)

     Egill Jónsson :
     Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það er vissulega ánægjuefni að nú skuli hafin umræða um byggðamál og ég vek athygli á því, sem reyndar hefur komið fram áður í þessari umræðu, að venjulega hefur ekki farið mikið fyrir þeirri umræðu hér á hv. Alþingi á undanförnum árum þegar forsrh. hefur flutt skýrslu um byggðamál. Það er vitanlega ekki að ófyrirsynju því að umræða um byggðamál hefur verið nokkuð hávær í þjóðfélaginu að undanförnu og sannast sagna bæði ómarkviss og að sumu leyti ógætileg. Ég á að sjálfsögðu sérstaklega við ríkisstjórnina í þeim efnum. Ég held að það sé góður kostur fyrir menn sem taka að sér ábyrgðarstörf á hvaða vettvangi sem er að eyða hveitibrauðsdögunum áður heldur en farið er að fella mikla dóma. Ég er ekkert viss um að það reynist mönnum svo afskaplega auðvelt að ná trúverðugri pólitískri stöðu í byggðamálum eftir það sem á undan er gengið. Sannleikurinn er sá að ég held að það sé nú óumdeilt að það eru allir stjórnmálaflokkar nema Kvennalistinn, sem ekki hefur enn þá komist til áhrifa í ríkisstjórn, sem bera ábyrgð á ástandinu í þessu þjóðfélagi, á ástandinu í byggðamálum. Ég get ekki séð að þar sé einhver einn betri en annar í þeim efnum. Mín reynsla er reyndar sú að alþingismenn hafi mikinn vilja til þess að láta gott af sér leiða í málefnum dreifðra byggða um allt Ísland og í þau 12 ár, sem ég hef átt sæti í þingflokki sjálfstæðismanna, hafa ekki verið uppi erfiðleikar á milli manna í þeim efnum. ( Gripið fram í: Og er það svo í dag?) Það hafa ekki verið erfiðleikar á milli okkar sem erum kjörnir utan af landi og þeirra sem hafa verið kjörnir á Alþingi héðan af Faxaflóasvæðinu. Ég held að svo sé ekki enn.
    Það er þess vegna mikil ástæða til þess að menn leitist við að hafa áfram sátt um þessi mál, bæði innan flokka og innan Alþingis. Ég hef t.d. átt sæti í fjárveitinganefnd Alþingis mestalla mína þingsetu og að sjálfsögðu haft þar samstarf við alþingismenn úr öllum flokkum og samtökum og byggðamál hafa ekki valdið þar sérstökum ágreiningi.
    Það er að sjálfsögðu ekkert nýtt að maður hafi heyrt hróp um að byggðastefnan hafi brugðist og ég held að ég muni það rétt að eitt sinn hafi verið boðað til ráðstefnu þar sem að fyrirsögn var haft hvort svo væri eða ekki. Þar fór fram afar vandaður og markviss málflutningur og ég held að flestra dómur þar hafi verið að byggðastefnan hafi ekki brugðist. Ég met það svo að byggðastefnan hafi ekki brugðist og þótt ég hafi farið þessum viðurkenningarorðum um Alþingi og kynni mín af störfum alþingismanna er ég sammála því sem kom hér fram í ræðu hjá hv. 1. þm. Vestf. að það er margt sem hefur brugðist byggðastefnunni. Ef menn ætla að fara að gera úttekt á því eða fella um það dóma hvort byggðastefnan sem slík hefur brugðist eða ekki væri ástæða til að rifja upp hvað menn sögðu á þeim árum sem hvað markvissast var unnið að því að móta byggðastefnu hér á Alþingi.
    Ég hef aðeins litið í þau fræði, að vísu ekki mjög ítarlega, en árið 1966 ritaði Jónas Haralz grein í Sveitarstjórnarmál þar sem hann skýrði tillögur um Vestfjarðaáætlun sem voru byggðar á ályktun Alþingis frá árinu 1963. Það er afar fróðlegt að lesa þessa grein. Þar segir hann m.a. frá því að til þess að ná fram markvissum tillögum í þessum efnum hafi Framkvæmdabankinn, sem hafði verið falið þetta verkefni, leitað til norskra sérfræðinga og byggðist Vestfjarðaáætlunin m.a. á ráðgjöf frá þeim.
    Grundvöllur að þessari áætlun og þeim áherslum, sem komu fram í framhaldi af þessari þál., var að efla byggðarkjarnana. Fá stóra og sterka byggðarkjarna til að efla byggðirnar sem víðast um landið. Þar var talað um Ísafjörð, þar var talað um Akureyri, þar var talað um Egilsstaði og svo var að sjálfsögðu talað um Selfoss og svo mætti lengur telja.
    En það kemur líka fram í þessari umfjöllun að uppi hafi verið miklar efasemdir um að einmitt þessi aðferð gæti gengið, efling byggðarkjarnanna gæti gengið. Þess er sérstaklega getið í þessari umfjöllun t.d. að til þess að mynda bærilega sterkan byggðarkjarna á Vestfjörðum, sem borinn yrði uppi af Vestfirðingum sjálfum, þyrfti að flytja Vestfirðinga alla á einn stað, Ísafjörð, til þess að fá þar byggðarkjarna 10--11 þús. manna. ( Gripið fram í: Hvar kom þetta fram?) Í Sveitarstjórnarmálum, erindi Jónasar Haralz sem ég er hér að vitna til. Það voru því efasemdir á því þegar í upphafi að byggðakjarnarnir og byggðakjarnakenningin gæti skilað þessum árangri. Þetta varð reyndar reynslan. Byggðakjarnahugmyndin skilaði ekki árangri og þetta var sjálfstæðismönnum ljóst. Og þá skal ég víkja að því sem hér hefur verið minnst á, nýjar áherslur okkar í þeim efnum.
    Ég hygg að það hafi verið rétt upp úr miðjum síðasta áratug sem Sjálfstfl. tók þessi mál til nýrrar yfirvegunar. Ég var þátttakandi í því starfi sem fulltrúi þingflokks sjálfstæðismanna en forustu fyrir þessu verki hafði hins vegar Lárus Jónsson, fyrrv. alþm. Þar komust menn meðal aannars að þeirri niðurstöðu að þessi kjarnahugmynd hefði ekki skilað árangri og hennar í stað var tekin upp ný áhersla sem er skilgreind í tveimur landsfundarályktunum Sjálfstfl. sem hefur verið skýrð í tveimur þáltill. sem fluttar hafa verið hér á Alþingi, sú hin fyrri af mér, sú hin síðari af Þorsteini Pálssyni, og reyndar vorum við margir fleiri sem fluttum þá tillögu, þar sem lagt er til grundvallar að efla vaxtarsvæði landsbyggðarinnar. Þar er nákvæmlega skilgreint hvað í því felst. Það eru þær byggðir sem hægt er að tengja saman með daglegum samgöngum, bæði með tilliti til þjónustu og atvinnu. Og hvergi er talað um að þar eigi að vera einhver sérstakur aðflutningur, heldur þvert á móti með svipuðum hætti og kom fram hjá ræðumanni sjálfum, að byggja þessar sóknaraðgerðir á góðum samgöngum sem víðast um landið. Á þessu tvennu er að sjálfsögðu grundvallarmunur og vænti ég að þau mál séu það skýr í okkar stefnu að ekki þurfi að valda misskilningi í þessari umræðu. ( Gripið fram í: En eru þá einhverjar byggðir sem . . . ?) Ég kem aðeins síðar að því.
    Nú er það hins vegar svo að ýmislegt hefur ekki gengið eftir með þeim hætti sem menn hefðu kosið í byggðamálum. T.d. hefur fólki úti á landsbyggðinni fækkað. Auðvitað er það út af fyrir sig óumdeilanlegt að slíkt er veikur þáttur í okkar byggðamálum. En það er margt annað sem hefur tekist með miklum ágætum og íslenskar, dreifðar byggðir hafa gerbreyst á síðustu árum og áratugum. Menningarstarfsemi, félagsstarfsemi, kjör fólksins og atvinnulíf víða úti á landsbyggðinni. Það er afar margt sem hefur færst til betri vegar vítt um byggðir landsins, bæði til sjávar og sveita og ég held að það sé óþarfi að eyða tíma í það hér að telja slíka hluti fram.
    En hvað er það þá sem hefur brugðist? Eins og ég sagði áðan og hef áður sagt, þá hefur ekki vantað áhugann og viljann en samt hafa hlutirnir ekki gengið upp að því er varðar atvinnulífið úti á landsbyggðinni. Ég er sammála því sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., og ég hef nú þegar lesið, að auðvitað hefur atvinnulífið grundvallaráhrif í þessum efnum.
    Mín niðurstaða er sú að við höfum ekki gert nærri nógu vel við atvinnuvegina, hvorki til lands né sjávar. Við höfum rekið sjávarútveginn með halla um áratuga skeið. Hann hefur búið við taprekstur á taprekstur ofan og menn hafa jafnvel lent í því að safna upp hallanum í eins konar kreppulánasjóði. Hann hefur ekki einu sinni á veltuárum fengið að leggja fyrir þannig að hann geti mætt erfiðleikum þegar verr áraði.
    Við höfum með sama hætti búið vel að ýmsu öðru í þessu þjóðfélagi. Ég held að lúxusinn þurfi ekki að kvarta og ég held að eyðslan þurfi ekki að kvarta. Ég held að hlutur þessara þátta hafi verið mun betri en atvinnulífsins og ég held að ekki þurfi að vera að metast um það að svo hefur þetta verið án tillits til þess hverjir hafa stjórnað landinu. Við höfum búið við ranga gengisskráningu og ekki hagað rekstri okkar atvinnuvega með þeim hætti að þar hafi verið hægt að safna upp arði, bæta rekstur og byggja upp nýjar greinar eins og jafnan verður þegar eitthvert fjármagn safnast fyrir í höndum athafnasamra einstaklinga og félaga. Þetta held ég að séu meginmistökin í okkar pólitíska starfi. Og þess vegna held ég og legg á það áherslu að ef menn ætla sér að fara inn á nýjar leiðir, breyta frá því sem verið hefur, hæstv. forsrh., þá eigi að leggja það til grundvallar að bæta þannig rekstrarskilyrði, sérstaklega í sjávarútvegi að hann geti staðið á eigin fótum og byggt sig upp. Þá held ég að margt mundi breytast í landinu.
    Menn hafa talað mikið um fjárfestingu í landinu og þá ekki hvað síst í sambandi við aðalatvinnuvegina, sjávarútveg og landbúnað, og menn hafa haft það á orði hvað þar hafi verið ógætilega farið með peninga. Auðvitað er það svo að lengi má betur vinna, en það er fróðlegt að huga að því hvernig þessi mál hafa þróast. Nýlega hafa alþingismenn fengið í hendur bók um fjárfestingu, ég held alveg frá árinu 1945 til okkar daga. Hún er útgefin af Þjóðhagsstofnun og þar er mikinn fróðleik að fá. Ég var í kjördæminu mínu í gær og sýndi fundarmönnum þar m.a. litskyggnu af því hvernig þessi mál hafa þróast á síðustu áratugum. Því er nú verr að hér er ekki sú tækni að hægt sé að bregða slíku upp, en það er afskaplega mikinn fróðleik að fá í þeim efnum í þessari bók. Þar eru m.a. birtar töflur um það hvaða áherslubreytingar í fjárfestingu hafa orðið á milli tveggja síðustu áratuga. Menn skyldu t.d. varast það að láta fjárlögin sem slík vera heilaga biblíu í þeim efnum. Þá kemur það í ljós að fjárfesting í landbúnaði á næstliðnum áratug hefur minnkað, eins í fiskveiðum. Fiskvinnsla stendur í stað. Flestar aðrar greinar taka til sín meira fjármagn á síðasta áratug en var á áratugnum frá 1971--1980. En þar eru þó fjórar greinar sem skera sig alveg úr og nú ætla ég að geta þeirra aðeins nánar.
    Iðnaður án stóriðju og fiskiðnaðar fjárfesti á áratugnum 1971--1980 upp á 36,5 milljarða kr. Á síðasta áratug fjárfesti hann upp á 58,8 milljarða kr. og var aukning í fjárfestingu á milli þessara tveggja áratuga upp á 22,3 milljarða kr. Iðnaðarmenn héldu ársþing sitt fyrir fáum dögum síðan og höfðu þar uppi háa umræðu um það hvað mikið væri borið í landbúnaðinn og hvað sjávarútvegsstefnan væri röng. Það væri fróðlegt að vita hvað þessi uppbygging í iðnaðinum á síðasta áratug upp á 22,3 milljarða skilaði miklum verðmætum í þjóðarbúið. Viðskiptabyggingar, aðallega verslanir og hótel, fjárfestu á áratugnum 1971--1980 upp á 27,9 milljarða kr. Á síðasta áratug var fjárfesting þeirra upp á 48,8

milljarða kr. og hún jókst á milli þessara tveggja áratuga um 20,9 milljarða kr. Ýmsar vélar og tæki, gröfur og jarðýtur og önnur tól til að vinna öll þessi verk og svo náttúrlega tölvurnar eru í þessum flokki líka, hækkuðu úr 20,3 milljörðum kr. upp í 40,3 milljarða kr. eða um 22 milljarða kr. á milli þessara tveggja áratuga. Og opinberar byggingar hækkuðu úr 38,3 milljörðum kr. upp í 53,9 eða um 15,6 milljarða kr. Hækkun í þessum fjórum flokkum á milli þessara tveggja áratuga er 80,8 milljarðar kr.
    Með þessum hætti hafa menn verið að stýra fjármagninu í landinu. Menn vita það að sjálfsögðu að þetta fjármagn og þessar framkvæmdir hafa skapað gífurlega mikla atvinnu fyrir utan allar húsbyggingarnar sem hafa líka aukist upp á síðkastið. Og auðvitað hafa menn verið að vista fólkið í landinu með tilliti til þess hvernig þessu fjármagnið hefur verið ráðstafað. Ég hygg að það sé ágreiningslaust að þó að það dreifist að sjálfsögðu um allt landið, þá sé þetta fjármagn 80 milljarðar. Er það ekki nokkuð svipuð upphæð og gert er ráð fyrir að næsta álver með veituframkvæmdum muni kosta? Ætli það sé ekki mest hér á höfuðborgarsvæðinu? Og er það nokkur furða þó að það hrikti í byggðunum þegar svona vel er boðið, þegar leitað er eftir fólki til þess að vinna þessi verk?
    Ég geri ráð fyrir því að út úr þessum skýrslum sé hægt að sjá hvar þessar framkvæmdir hafa risið, en það segir kannski sína sögu að fasteignamatsmarkaðurinn segir frá því að hér í Reykjavík einni saman sé núna leitað eftir kaupum á viðskipta- og iðnaðarhúsnæði sem er 200 þús. m 2 að stærð, 20 hektarar að stærð, svo það virðist hafa verið nokkuð vel gefið á garðann í þessum efnum á sl. áratug, 200 þús. m 2 . Ég sé að hv. 2. þm. Vestf. hlýðir á mál mitt. ( Gripið fram í: Með athygli.) Það kemur mér ekkert á óvart, en þetta húsrými er af nokkuð svipaðri stærð og öll íbúðarhús í hans kjördæmi. Með því að skilrúma þetta í sundur og kannski að skjóta einhverjum gólfum í þar sem vegghæðin væri nóg, þá væri hægt að vista alla Vestfirðinga í viðskipta- og verslunarhúsnæði hér í Reykjavík sem nú er á söluskrá.
    Þetta eru brestirnir í byggðastefnunni. Og hverjir skyldu hafa fjármagnað þetta? Það væri kannski ástæða til þess að spyrja um það í Landsbankanum þegar menn eru núna uppi með stór orð um það að sjávarútvegurinn sé að verða þar sérstakur ómagi.
    Því var aðeins kastað fram í umræðuna áðan hvort í þessari skilgreiningu okkar sjálfstæðismanna í byggðamálum fælust einhverjar bendingar um að það ætti að fella af einhverjar sérstakar byggðir. Svo er ekki. Ég held að reynslan sýni að það sé afskaplega ógætilegt að tala með þeim hætti. Fyrrv. forsrh. varð þetta á í sambandi við fámennt byggðarlag norður í landi, Kópasker, og það vildi reyndar svo til að þangað fór ég í vettvangskönnun á liðnu sumri ásamt þeirri nefnd sem ég stýri hér í Alþingi, landbn. Alþingis. Við fórum þar á margan hátt í afar athyglisvert ferðalag sem reyndar vakti mikla eftirtekt áður en lagt var af stað því að ríkisstjórnin var m.a.s. svo vinsamleg að taka upp umræðu um þessa ferð á sínum fundum og forsetar þingsins --- sem voru í miklu annríki, m.a. að búa sig til Japans, ég held einir fimm saman og minna mátti það nú ekki vera, enda átti elsta þjóðþing veraldar hlut að máli svo að menn urðu að fara vel búnir í þá ferð --- en samt gáfu menn sér tíma til að hugsa til kotunganna hér uppi á Íslandi sem skipuðu landbn. Alþingis og gáfu út góðar reglur til þess að vinna eftir ( Gripið fram í: Hverjar voru þær?) svo að alls staðar væri séð fyrir góðum reiðum og bærilegri framkomu. En við fórum á þessar slóðir alveg norður í Öxarfjörð og Kelduhverfi og norður á Kópasker. Og ég verð að segja það alveg eins og er að þó að ég telji mig þekkja nokkuð vel til á landsbyggðinni, þá fannst mér koman þangað norður eftir vera uppörvandi og meira að segja afar uppörvandi. Í störfum fólksins þar sá ég ýmsa þá nýbreytni, framtakssemi og hugvit sem ég og mínir samnefndarmenn lærðu mikið af. Og þetta er byggðarlag sem fékk þunga dóma fyrir fáum árum.

    Tvö fámenn byggðarlög í mínu kjördæmi hafa líka fengið að heyra sitt af hverju í þessum efnum og ég skal nafngreina þau; Breiðdalsvík og Stöðvarfjörður. Það er víða meiri vandi núna á Austurlandi í atvinnumálum en í þessum fámennu byggðarlögum. Þau hafa náð býsna góðu valdi á sínum málefnum. Veit ég að fleiri þingbræður mínir geta staðfest það hér. Það er nefnilega vissara að fara varlega í dómum um þessi efni. Ég hef sagt það áður, þar sem menn eru núna sérstaklega að leggja til grundvallar í þessari byggðaumræðu sameiningu sveitarfélaga og annað slíkt, að við sköpum ekki aukin verðmæti með því. Við skulum láta fólkið vera í friði þar sem það vill vinna og starfa og þar sem það vill sjálft skapa sér félagslegt umhverfi. Það er grundvallaratriði.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Mönnum gefst víst kostur á því að tala hér öðru sinni og nóg er nóttin löng þó að alþingismenn gefi sér tíma til þess að brjóta byggðamálin bærilega til mergjar í þessari umræðu.